HM:Dagur 6 – 1. umferð lýkur

Ef svo ólíklega vill til að greyin Sverrir og Ármann slysist inn á þessa síðu þá býð ég þeim í HM-áhorf í Betrabóli. Ég vakna alla morgna klukkan sex og horfi á leiki dagsins fram til að verða eitt. Svo lengi sem þeir öskra ekki of mikið fyrir klukkan sjö, konan og nágrannarnir mega jú sofa þó að ég horfi á minn bolta.

Rússland 2-0 Túnis
Þetta var nú með því ódýrara sko. Rússar voru lengi vel á hælunum, Túnismenn ógnuðu þeim hvað eftir annað með lipru spili og góðri liðsvinnu. Á 59. mínútu er þvaga við vítateig Túnismanna, markmaðurinn handsamar knöttinn og í stundarbrjálæði kastar hann boltanum út á vinstri kantinn, beint á Rússa sem að reynir að brjótast upp að vítateignum, missir boltann þar en Igor Titov nær að klóra í knöttinn með stórutá og skorar mark frá jaðri vítateigsins. Túnismenn halda áfram að láta rússnesku vörnina skammast sín en eftir 5 mínútur ná Rússar að senda boltann yfir miðlínu á sóknarmann sem að fer mikinn í vítateignum og hálfpartinn veiðir vítaspyrnu. Karpin skorar af öryggi og gjörsamlega gegn gangi leiksins eru Rússar með 2-0 forystu. Túnismenn halda áfram sóknartilraunum sínum og eiga fjöldamörg næstum-því-færi sem og alvöru færi, Rússar bjarga við línu og þar fram eftir götunum. Úrslitin endurspegla alls ekki leikinn sjálfan en svona er knattspyrnan. Það sem mér finnst verst er að Örn fær fyrir þetta 15 stig í Draumadeildinni, 5 stig fyrir hvern varnarmann Rússa sem hann er með í liðinu sínu. Það vill svo skemmtilega til að þessir menn voru einmitt hrikalega lélegir í leiknum en það er ekki horft á það, hann tekur því svakalega forystu í draumadeildinni. Skandall.

Portúgal 2-3 Bandaríkin
Hvað skal segja? Portúgalir byrja leikinn af ákafa og með þessu fína spili sínu, Bandaríkjamenn fá hornspyrnu á 3. mínútu og skora úr henni eftir klaufagang varnarmanna. “Jæja, heimurinn ferst svo sem ekki” hugsa Portúgalir og stilla bara aftur upp. Portúgalir halda áfram að sýna galdramátt sinn en varnarlínan virðist voðalega veik, þungir miðverðirnir hafa ekkert í fljóta sóknarmenn Bandaríkjanna. Eftir hálftíma myndast þvaga fyrir framan vítateig Portúgala, varnarmaður sendir boltann á miðjumann rétt fyrir utan teiginn en hann rennur og Bandaríkjamaður kemst í boltann, reynir að stinga boltanum inn í teiginn en Portúgali hreinsar í burtu í átt að hliðarlínu, stendur þá ekki þar Bandaríkjamaður sem er fullkomlega rangstæður, en í rétti þar sem Portúgali sendi á hann. Bandaríkjamaðurinn fer nær og gefur fyrir að marki, flýgur þá ekki Jorge Costa fyrir, boltinn fer í kollinn á honum, breytir um stefnu og lekur inn í nærhornið. 2-0! Áfram halda Portúgalirnir sókn sinni en sex mínútum síðar geysast Bandaríkjamenn í sókn, gefa fyrir markið og þar horfir Fernando Couto á Bandaríkjamanninn, sem hann átti að passa, skalla boltinn í markið einn og óáreittur. 3-0! Núna fóru Portúgalir aðeins að pæla í hlutunum, “bíddu.. það er 3-0 fyrir ÞEIM?! Þetta er eitthvað ekki að passa” og hefja stórsókn. Atgangurinn skilar aðeins einu marki fyrir hálfleik. Seinni hálfleikur er eign Portúgala, en alltaf vantar smiðshöggið á að ná marki, fyrir utan sjálfsmark Bandaríkjamanna. Óvænt úrslit, og staðan í riðlinum alveg öfug við spár manna. Portúgalir verða að vinna báða leikina sem eftir eru til að eiga von núna.

1. umferð búin
Þar með lauk 1. umferð riðlakeppninnar. Frábær skemmtun í flestöllum leikjanna, mörg óvænt úrslit og ekki einn einasti 0-0 leikur. Samtals skoruð 45 mörk sem að mig grunar að sé nýtt met. Gaman að sjá hversu mikill sóknarbolti hefur verið í gangi, sem og að þjóðir utan Evrópu og Suður-Ameríku eru orðnar feykisterkar. Ennþá eru þó stóru nöfnin undir verndarvæng dómara, það skiptir máli þegar sóknarmaður er felldur í vítateig hvort hann er brasilískur eða tyrkneskur, Þjóðverji eða Túnismaður. Evrópuþjóðirnar eru nú búnar að vakna upp við það að hnoðboltinn þeirra virkar ekki lengur gegna óþekktari liðunum, aðeins Þjóðverjar gátu nýtt sér hann vel gegn Sádum.

Þýskaland 1-1 Írland
Þjóðverjar rassskelltu vont lið Sádi-Araba í síðasta leik sínum, og lítið hægt að dæma um styrkleika þeirra þar. Þessi leikur reyndist með þeim leiðinlegri í keppninni hingað til. Tvær Evrópuþjóðir mætast með frekar leiðinlegan stíl hvor um sig, hnoðast upp með boltann og svo er krossað fyrir framherjana, svipuð fágun og skemmtun og vélmenni sýnir við færiband í verksmiðju. Mætti ég þá biðja um að sjá Suður-Kóreu, Nígeríu, Tyrkland og fjöldamargar önnur lönd spila. Þjóðverjar reyndust vera svipaðir og áður, firnasterk 6 manna varnarlína með 3 manna fremri varnarlínu. Ekki neitt fyrir augað en þeir eru gera það vel sem þeir gera, loka svæðum og umkringja sóknarmenn og hnoða svo boltanum upp völlinn. Minn mann í Þýskalandi vantar sárlega, Mehmet Scholl sem er meiddur (knattspyrnuhæfileikana sækir hann til Tyrklands). Írarnir eru voða duglegir greyin en spila ekki mikið sín á milli, hnoðast upp með boltann. Þjóðverjar skora skólabókarmark í fyrri hálfleik, Írar jafna á baráttunni á 92. mínútu. Örn kom við og sá hluta af leiknum, hann er með Kahn í liðinu sínu þannig að það hlakkaði í honum þegar hann fór á 80. mínútu. Ég varð nú að hringja og segja honum að Kahn hefði ekki haldið hreinu, engin sex stig þar. Þessi 15 fyrir lélegu Rússana voru meira en nóg fyrir hann í dag.

Eftir boltann skaust ég á Kambsveginn og hringdi á greiðabíl, við fórum með hjólin okkar og bókaskáp á Flókagötuna. Enn er pláss fyrir fleiri húsgögn en það minnkar ört. Ragna bauð okkur í mat, Sigurrós vann frameftir þannig að hún fékk hann bara maukaðan. Fengum svo Einar frænda hennar upp úr 21 til að meta með okkur þær framkvæmdir sem eru næst á dagskrá. Maður á alltaf að tékka á hvað atvinnumenn hafa að segja um hluti sem viðvaningar ætla að reyna að gera. Reynslan er nefnilega merkilega góður kennari.

Áhugavert:

  • Rivaldo er frægur, fær bara sekt en ekki leikbann
  • We hung the most dimwitted essays on the wall
  • Comments are closed.