HM:Dagur 9

Brasilía 4-0 Kína
Kínverjar byrja leikinn mjög fjörlega og sýna meiri ógnun við vítateig Brasilíumanna en öfugt. Á 15. mínútu fá Brasilíumenn aukaspyrnu og Roberto Carlos smellir boltanum í markhornið, 1-0 og hans fyrsta mark úr aukaspyrnu fyrir Brasilíu í 2-3 ár. Á 32. mínútu klikkar vörn Kína í fyrsta sinn þegar að Rivaldo potar fyrirgjöf í markið. Á 44. mínútu fær Ronaldo vítaspyrnu og ljótasti knattspyrnumaður seinni tíma, grey Ronaldinho, skorar af öryggi. Búlgarinn Trifan Ivanov hefur stundum fengið þennan titil en hann er fjarri því jafn ljótur og Ronaldinho. Grey strákurinn. Á 55. mínútu fær Ronaldo svo að pota inn marki og innsigla sannfærandi sigur Brasilíumanna. Kínverjar spiluðu feykivel þrátt fyrir þessi úrslit, engar kýlingar upp völlinn heldur spiluðu þeir sig úr vandræðum og sýndu góða boltameðferð og leikskilning. Þjóð á uppleið tvímælalaust, þó að þeir séu enn í neðri deildinni í alþjóðaboltanum. Gaman að sjá brasilísku leikmennina klobbaða af þeim kínversku trekk í trekk.

Suður-Afríka 1-0 Slóvenía
Óverðskuldað tap Slóvena gegn Spáni hafði slæm áhrif, fyrirliði þeirra, Zlatko Zahovic, lenti í hörkurifrildi við þjálfarann og var sendur heim með snatri. Mikil dramatík og læti og þegar á reyndi voru Slóvenar alls ekkert viðbúnir því að fara að leika aftur. Suður-Afríka réð leiknum og Slóvenar gerðu fátt af viti. Mark á 4. mínútu skildi liðin að í leikslok. Skemmtilegt lið Slóvena því úr leik að sinni.

Ítalía 1-2 Króatía
Daufur fyrri hálfleikur en í seinni hálfleik fór fjör að færast loksins í leikinn. Ítalir komast yfir með marki frá markamaskínunni Vieri (Vieri og Morientes saman.. óstöðvandi hugsa ég), en Króatar pota tveimur mörkum inn og svo er línuverðinum eitthvað illa við Ítalina, dæmir tvö lögleg mörk af þeim. Fínn sigur fyrir Króatíu, en óheppni hjá Ítölum.

Comments are closed.