HM:Dagur 3

Vaknaði við vekjaraklukkuna í morgun, 04:45 stóð á henni. Þetta voru ekki mistök, ég ætlaði mér nefnilega að vera fyrir framan sjónvarpið þegar að bein útsending frá HM hæfist klukkan 05:10, stórleikur Argentínu og Nígeríu fyrstur á dagskrá.

Argentína 1-0 Nígería
Gaman að sjá tvö lið spila þar sem hver einasti leikmaður kann fótbolta, getur gefið boltann meir en skammlaust og hreyft sig án hans. Ég hafði talsverðar áhyggjur af Nígeríumönnum fyrir leikinn, þjálfaramálin hafa verið í rugli og mikil úlfúð verið í kringum val leikmanna í liðið þannig að líkur voru á því að þeir næðu ekki að stilla saman strengi. Í fyrri hálfleik virtist þessi ótti minn verða að veruleika, Argentínumenn byrjuðu með hrikalega pressu og Nígeríumenn lentu í verulegum vandræðum. Undir lokin gáfu Argentínumenn aðeins eftir og vörn Nígeríumanna fór að braggast. Í seinni hálfleik héldu Nígeríumenn áfram að eflast, en sýndu sama veikleika nú og hefur hrjáð þá undanfarið. Veikleikinn er varnarvinna í föstum leikatriðum, og markið sem Argentínumenn skoruðu kom einmitt upp úr svoleiðis, einfaldur skalli frá fríum Batistuta (Batistuta og frír þýðir bara mark, mjög einfalt). Argentínumenn eru með svakalegt lið, fáránlega teknískir og með frábært leikskipulag og samvinnu.

Áður en næsti leikur byrjaði var sýnd mynd af Joao Havelange, fyrrum forseta FIFA og ofurskriðdýri, hann virðist vera í heiðursstúku á hverjum einasta leik sem er spilaður í Suður-Kóreu.

Paragvæ 2-2 Suður-Afríka
Paragvæar töpuðu mjög naumlega fyrir Frökkum í 16-liða úrslitum á HM 1998, á gullmarki. Þeir voru því fyrirfram mun líklegri til sigurs hér en Suður-Afríkumenn sem að gerðu engar rósir á sama HM. Raunin varð líka sú að Paragvæar yfirspiluðu Suður-Afríkumenn í fyrri hálfleik, fantagott lið sem að þeir eru með. Roque Santa Cruz hélt þremur varnarmönnum í fullri vinnu og vann þá oft í þessu ójafna einvígi, hann átti víst líka sinn eigin prívat áhangendaskara þar sem að hópur skólastúlkna öskraði grúppíuöskri í hvert skipti sem að boltinn kom nálægt honum. Suður-Afríkumenn söfnuðu gulu spjöldunum í fyrri hálfleik af miklum móð, frekar grófir í tæklingunum. Þeir komu hins vegar tvíefldir í seinni hálfleik og sýndu mun betri spilamennsku, eftir að Paragvæar komust svo í 2-0 ákvað hinn afspyrnu leiðinlegi þjálfari þeirra, Cesare Maldini, að skipta yfir í vörn, 40 mínútur til leiksloka og staðan 2-0, ofboðslega ítalskt og leiðinlegt. Raunin varð enda sú að Suður-Afríkumennirnir áttu seinni hálfleikinn og jöfnuðu verðskuldað á lokamínútunum úr vítaspyrnu sem að markvörður Paragvæ gaf þeim, með Chilavert í markinu hefði þetta orðið öruggur sigur. Jöfnunarmarkið kom vel á vondan, sumsé Maldini, en ég vorkenni Paragvæunum samt, þeir áttu þetta ekki skilið, hvað þá þjálfarann. Stór mistök sem að knattspyrnusambandið gerði að reka vinsælan, vel liðinn og virkilega góðan þjálfara til þess að ráða ofmetinn, leiðinlegan og elliærann þjálfara.
Algjör gullkornssetning kom fram hérna:

MacBeth yfir á MacDonald

Shakespeare hefði orðið stoltur af nafngiftum Suður-Afríkumanna.

England 1-1 Svíþjóð
Ekki bjóst maður nú við mjög miklu af Englendingum fyrir mótið, leikmannahópurinn sem var valinn var með áberandi gloppu, fáir og léttir miðjumenn. Því kom það manni talsvert á óvart að sjá þá mun betri aðilann í fyrri hálfleik á móti Svíum. Svíar spiluðu reyndar eins og Englendingar í den, boltanum sparkað blint fram og vonað það besta. Þetta er auðvitað taktík sem að Englendingar þekkja fram og aftur og því var þetta auðvelt fyrir þá, vörnin þeirra þekkir ekkert skemmtilegra en að taka á móti svona háum boltum, einkum þegar að framherjar andstæðinganna eru mun minni og veikbyggðari. Mark Englendinganna var gott, hornspyrna frá Beckham og skalli frá Sol Campbell. Í seinni hálfleik komu Svíar hins vegar til þess að spila fótbolta, héldu boltanum niðri og gjörsamlega völtuðu yfir enska liðið. Fyrrum Sheff Wed maðurinn Niclas Alexandersson jafnaði með flottu marki fyrir utan vítateig. Ef að Henrik Larsson hefði verið vakandi hefði hann svo getað bætt við tveimur mörkum. Englendingar sluppu því fyrir horn en ekki komast þeir upp úr riðlinum með svona spilamennsku.

Spánn 3-1 Slóvenía
Spánverjar eru frægir fyrir það að vera ofboðslega góðir í fótbolta með félagsliðum, og ofboðslega lélegir á stórmótum landsliða. Af þessum leik að dæma er ástæðan einföld, leikmenn hreyfa sig lítið án bolta og virðist einna helst sem að fyrirmælin sem menn fá eru “þú ert vinstri bakvörður” og búið. Mörkin sem að Spánverjarnir skoruðu komu eftir að einn leikmaður ákvað að þessi tilgangslausi bolti sem þeir spiluðu væri slappur og bjó til færi sem að annar Spánverji sá og nýtti. Leikmenn eru allir mjög flinkir og kunna fótbolta en liðssamvinnan er harla lítil, liðið bjó ekki til mörkin heldur einn maður í hvort skipti. Slóvenar börðust vel og voru Spánverjum mun erfiðari en markatalan sýnir, þeir minnkuðu muninn í 2-1 á 80. mínútu og voru svo að ógna verulega þangað til að dómarinn gaf eina fáránlegustu vítaspyrnu sem að sést hefur, Spánverjar skoruðu og staðan 3-1. Slóvenar eru af svipuðum styrkleika og Paragvæar, það verður því barátta milli þeirra hvort liðið eltir Spánverja úr riðlinum. Spánverjar verða ekki meistarar á meðan að þeir koma sér ekki upp taktík, sama hversu flinkir þeir eru hver um sig.

Bandarískir íþróttablaðamenn gera hins vegar fátt annað þessa dagana en að segja hvað þeim finnst fótbolti asnalegur og leiðinlegur. Hefði haldið að það væri lítil gúrkutíð samt í gangi hjá þeim, NBA og fleira á fullu hjá þeim, auglýsingarnar um fótboltann í sjónvarpinu virðast hins vegar pirra þá. Sumir eru þó í betra skapi.

Áhugavert:

  • World’s last football-free zone
  • Comments are closed.