Vakti frameftir í gærkveldi og nennti því ekki að vakna klukkan sex til að sjá líklega óáhugaverðasta leik mótsins, Kína – Kosta Ríka.
Japan 2-2 Belgía
Japanir komu skemmtilega á óvart, mjög vel skipulagðir með fínt spil og flinka leikmenn. Belgarnir voru hrikalega slappir, sáu fyrir sér litla og létta Japani og ætluðu bara að hnoðast í gegnum þá á líkamsstyrknum. Það er aldrei góðs viti að fara í svoleiðis taktík, og það sýndi sig. Bæði mörk Belga komu eftir þvögu við vítateig, en Japanir skoruðu glæsileg mörk og slakur dómari leiksins stal af þeim fullkomlega löglegu marki. Frábær frammistaða Japana. Belgar munu ekkert gera af viti með svona spilamennsku. Arnar Björnsson er mikið fyrir að fá umdeild atvik og leikaraskap, hann er greinilega af gulri pressugrein, því fær hann titilinn “spekingur” hér.
Suður-Kórea 2-0 Pólland
Pólverjar virtust ekki hafa fylgst með vandræðum Belga, því þeir mættu hér með nákvæmlega sömu taktík í farteskinu, dæla háum boltum inn í teig og láta stóru mennina um afganginn. Frábærlega skipulagt lið Suður-Kóreu kom öllum á óvart með öguðum leik, vörnin steig varla feilspor, og úti á vellinum yfirspiluðu Suður-Kóreumenn Pólverjana gjörsamlega. Evrópsku liðin þurfa aðeins að fara að pæla í því að svona groddataktík gengur ekki lengur upp þegar að andstæðinarnir eru farnir að spila fínan fótbolta. Verðskuldaður sigur Suður-Kóreu, þeirra fyrsti í HM-sögu þeirra.
Kína 0-2 Kosta Ríka
Vona að hinn frábæri þjálfari Kína, Bora Milutinovic sem ég hitti á HM98, fyrirgefi mér að hafa ekki nennt að vakna til að sjá hans menn. Þeir reyndust vera sæmilega teknískir og léttleikandi en með stór göt í vörn, miðju og sókn. Kosta Ríka voru frekar óspennandi og leikurinn eini svona lélegi leikur keppninnar hingað til. Kosta Ríka potuðu inn mörkunum og það dugði þeim.
ADSL-routerar hafa víst orðið sambandslausir um allan bæ, þar á meðal í Betrabóli. Síminn segir að viðgerð standi yfir.