Monthly Archives: April 2002

Uncategorized

Þarfagreining

Fór upp úr 10 í morgun í skólann og fyrir utan tvö matarhlé hef ég haldið mig þar ásamt verkefnisfélögum mínum. Klukkan er nú 23.30. Þarfagreiningarskýrslan er eiginlega komin, og hönnunarskýrslan er á góðri leið. Leggjum að sjálfsögðu mikla áherslu á að klára alla hönnun áður en við svo mikið sem forritum einn einasta stafkrók. Ef það er eitthvað sem að veldur því að verkefni lenda í vandræðum er það ónóg hönnun. Morgundagurinn verður svipaður, mætt klukkan tíu og haldið áfram fram eftir kvöldi. Þar sem við erum að vinna með verðum við að nýta kvöldin sem mest á meðan að skólakrakkarnir nýta sér aðeins dagana. Um mánaðamótin förum við hins vegar öll nema eitt í frí í vinnunni og getum þá verið allan daginn einnig. Þangað til þá er miskunnarlaus keyrsla.

Uncategorized

Gettu Betur 1995

Mér sýnist sem að orðið hlutlaus sé nú orðið óæskilegt, þess í stað tala allir um hlutlægni, embættismannafnykur af því orði, stofnanamál er ljótt og á að banna.

Vefþjóðviljinn er misgáfulegur greyið, þessi pistill þeirra bendir til þess að þeir vilji að forsetinn haldi sig við hefðir, ekki lögin. Sjá færslu mína í fyrradag.

Stefán Pálsson rifjar upp sára æskuminningu, tap okkar fyrir Versló í fjórðungsúrslitum Gettu Betur 1995. Þess má geta að þrjú svör sem voru rétt voru ekki tekin gild í hraðaspurningunum, dómarinn tilkynnti sí svona að nú væri ný regla í sjónvarpinu sem var ekki í útvarpinu (þar sem við höfðum náð bestu stigatölu allra liða í hraðaspurningum, MR náðu okkur ekki þar), ef að pass kæmi á sama tíma eða á undan svari þá gilti passið. Þrjár spurningar sem ég svaraði sekúndubroti eftir að Bjarni passaði á þær. Ég skrifa þetta á dómarann að láta okkur ekki vita af þessum breyttu reglum áður. Við jöfnuðum svo á lokaspurningunni en náðum ekki aukaspurningunni (sem á þessum tíma var bara ein). Þetta var virkilega sár stund, við vorum með betra lið, en höfðum ekki æft bjölluspurningarnar, við biðum alltaf eins og prúðir drengir eftir því að spyrillinn kláraði áður en við ýttum á bjölluna. Spyrillinn var annars Ómar Ragnarsson sem að tókst að ofbjóða velsæmiskennd okkar í búningsherbergjum áður en keppnin hófst, mjög ósmekklegur brandari um barn sem hafði skaðbrennst í heitum potti stuttu áður. Síðan þetta var hef ég aðeins horft á 3-4 þætti af Gettu Betur. Þetta nísti mitt saklausa hjarta lengi vel. Eftir á að hyggja þá hefðum við líklega tapað úrslitunum á móti MR en öll önnur lið áttum við að taka, við hefðum hins vegar ekki tapað eins illa og Versló enda okkar lið þriggja manna. Haukur Eggertsson var Versló-liðið, enda Kópavogsbúi.

Þá er að halda áfram í þessu lokaverkefni, við erum búin að hola okkur niður í skólanum, erum þar með aðstöðu.

Uncategorized

Lokaverkefni

Lokaverkefnið hófst í dag. Hverri önn í HR lýkur með stóru þriggja vikna lokaverkefni, sem er sérnámskeið. Í þetta sinn eigum við að búa til nokkurs konar skiptivörumarkað (bækur og annað efni) sem að nemendafélagið er að pæla í að koma á fót (og velja væntanlega það verkefni sem þeim líst best á).

Þetta verður stíf törn fram til 10. maí þegar við eigum að skila (lokafrestur það er).

Áhugavert:

  • How Blatter and his friends stole a country’s vote
  • Old Firm must note Platini quest
  • Helicopter pilot “refused order to blast Palestinian house”
  • Is the pro-Israel media lobby losing its grip? (mögnuð ljósmynd)
  • Battle.net goes to war
  • Uncategorized

    Hlutverk forseta

    Nú eru stjórnmálamenn margir hverjir ósáttir við það að Ólafur forseti hafi rofið hefð, og tjáð sína skoðun á pólitísku málefni. Hvort að ég sé sammála orðum forsetans eða ekki skiptir mig engu máli, heldur hitt hvað forsetaembættið snýst um.

    Yfirlýsingar þessara stjórnmálamanna benda greinilega til þess að þeir vilja að forsetaembættið sé okkar eigin útgáfa af konungsveldi, forseti er puntudúkka sem að skrifar upp á allt sem frá Alþingi kemur (þó að í lögum hafi hann heimild til þess að neita því, sjá 26. grein stjórnarskráar Íslands) og eina tjáningin sem að er embættinu þóknanleg (samkvæmt hefð) er að kyssa smábörn í opinberum heimsóknum og segja útlendingum hvað Ísland sé fallegt og Íslendingar klárir og duglegir.

    25. grein stjórnarskráar Íslands kveður á um að forseti megi leggja fyrir Alþingi lagafrumvörp. Af þessum tveim greinum stjórnarskráarinnar var augljóslega ætlast til þess að forsetinn væri meira en puntudúkka. Hann ætti að taka virkan þátt í lýðræðinu.

    Valdhöfum er bráðhollt að hafa aðila sem að getur stöðvað gönuhlaup þeirra og sett verk þeirra í dóm þjóðarinnar. Þetta ætti til dæmis að gera ef að lög um milljarðasukk (verksmiðjurnar tvær) komast á borð forsetans, honum ber að hlýða á þjóð sína og leggja þessi lög undir dóm hennar.

    Annars getum við alltaf boði Karli prins loks konungsembætti, greyið virðist ekki ætla að fá að verða konungur Englands, og maðurinn er þrautþjálfuð puntudúkka, passar fínt á Bessastaði (séð frá ráðherrum og þingmönnum sem vilja þröngva sínu í gegn og skítt með þjóðina).

    Áhugavert:

  • The Platform for Privacy Preferences
  • Tölvuiðnaðurinn veit það sem skemmtiiðnaðurinn veit ekki
  • Uncategorized

    Sítengdur leigubíll

    Ferðaðist með leigubíl í dag vegna vinnunnar og lenti á skemmtilega tæknivæddum bílstjóra. Í framglugganum var hann með örbylgjumódem og snúru úr því í fartölvuna sína. Hann er svona sítengdur alla daga, töff að geta bara verið á netinu á meðan að beðið er eftir næsta útkalli. Þeir eru víst einir 5 leigubílstjórarnir sem hafa tengt sig svona.

    Áhugavert:

  • Ant supercolony dominates Europe
  • Burt með vondu kallana
  • Uncategorized

    Próf: Stýrikerfi 1

    Jæja, ætti nú að ná þessu prófi held ég. Var inni í rúma tvo tíma sem er seinni tíma met, enda mikið að skrifa. Þá er bara næst fimmtudagurinn þegar okkur er sett lokaverkefnið fyrir, og þriggja vikna törnin hefst.

    Skruppum áðan að velja okkur nýjan síma, fyrri síminn minn dó víst án sjáanlegrar ástæðu þannig að við fórum með hann í viðgerð til Símans. Þar hvarf hann svo á undarlegan hátt, ekki fundist tangur né tetur af honum, þannig að okkur var boðið að koma og velja okkur nýjan. Okkur til mikilla vonbrigða var hvergi að finna þar svipaðan síma, hann var þráðlaus Doro með langt tól, fín stærð. Sættumst loks á að fá okkur InterLinc síma með 30 númera minni og einhverju aukadóti. Allir símarnir voru á stærð við gemsa, of litlir til að okkur geðjaðist að þeim jafnt og þeim gamla. Eitt sem mér finnst alger skandall, ekki hægt að heyra hringingarnar í símunum, þó ekki væri nema að setja á geisladisk hringingar símanna… hringingin skiptir máli. Mér er nokk sama hvort að símsvari er eða ekki, mér finnst skipta máli hvort að hringingarnar sem eru í boði séu ásættanlegar (sumir símar eru bara beint frá tónlistarsal helvítis).

    Þórlindur ætti víst að skoða tímatöfluna aðeins betur, ég er búinn að plana júní út í gegn, vakna rúmlega 6 og horfi á leik klukkan 6.30 (sem er ekki mið nótt…), klukkan 9 og 11.30 (miður dagur!). Allir leikirnir voru komnir í dagbókina mína í byrjun árs!

    Það eru greinilega fleiri en deCode sem vilja fá ríkisábyrgðir, nauðalíkt dæmi að gerast í Arizona.

    Áhugavert:

  • Undarleg frétt (frá Kára)
  • Dulin auglýsing fyrir Oz?
  • Fjarvinna, goðsögn krufin
  • Internet vs marriage
  • Snilld!
  • Harður heimur tónlistarinnar
  • Uncategorized

    Ekki lögfræðingur

    Í Kastljósi áðan voru einhver merkimenni að ræða um refsiramma og kynferðisafbrot. Elín Hirst ætlaði auðvitað að henda beini í einn gesta sinna (spyrja spurningar sem að viðkomandi beið spenntur eftir) og spurði hvort það væri “sanngjarnt að maður sem fremur kynferðisafbrot gegn barni í dag fengi mun lengri dóm en maður sem hefði gert það sama fyrir nokkrum árum”. Auðvitað svaraði lögfræðingurinn því að “Nei, það væri ekki sanngjarnt”. Ef að upphaflegi dómurinn hefði verið tíu ár, og sá síðari verið 12 ár þá hefði ég kannski skilið svarið. En fyrri dómurinn var um ár og sá seinni tvö og hálft minnir mig.

    Ef að þarna er ekki kominn akkúrat ástæðan fyrir því að ég hætti í laganámi á sínum tíma þá veit ég ekki hvað ég get bent á (fyrir utan að Sigurður Líndal notaði fyrirlestra sína í að rifja upp ferðalög sín, einkum í Berlín). Þarna er manneskjum breytt í ferlivélar, lögin fara inn og lögin koma út og hvergi er snefil að finna af mannleika, einkum ekki kærleika.

    Líf lítillar stúlku er eyðilagt, táningsstúlka er skorin með ostaskera og þaðan af verra, og lögfræðingarnir fussa og sveia yfir því að eitthvað eigi að herða refsingar frá því sem áður var! Áður fyrr þá voru kynferðisafbrot eitthvað sem enginn vildi heyra af eða um. Þá dæmdu forpokaðir karlar sjúkt fólk í nokkurra mánuða fangelsisvist fyrir þann glæp einan að eyðileggja allt líf ungra barna og annara þolenda.

    Nú loksins þegar þetta er viðurkennt sem vandamál, þá segja lögfræðingarnir að refsingar geti tekið áratugi að ná upp í refsirammann sem er settur fyrir akkúrat þessi brot.

    Verðmætamat íslenskra stjórnmálamanna, dómara og lögfræðinga er augljóst, eitt mannslíf er minna virði en flutningur á fíkniefnum, minna virði en skjalafals, minna virði en fjárdráttur og minna virði en kokteilpartýin þeirra.

    Veruleikafirrtu vélbrúður! Já, ég er sjóðandi hoppandi öskuillur, einkum vegna þess að dómarar eiga víst að vera heilagir samkvæmt öllu, og yfir allt hafnir, þar á meðal að útskýra ákvarðanir sínar.

    Aumingjar!

    Uncategorized

    Afsakið, snjór

    Ég vil biðjast innilega afsökunar á því að hafa skipt yfir á sumardekk núna um daginn. Að sjálfsögðu sá Vetur konungur að svona kæruleysi þýddi ekkert og hefur nú undanfarna daga látið snjóa af og til, það var greinilega upphitun fyrir kvöldið í kvöld þar sem nú er bara vaðandi blindbylur.

    Þessi snjókoma skrifast því á mig.

    Uncategorized

    Próf: Gluggakerfi 1

    Jesús. Ég held ég blóti aldrei né taki nöfn spámanna mér í munn nema þegar ég er í prófum. Var inni í rúman klukkutíma áðan (af þremur sem gefnir eru) og verð að segja að þetta verður tæpt. Áður en ég fór tók ég mér til fróðleiks endurtektarprófið frá í fyrra, fékk 6.3 á því samkvæmt eigin talningu (og reyndi að vera hlutlaus auðvitað) þannig að vonandi verður þetta ekki verra. Klúðraði þó einni spurningu illa held ég, minnir að ég hafi ruglað saman aðgerðum tveggja gluggaklasa… ái.

    Ef að ég fæ fimm í þessu prófi, þá verður lokaeinkuninn mín í þessu fagi 6,7 eða 7,2 (fer eftir því hvað við fáum fyrir skilaverkefni 2). Ég yrði sáttur við það.

    Áhugavert:

  • BirdEurovision – kjósið fulltrúa Íslands
  • Aumingjar!
  • Football fans create World Cup’s version of Olympic torch
  • Uncategorized

    Lesa lesa lesa!

    MFC-lestur í fullum gangi, tók mér frí eftir hádegi til að reyna að komast í gegnum allt lesefnið aftur, og taka glósur í þetta sinn. Verð líklega eitthvað framyfir miðnætti, og svo aftur í fyrramálið. Þetta verður strembið, maður er svo háður F1 þegar maður er að vinna í svona mörgum og mismunandi forritunarmálum á hverjum degi. Þetta rennur allt saman.

    Ég bíð spenntur eftir deginum sem að menn finna út eitthvað sniðugra til að meta námið hjá manni en að setja mann í óeðlilegar kringumstæður (við tómt skrifborð með penna og blað) og treysta á það að maður muni akkúrat það sem spurt er um.

    Langaði aðeins að tjá mig um fótboltann. Það er mér mikið gleðiefni að AC Milan og Inter Milano voru slegin út í dag í undanúrslitum UEFA-bikarsins. Mínir menn í Lazio eru búnir að vera vonlausir í ár, en það er huggun harmi gegn að hin ítölsku liðin eru ekki mikið betri. Engin ítölsk lið komust í fjórðungsúrslitin í Meistaradeildinni. Spánn og Þýskaland er málið!

    David Beckham átti ekki mikið upp á pallborðið hjá mér fyrir nokkrum árum síðan, en eftir að hafa lesið talsvert um hann þá held ég að hann sé bara fínasti náungi. Ekki sá skarpasti, en virðist vera voðalega duglegur, hreinn og beinn drengur og góður fjölskyldufaðir. Því finnst mér það voðalega leiðinlegt að þessi aðalstjarna enska liðsins sé nú frá vegna beinbrots, það verður ekkert skemmtilegt að sjá grey Tjallana tekna aftan frá á HM ef að hann jafnar sig ekki í tíma. Með hann innanborðs gætu þeir komist upp úr riðlinum (en ekki mikið lengra).

    Áhugavert:

  • Vöðvar án hreyfingar! (jæja.. ég ætla nú ekki að sitja og bíða eftir þessu.. hreyfing er á dagskrá… bráðlega)
  • Týnda borgin