Ekki lögfræðingur

Í Kastljósi áðan voru einhver merkimenni að ræða um refsiramma og kynferðisafbrot. Elín Hirst ætlaði auðvitað að henda beini í einn gesta sinna (spyrja spurningar sem að viðkomandi beið spenntur eftir) og spurði hvort það væri “sanngjarnt að maður sem fremur kynferðisafbrot gegn barni í dag fengi mun lengri dóm en maður sem hefði gert það sama fyrir nokkrum árum”. Auðvitað svaraði lögfræðingurinn því að “Nei, það væri ekki sanngjarnt”. Ef að upphaflegi dómurinn hefði verið tíu ár, og sá síðari verið 12 ár þá hefði ég kannski skilið svarið. En fyrri dómurinn var um ár og sá seinni tvö og hálft minnir mig.

Ef að þarna er ekki kominn akkúrat ástæðan fyrir því að ég hætti í laganámi á sínum tíma þá veit ég ekki hvað ég get bent á (fyrir utan að Sigurður Líndal notaði fyrirlestra sína í að rifja upp ferðalög sín, einkum í Berlín). Þarna er manneskjum breytt í ferlivélar, lögin fara inn og lögin koma út og hvergi er snefil að finna af mannleika, einkum ekki kærleika.

Líf lítillar stúlku er eyðilagt, táningsstúlka er skorin með ostaskera og þaðan af verra, og lögfræðingarnir fussa og sveia yfir því að eitthvað eigi að herða refsingar frá því sem áður var! Áður fyrr þá voru kynferðisafbrot eitthvað sem enginn vildi heyra af eða um. Þá dæmdu forpokaðir karlar sjúkt fólk í nokkurra mánuða fangelsisvist fyrir þann glæp einan að eyðileggja allt líf ungra barna og annara þolenda.

Nú loksins þegar þetta er viðurkennt sem vandamál, þá segja lögfræðingarnir að refsingar geti tekið áratugi að ná upp í refsirammann sem er settur fyrir akkúrat þessi brot.

Verðmætamat íslenskra stjórnmálamanna, dómara og lögfræðinga er augljóst, eitt mannslíf er minna virði en flutningur á fíkniefnum, minna virði en skjalafals, minna virði en fjárdráttur og minna virði en kokteilpartýin þeirra.

Veruleikafirrtu vélbrúður! Já, ég er sjóðandi hoppandi öskuillur, einkum vegna þess að dómarar eiga víst að vera heilagir samkvæmt öllu, og yfir allt hafnir, þar á meðal að útskýra ákvarðanir sínar.

Aumingjar!

Comments are closed.