Kemur þó hægt fari

Enn einn vináttuleikurinn í kvöld. Núna brá svo við að einn maður tók ábyrgðina á liðsuppstillingu og skiptingum og það sýndi sig að þetta gefst mun betur, við vorum 2-0 yfir í leikhléi.

Eftir leikhlé tókst andstæðingunum að pota einu marki inn eftir nokkrar mínútur, 10 mínútum seinna var svo aukaspyrna fyrir utan teig og hún skrúfaðist neðst í fjærstöngina, markmaðurinn var í boltanum en snúningurinn var of mikill, vel tekin aukaspyrna en svekkjandi mark fyrir okkur. Á 82. mínútu náði svo miðjumaður þeirra að pota sér í gegnum þvögu og sneiða boltann í markið, vel klárað. Þegar 4 mínútur voru eftir æstust leikar þegar að 2 leikmenn úr sitt hvoru liðinu byrjuðu að slást eftir vafasama tæklingu. Þetta leystist upp í skallaeinvígi milli þeirra og að auki var sparkað í andlitið á liggjandi manni. Báðir menn voru leiddir á brott og róaðir niður, og við flautuðum leikinn bara af, ekki gaman að spila þegar kergja er komin í mannskapinn.

Þokkalegur leikur hjá okkur, það er flestallt að batna hjá okkur. Stráklingarnir sem æstu sig í lokin verða að læra það að þó illa sé brotið á manni þá á bara að hunsa það og spila, liðin skildu sátt sem betur fer.

Af öðrum þjóðfélagsmálum þá finnst mér alltaf jafn magnað þegar að sagt er að 66% heillar þjóðar styðji eitthvað, þegar að úrtakið er 800 manns og við miðum við 100% svarhlutfall (sjaldgæft) þá þýðir það að 528 manns mynda meirihluta hjá 15 milljóna þjóð. Það fylgir ekki einu sinni þessari frétt Moggans hvernig úrtakið var valið, samsetning þess í búsetu, aldri og kyni svo bara helstu atriði séu talin til.

Svo ég haldi áfram að berja á fjölmiðlum, og áfram Mogganum (ég les lítið af innlendum miðlum, Mogginn er það óheppinn núna að ég kíkti á hann í dag) þá fannst mér afar áhugaverð þessi frétt, þar sem að fyrirsögnin segir að samverkamenn Bin Ladens hafi verið handteknir, en sjálf fréttin segir að þeir séu GRUNAÐIR um að vera samverkamenn. Sakleysi uns sekt er sönnuð gildir ekki í æsifréttafyrirsögnum að sjálfsögðu.

Mér finnst íslenskir fjölmiðlar gera mest lítið annað en að þýða (oft illa) fréttatilkynningar frá erlendum fréttastofum, sem margar hverjar lepja það upp eftir stjórnvöldum sem þeim er sagt, en rannsaka ekki málin nánar. Það þarf margt að laga hér á landi, og fjölmiðlar eru þar ofarlega á lista. Nú eða að fólk fari að hætta að trúa í blindni því sem kemur frá fréttastofunum, svo lengi sem við höfum í huga að fréttir eru oftast sagðar frá sjónarhóli einhvers eins aðila, þá förum við ekki að taka þeim sem heilögum sannleik.

Áhugavert lesefni:

Comments are closed.