Skrapp í Eymundsson til að kaupa “Café Creme 1” bækurnar sem að ég mun notast við í frönskunáminu. Því miður var bara vinnubókin til, þannig að ég þarf að fara aðra ferð til þess að finna lesbókina. Það sem kom mér hins vegar mest á óvart var að ég sá í hillu nýjustu kiljuna frá Terry Pratchett, “The Truth”. Það sem að kom mér svona mikið á óvart var að Amazon.co.uk segir að hún komi ekki út fyrr en 1. nóvember!
Það undarlega í þessu er að Pratchett er breskur rithöfundur, og The Truth er komin út í kilju í Ameríku (en mikið skelfilega er sú kilja ljót) og er til sölu á Amazon.com. Þessi kilja sem ég keypti er gefin út af Corgi í Bretlandi, og lítur út eins og allar hinar Discworld kiljurnar mínar (25 talsins með The Truth), en samt er Amazon.co.uk ekki að fá að selja hana fyrr en 1. nóvember? Amazon er raunar í miklu uppáhaldi hjá mér, vefurinn þeirra er til fyrirmyndar sem og þjónustan.
Það er annars orðið að sið hjá mér að borða Doritos “Nacho cheese” og fá mér kóksopa á meðan að ég les Discworld bók, man ekki alveg hvernig sá siður kom til en þetta er skemmtilegur og bragðgóður siður að mínu mati, ég er orðinn svo staðfastur að fá mér sjaldan kók og snakk, en fyrir svona bækur gerir maður undantekningar.
Sá eitt skrítið í umferðinni í dag, bíll á undan mér var kyrfilega merktur Sjóvá-Almennum og Olís, og svo stóð með stórum stöfum víðs vegar á honum “umferðaröryggisfulltrúi”. Ég er ekki alveg viss um hvað hann á að gera, gæti verið áhugaverð starfslýsing. Annars er alltaf jafn gaman að velta þessum germanska sið að búa til löng samsett orð fyrir sér, á meðan að rómanski siðurinn er sá að setja la og de og þess háttar forsetningar á milli orða, þannig að ofangreint starfsheiti væri á að giska 5 orð í frönsku, jafnvel meira?
Áhugavert lesefni: