Svo ég bregði betra ljósi á færslu mína hér um daginn, “Hjálp ég minnkaði” þá tók ég því eiginlega sem hrósi að Unnur hefði talið að ég væri hávaxnari (en ég er samt herðabreiður!). Ég ætla að reyna útskýra það með smá líffræðipælingum. Athugið að það er nokkuð síðan ég var í líffræði (sem er skemmtileg!) þannig að ekki er útilokað að mig misminni einhver nöfn.
Ég gef mér nefnilega þær forsendur að mænukylfan í henni sé svipað stillt og allra annara dýra. Mænukylfan er elsti hluti heilans og við eigum hana sameiginlega með til dæmis skriðdýrum, hún stjórnar ósjálfráðum athöfnum eins og öndun og hjartslætti.
Þarna grunar mig (frekar en í litla heila sem kemur utan um efsta hluta mænukylfunnar) að sé líka að finna það lögmál í dýraríkinu að bera verði virðingu fyrir aðilum sem eru stærri. Hver hefur ekki séð dýralífsmyndir þar sem tvö karldýr mætast og gera sig stór, sá sem er stærri vinnur það einvígi án þess að fara þurfi út í bardaga þar sem að sá minni viðurkennir að hann eigi litlar líkur í hinn. Ef þau eru hins vegar svipuð að stærð getur farið út í bardaga þegar hvorugur vill bakka.
Við mennirnir erum nefnilega ennþá frekar frumstæðir, nægir að líta á stríðin undanfarnar aldir sem merki þess að við lærum seint og illa að ná stjórnum á þessum frumhvötum. Kannanir hafa líka sýnt að hávaxnir fá betri laun en lágvaxnir þó að þeir séu jafn mikið menntaðir og með sömu reynslu. Þetta er bara skriðdýrshluti heila starfsmannastjórans að meta þá stærri meira en þá minni.
Því met ég það svo (ég gæti haft verulega rangt fyrir mér auðvitað en það stoppar ekki góða kenningasmiði!) að Unnur hafi borið virðingu fyrir skrifum mínum og því séð mig fyrir sér sem hávaxinn og herðabreiðan. Að ég skuli bara vera rétt meðalmaður á hæð stóðst þetta auðvitað ekki og því hefur skriðdýrshluti heila hennar líklega sett mig neðar á innbyggða stærðarstiganum (allt ósjálfrátt náttúrulega). Hvernig hún týndi herðunum veit ég hins vegar ekki, ég hef kannski verið frekar hokinn eins og ég er stundum (og fæ skammir fyrir).
Hins vegar þá stækkar fólk eftir því sem maður kynnist því betur, ég gleymi því oft að sumir sem ég þekki eru mun minni en ég því að í huga mínum eru þeir svipað stórir og ég, skriðdýrshlutinn hefur það frá öðrum hlutum heilans að þetta sé manneskja sem ég ber virðingu fyrir og hækkar viðkomandi því smátt og smátt í innbyggða stærðarstiganum. Hvort að hávaxnir einstaklingar sem mér er meinilla við lækki er önnur spurning.
Ég sakna 7 kg líffræðibókarinnar sem ég var með í MK fyrir 9 árum síðan. Í annari vídd væri ég líklegast útskrifaður sem efnafræðingur og í enn einni víddinni sem líffræðingur, í þeirri þriðju ef til vill sálfræðingur. Eitt líf og svo margir möguleikar. Svindl.
Að öðrum málum, LÍN sættist loks á það að ég ætti rétt á námsláni og borgaði mér smá pening út. Yfirdrátturinn er orðinn aðeins skárri en þó auðvitað til staðar enda annað illmögulegt hér á landi.
Jæja, það var gott að reyna örlítið á hægra heilahvelið í þessari stuttu pælingu, dagurinn nefnilega verið sem þeir síðustu algjörlega eign vinstra heilahvelsins. Slagsmál við Unicode, PostgreSQL og stafasett reyna verulega á. Frétti það að PostgreSQL getur ekki skipt á milli stafasetta “on the fly” þannig að ég þarf að endurskoða örlítið áætlanir mínar í viðleitni minni að búa til vef sem hægt er að skoða á ÖLLUM tungumálum sem einhver yfirhöfuð nennir að þýða yfir á.
Viðbót: Unnur pælir í þessari kenningu minni og varpar fram öðrum góðum punkti sem er nær málstöðvunum. Ef þú notar alltaf formlegt heiti yfir eitthvað þá er það kannski ofar í hæðarstiganum en ef þú notar óformlegt heiti. Það er auðvitað svo að það skiptir máli hvaða orð eru notuð, ég hef haft nokkuð sterkar skoðanir á orðum og notkun þeirra í gegnum tíðina. Það er svo annað mál að vita það að maður er kallaður skammstöfun í annara manna húsum 🙂 Í MK varð ég reyndar um tíma þekktur sem JBJ meðal yngri bekkinga þar sem það var login nafnið mitt í tölvukerfið (þar sem ég var með über-réttindi).