Íslandi nauðgað

Í kvöld sáu flestir landsmenn tveggja tíma langan þátt Ómars Ragnarsonar um þjóðgarða og virkjanir. Þátturinn var frekar undarlegur að uppbyggingu og sum innskotin skrítin en ekki lugu myndirnar eða staðreyndirnar sem settar voru fram.

Í lokin nefndi Ómar að þetta væri líklega það mál dagsins í dag sem að myndi hafa mest áhrif á komandi kynslóðir og að kynslóðin sem að reisir virkjanirnar þrjár muni með þessu skapa sér sóma eða skömm. Þarna tel ég að engin spurning sé á ferðinni, meiri skömm er ekki hægt að gera en að nauðga Íslandi. Virkjanir sem duga í 200 ár og skapa rafmagn í þann stutta tíma munu eyða stórkostlegri náttúru þannig að hún mun aldrei sjást aftur. Þarna er núna gróðursæld, þessu verður breytt í eyðimörk sem að mun kaffæra Austfirðinga. Virkjunin er víst þeirra vegna, svo að þeir geti unað sér glaðir við störf í álveri. Þeir hljóta þá að láta smá leiðindi eins og sífellda sandstorma fram hjá sér fara, þeir hafa jú vinnu.

Aðrar þjóðir nota sínar virkjanir til að skapa líf, íslensk yfirvöld ætla sér að eyða lífi. Skammsýnin er yfirgengileg, talsmaður Landsvirkjunar sagði að 200 ár væri svo langur tími að við gætum ekki ímyndað okkur hvernig raforka væri framleidd þá. Það virðist losa virkjanirnar undan ábyrgð á eyðileggingunni sem þær munu valda. 200 ár er ekki langur tími í lífríkinu, tvær aldir eru rétt tvær millisekúndur hvað náttúruna varðar. Þau listaverk og líf sem á að sökkva ofan í drullusvað hafa orðið til yfir þúsundir ára.

Ísland er jarðfræðilega eitt yngsta svæði jarðar. Þroski stjórnenda virðist því miður bera keim af því, milljörðum skattpeninga er hent í einn poka og hann falinn einum aðila til geymslu, álveri. Ef að álverð hríðlækkar, eins og margir spá um á næstu áratugum, þá eru góðar líkur á að verksmiðjum sé lokað. Ef að álverinu er lokað þá standa hundruð Austfirðinga eftir atvinnulausir, þeir líta upp úr kerunum og sjá drullusvaðið sem að hylur stórkostleg listaverk sem þeir hafa séð gamlar myndir af og þeir hrista hausinn. Fyrir þetta, stórar skuldir og atvinnuleysi, nauðguðum við náttúru Íslands og orðspori þess.

Íslendingar verða taldir barbarar, þeir sýna sömu fyrirhyggju í umgengni sinni við náttúruna og fátækir kotbændur sem brenna niður regnskógana sem gefa þeim súrefni til að geta átt þar bú í eitt ár eða tvö áður en þeir verða að færa sig um set og brenna niður meira, því að landið getur aðeins gefið þeim af sér í takmarkaðan tíma þegar það hefur verið svívirt. Túrismi á Íslandi mun þjást undan þessum stimpli, Íslendingar munu tapa peningum og orðspori.

Íslendingar verða taldir nauðgarar, fyrir stundargaman skilja þeir eftir sig svöðusár á landinu sem að flekkar orðspor þess. Fyrir stundargaman sem að ekki er vitað einu sinni hvort að skili því sem að sagt er þar sem eigendurnir, Íslendingar, fá ekki að vita fjárhagsstærðirnar. Þetta er eins og nauðgari sem að tekur lán í banka svo hann geti keypt sér hníf og vín, hellt meyju fulla, nauðgað henni og skilið eftir sundurskorna. Eftir sig skilur hann konu svívirta sem mun aldrei bera sitt barr og börnin hans munu verða ábyrg fyrir skuldum hans.

Þingmenn eru flestir búnir að sökkva sjálfum sér svo rækilega ofan í þetta kviksyndi að þeir þora ekki að hreyfa sig, því þannig sökkva þeir dýpra. Þeir liggja því hreyfingarlausir og bíða þess sem verða vill.

Ekki á að láta Íslendinga kjósa um þetta mál, mál sem snertir buddur þeirra og fósturjörð, mál sem snertir börn þeirra, barnabörn, barnabarnabörn og börn þeirra.

Beint lýðræði tíðkast ekki hér, við kjósum á fjögurra ára fresti og svo verðum við að skammast í okkur sjálfum fyrir valið ef okkur mislíkar störf þingmanna. Ef að ekki á að kjósa um þetta hvað má þá kjósa um?

Hvað mig varðar þá get ég aðeins sagt það að ég vil að komandi kynslóðir viti að ég vildi þetta ekki, ég vildi ekki nauðga landinu og orðspori Íslands. Ef að þú, barnabarnabarnabarn mitt lest þetta í fornum ritum og veltir því fyrir hvað hann langalangafi þinn sagði þegar að þetta hryðjuverk var á döfinni, þá máttu vita það að ég sagði “Nei”.

Ég segi nei vegna þess að já þýðir að Íslandi sé nauðgað.
Ég segi nei vegna þess að ég vil ekki láta börn mín borga skuldirnar af þessu fyllerí.
Ég segi nei vegna þess að ég vil ekki sjá Austfirðinga verða hjú og standa svo snauðir eftir þegar álverið lætur sig hverfa þegar svo hentar.
Ég segi nei vegna þess að svona gera menn ekki.

Comments are closed.