Tvöfalt afmæli, neikvæðni og jákvæðni

Fyrst ber að nefna að foreldrar mínir eiga afmæli í dag. Það er auðvitað algjör snilld að þau eigi sama afmælisdag, það fækkar fjölda daga sem þarf að muna. Engin stórafmæli en þó er stór áfangi í dag hjá föður mínum, flyst nú yfir á annan vinnustað fyrirtækisins eftir rúm tuttugu ár á sama stað.

Hæstiréttur, hin fræga verndarhendi barnaníðinga og annara ofbeldismanna, er nú líka orðinn refsivöndur bandarískra stórfyrirtækja sem reka ekki starfsemi hér á landi en gera samt tilkall til þess að eiga einkarétt á íslenska léninu ups.is, sjá frétt á Vísi og dóm Hæstaréttar.

Óvenju viðeigandi fyrirsögn á þessari frétt New York Times, 6 Israelis Die at Polling Station; Sharon Wins. Sharon er með hendur flekkaðar blóði þúsunda manna, fátt meira viðeigandi en að honum sé greiddur blóðskattur í formi eigin flokksfélaga (já.. þetta hljómar helvíti kaldranalega). Ísland er sníkjudýr í heimi alþjóðastjórnmála, það gæti hafið sig upp í hlutverk músar ef það öskraði að það setti viðskiptabann á Ísrael þar til allar landnemabyggðir hafa verið fjarlægðar af ísraelsku landi (mikilvægt skref í átt að framtíðarfriði).

Talandi um Ísland, nú hefur allur heimurinn fengið fréttirnar af krókódílamálunum hér heima í gegnum skeyti Reuters. Sjálfur efast ég um að krókódílar verði meiri skaðræðiskvikindi en blessaðar rollurnar sem heimta þó nokkur mannslíf í umferðinni.

Annars er ekki allt neikvætt þó að ýmislegt neikvætt sleppi hér af lyklaborðinu, undanfarna daga hef ég verið að hlýða á snilldartónlist frá Xploding PlastiX af disknum Amateur Girlfriends Go Proskirt Agents. Má greina áhrif frá kvikmyndatónlist og Amon Tobin. Snilldarverk.

Þeir eru reffilegir á myndum hins opinbera vefs Norður-Kóreustjórnar feðgarnir Kim. Hægt að skoða vefinn á ensku, spænsku, kínversku, esperanto og norsku!

Er ég kominn með skrifræpu? Nei… bara dreifa huganum aðeins frá vinnu og skóla þar sem allt er á fullu og meira en það.

Comments are closed.