Vefverðlaunin

Íslensku vefverðlaunin voru afhent áðan, mínir menn hjá Baggalút unnu verðskuldaðan sigur í flokki afþreyingarvefja. Sýnist að ég kannist við alla meðlimi dómnefndar (sem heitir víst Hin íslenska vefakademía…) utan eins.

Það er ýmislegt á sig lagt til að komast í heimsmetabók Guinnes, kona ein var í 32 daga í herbergi ásamt 3.400 sporðdrekum. Þetta slær gamla metið sem var 30 dagar og 2.700 sporðdrekar. Hún var stungin 9 sinnum en það hafði engin áhrif á hana þar sem hún er komin með ónæmi gegn eitri þeirra eftir 6 ára starf við sporðdrekasýningar. Launin eru færslan í heimsmetabókina og 1.000 dollarar, ekki ýkja hátt tímakaup það.

Köld eru kvennaráð. Þýsk lögreglukona gróf upp farsímanúmer eftirlýsts glæpamanns, hringdi í hann og þóttist hafa hringt í skakkt númer, spjallaði hann til og kom stefnumóti í kring. Maðurinn mætti í sínu fínasta pússi en að stefnumótinu loknu (athugið… að því loknu… ekki um leið og hann mætti) var hann handtekinn.

Sorgleg voru örlög þýsku stelpunnar sem fékk sér sundsprett undir ljósi fulls tungls. Hún nefnilega stakk sér til sunds í norðurhluta Ástralíu þar sem krókódílar eru vel fjölmennir, hún og hinir túristarnir hunsuðu aðvörunarskiltin sem bönnuðu sund á staðnum. Það sem átti að vera falleg stund kostaði hana lífið.

Lífið er stutt, en það hangir líka á bláþræði. Af hverju að hætta á dauðann vegna einnar reynslu þegar svo ótalmargar aðrar bíða?

Comments are closed.