Þó hann sé rauðhærður

Horfði á þýska boltann í dag, sá leik Bayern München og Hannover 96 sem endaði 3-3. Ekki skil ég hvað sumir eru að segja að þýski boltinn sé leiðinlegur, það var nóg af marktækifærum, mörkum (þó að fáránleg sé að meta gæði leiksins af fjölda marka sem eru skoruð) og tilþrifum og mikil spenna fram á síðustu sekúndu.

Svona hafa flestir leikirnir sem ég hef séð í Bundesligunni verið. Mun skemmtilegra en viðureignir flestra liða í Englandi (þar sem leikmenn geta ekki gefið boltann sín á milli skammlaust) eða á Ítalíu (þar sem varfærnin er komin í öfgar). Aðeins Spánn er með líklega skemmtilegri knattspyrnu og munar þó ekki miklu.

Þulirnir eru með skársta móti á RÚV, þó finnst mér alveg merkilegt hvað þeim finnst gaman að segja að “þessi sé nú harður nagli þó hann sé aðeins 172 cm á hæð” og þar fram eftir götunum. Hvað kemur hæð leikmanna getu þeirra við? Það er ekki eins og að þetta sé blak eða handbolti. Maradona var 168 cm minnir mig og Signori notar skó númer 37. Þetta er eins og maður fari að segja að “Kahn sé nú góður markmaður, sérstaklega ef miðað er við að hann er rauðhærður” eða að “Pele hafi verið knattspyrnusnillingur þó hann hafi verið svertingi”. Bara hættið þessu rugli, sérstaklega Arnar Björnsson sem að er allra manna duglegastur við að nefna hæð allra sem eru undir 185 cm og undrast hvað þeir geta spilað. Sjálfur er hann að ég held rétt tæpir 190 cm og virðist telja að þeir sem eru lægri séu síðri.

Dálkahöfundurinn Giles Smith útskýrir fyrir okkur hávísindalegar aðferðir sem að enska knattspyrnusambandið notar til að ákvarða leikbönn og sektir. Það virðist nefnilega vera jafn alvarlegt að segja eitthvað í hita leiksins og að stórmeiða menn með fantaskap. Graeme Souness er nú búinn að fá 3 leikja bann fyrir að öskra á dómara, mikið held ég að knattspyrna yrði leiðinleg ef allir ættu að sitja þögulir eins og í leikhúsi. Þetta er komið út í öfgar þegar menn eru að reyna að “hreinsa ímynd” leiksins, það er bannað að blóta, bannað að bora í nefið á vellinum og bannað að sýna tilfinningar. Bráðum verður bannað að sparka í boltann því að það er ofbeldisfullt.

Aðrar fréttir úr fótboltanum eru þær að það er stórfrétt í Englandi að Diego Forlan hafi skorað fyrir Manchester United, hans fyrsta alvöru mark (fyrsta markið var úr vítaspyrnu) eftir fjöldamarga leiki. Frekar skondin frétt, grey strákurinn. Heiðar Helguson var svo vondur við mína menn í Sheffield Wednesday, hann skoraði sigurmarkið fyrir Watford í dag. Wednesday verða í miklum fallslag aftur þetta árið.

Þar sem ég er einn í koti þessa helgina þá leit ég aðeins til mömmu og fékk þar lambalæri. Ég sá líka gleraugun hans Kára, hans fyrstu. Við erum því orðnir tveir bræðurnir sem eru sjóndaprir.

Húsverkin geta orðið fjörugri ef að hreinsiefni úr víni koma á markað. Ætli þá verði slegist um að gera húsverkin?

Af útlöndum er það svo að frétta að það virðist sem að Rússar hafi drepið 90 gísla með taugagasinu sem þeir notuðu til þess að sljóvga þá sem inni voru. Pútín baðst afsökunar í sjónvarpsviðtali, það kyssir auðvitað á bágtið hjá aðstandendum… klúður!

Comments are closed.