Monthly Archives: July 2002

Uncategorized

Birtudagur

Fyrirsögnin er svona bara tilraun til að vera í stíl við þær síðustu.

Valur leit við í dag og nú skartar stofan ekki lengur rússneskri ljósaperu heldur eru komnir þrír kastarar og veggljós að auki. Loftnetið var jafnframt fært til þannig að mun minna ber á draugum í útsendingum hinna ýmissu sjónvarpsstöðva, sem ég horfi reyndar ekkert á (hvað þá að ég hlusti á útvarp en þar vinna þeir sem féllu á sjónvarpsprófinu, nokkuð sem að leikskólabörn geta vart gert). Heimilið væri talsvert rússneskara ef ekki væri fyrir Val.

Heimilisverkin með tónleika Underworld ómandi um íbúðina er hins vegar tær snilld.

FIFA 2002 World Cup er aftur á móti algert eitur, heimska markmannanna stundum viðlíka og ýmissa sparkspekinga. Einhverjar stillingar verð ég að skoða enda gengur það ekki að fá á sig mörk vegna markmanns sem er kominn að hornfána þegar að einföld sending kemur fyrir markið.

Varð nú að taka þetta blessaða forritunarmálspróf (ég er nú í forritunarfræðum…) og þar kom í ljós að ég er frekar daufur en öflugur, “You are C. You’re reliable, and strong. But kinda dull. But that’s ok, right? “. Þeir sem mig þekkja vita auðvitað að dauflegur er ekki lýsingarorð sem á við mig, þó að mörg megi um mig finna.

Uncategorized

Daufur dagur

Í gær fékk ég uppfærslu á vinnuvélina: Pentium 4 1,7 GHz, AOpen móðurborð og GeForce4 (vegna móðurborðsins aðallega). Þetta um það bil fjórfaldaði hraðann, nema hvað að grey hörðu diskarnir eru í eldri kantinum, það kemur að þeim seinna.

Í gærkveldi héldum við smá kökuboð vegna afmælis Sigurrósar. Gestir voru Ragna og Haukur, sólbrún enda komu bara fyrr um daginn eftir 3 vikur í Portúgal, pabbi sem er nú að verða nettengdur, mamma, Teddi og Kári og svo amma sem að kom í heimsókn í fyrsta sinn í Betraból.

Kvöldmaturinn í gær var pizza frá Pizza Napólí, höfðum lítinn tíma til eldamennsku. Pizzan var svipuð og þær sem við fengum í Frakklandi, ekki ítölsk þó nafnið og auglýsingar bendi til annars.

Í dag gerði ég fátt, fiktaði aðeins í vinnuvélinni og svo vélum hérna heima, eitthvað ósætti í gangi á milli véla sem vilja ekki tala saman.

Uncategorized

Afmæli og RÚV

Úff.. táningurinn sem ég byrjaði með (hún var 19) er bara orðinn 23 ára! Til hamingju Sigurrós mín 🙂

Þetta þýðir að ég á tæpan mánuð í 27 ára afmælið mitt, og það þýðir að tíminn líður of hratt!

Rétt áðan skráði ég mig hjá afnotadeild Ríkisútvarpsins, nú munu 2500 krónur bætast við á VISA-reikninginn mánaðarlega, svo að ég geti haft góða samvisku yfir því að horfa af og til á efni sem að kemur RÚV akkúrat ekkert við og kemur ekki frá þeim.

Ég vil að RÚV breytist í vandaða fréttastofu. Ein útvarpsrás og ein sjónvarpsrás með alvöru fréttum og fréttamönnum sem að þurfa ekki að óttast að hinn eða þessi ráðherrann verði fúll og láti reka þá. Á meðan að fréttamenn RÚV verða að passa sig á því hvaða fréttir þeir segja vegna ótta um starf sitt, þá er lítið að marka fréttir sem þaðan koma. Hið sorglega er að þrátt fyrir þetta er fréttastofa RÚV líklega besta fréttastofan á landinu (sem er svo sem ekki erfitt). Þetta varðandi starfsöryggi fréttamanna hef ég heyrt frá aðila innan fréttastofu RÚV, þegar að hann var spurður útí af hverju meira væri ekki gert í að rannsaka Kínahneykslið þar sem íslensk yfirvöld brutu fjölda laga og stjórnarskrána í þokkabót.

Ég vil ekki að RÚV sé að reka aukalega einhverja poppstöð sem að ofgnótt er til af á markaðinum nú þegar. Ég vil ekki að RÚV sé að halda úti mikilli sjónvarpsdagskrá fyrir peninginn minn, NEMA að ég gerist áskrifandi hjá þeim, það að þeir halda úti dagskrá fyrir pening sem ég er neyddur til að borga er ég ekki ýkja ánægður með.

Það þarf sterkan fjölmiðil sem að skýrir satt og rétt frá málum, ekkert viðlíka er að finna á markaðinum nema æsifréttamennsku sem að reynir að selja með 20 cm fyrirsögnum og rangfærslum. Fréttastofa BBC er líklega sú besta í heimi, RÚV ætti að vera sú besta á Íslandi. Versta fréttastofa í heimi grunar mig sterklega að sé CNN, með AP og Reuters (Morgunblaðið notar copy/paste frá AP og Reuturs og það eru allar erlendu fréttirnar þeirra, gleyma stundum að þýða þær meira að segja) á hælunum.

Áhugavert:

  • CNN’s breakout comedy hit
  • Uncategorized

    Sólardagur

    Í dag var sólardagur, og ekki get ég sagt að ég hafi nýtt mér það vel. Stúss á heimilinu og tölvuvesen tók frá mér tíma sem að ég hefði ef til vill sett í hreyfingu utan dyra ef að ég hefði verið aðeins sprækari. Illa farið með sjaldséða sól.

    Ungur drengur segir mér að ég sé víst bloggari, þó að ég hafi neitað fyrir það um daginn. Ég þakka tvíeggjað hrósið. Svona skilgreiningar eru alltaf eitur í mínum beinum, en hver og einn hefur sinn rétt til að hafa eigið skilgreiningarkerfi. Það er svo sniðugt við lýðræðið… verst að það er ekki notað meira… ha?

    Endalaust efni sem maður sér á hverjum degi sem maður vill tjá sig um, ég ætla hins vegar að gerja þetta með mér lengur. Ætli maður setji ekki lengri greinar á annan vef, passa kannski ekki í dagbókina hjá manni 🙂

    Sigurrós klippti mig svo í kvöld, enda verð ég að vera extra sætur á morgun á afmælinu hennar.

    Áhugavert:

  • Orbital – Back To Mine
  • Operation TIPS
    – Sannir Bandaríkjamenn njósna
  • The Five Dumbest Things on Wall Street This Week
  • Uncategorized

    Grár dagur

    Rigningardagur. Heilinn fór ekki mikið í gang í dag, vorum vakin nokkrum sinnum í nótt með símhringingum í neyðarsíma Terra Nova-Sólar sem að Sigurrós er með þessa vikuna. Núna er Sigurrós að horfa á Amélie aftur, í þetta sinn er gesturinn Stefa.

    Ég held áfram að rífast við netkort sem að kannast ekki við að hafa keyrt á 100 áður heldur lullast núna áfram á 10. Ég er ekki búinn að finna blaðsíðurnar 24 sem gufuðu upp úr bókinni í gær, og geislabrennarinn neitar að skrifa hraðar nú en á 1x hraða.

    Hunangsgljáðu bananarnir sem ég keypti áðan eru það bragðlausasta nokkru sinni. Pappír er bragðmeiri!

    Rumsfeld benti á að óvinir Bandaríkjanna, svo sem Osama bin Laden, fylgdust vel með öllu sem hugsað væri og talað í
    Bandaríkjunum. (Textavarpið 17.07.2002)

    Eins og sjá má verða Bandaríkjamenn því að vara sig á því að hugsa ekki á gagnrýninn hátt um stjórnvöld sín, hvað þá að tala!

    Brave New World og 1984 saman í einum pakka. Svo ég endurtaki sjálfan mig eru nú að upphefjast nýjar miðaldir þar sem að austrið og vestrið hatast við hvort annað og þegnar beggja teknir aftan frá af geðveikum stjórnarherrum, Ísland meðtalið.

    Rugludallarnir í Bandaríkjunum vekja alltaf kátínu hjá mér, nú síðast setningin “Heading up the backline is Kansas City Wizards goalkeeper Tony Meola, who is the all-time U.S. goalkeeping leader in wins (36) and shutouts (31). ” (CNN:SI) Þetta er “too much” eins og Kaninn myndi segja. Goalkeeping leader in wins and shutouts. Auðvitað.

    Áhugavert:

  • The watchdog didn’t bark
  • Yahoo! mail filters out Java-related words
  • Uncategorized

    Klikk á klikk ofan

    Argasta vesen. Eftir mikla yfirlegu tókst mér að laga fáránlegt vesen dauðans í Notes í vinnunni.

    Þegar heim var komið tók ekki betra við, vélarnar sem möluðu saman í gær og voru bestu vinir könnuðust nú ekki við hvor aðra. Netkortið á annari að flippa, sem og geislabrennarinn. Þrír diskar fóru í súginn vegna undarlegheita.

    Til að toppa þetta undarlega tölvuvesen vantar svo 24 blaðsíður í smásagnaheftið sem ég var að lesa. Bestu smásögur Alfred Besters eru þar samankomnar, og það vantar aftari helminginn af næstseinustu sögunni og fyrri helminginn af þeirri seinustu. Mér öllum lokið þegar að bækurnar geta ekki einu sinni veitt mér smá skjól þegar að tölvurnar fara að hiksta eins og þær vilja stundum gera.

    Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að við höfðum ekki vekjaraklukku í sumarbústaðnum. Sú athöfn að fara aftur að sofa að morgni í stað þess að fara á fætur hefur fengið samheitið að snúsa hjá mér, hvort sem að vekjaraklukka kemur þar nálægt eður ei.

    Áhugavert:

  • Swap a file, go to jail?
  • Yahoo! censors portal, kisses Beijing’s ass
  • Big-name accountants target Brazil’s murky soccer books
  • Israel Blocks Palestinian ISP
  • Uncategorized

    Amélie-kvöld

    Sigurrós er nú með kvennafans í stofunni, ætlunin er að horfa á Amélie á frönsku með enskum texta. Ég held mig í vinnuherberginu og brenni diska af miklum móð fyrir Kára.

    Áhugavert:

  • Sick of Scandal? Blame Football!
  • Fifa Fair Pay
  • Graham Kelly: Fifa’s mandarins still have much to do to restore credibility
  • Walker Lindh – á vitlausum stað á vitlausum tíma
  • Uncategorized

    Spiladagur

    Okkur tókst að snúsa allan morguninn, fórum ekki á fætur fyrr en á hádegi. Ég hafði reyndar hoppað fram úr um áttaleytið og kveikt á gasofninum enda ískalt orðið. Eftir morgunmatinn gripum við svo í Fimbulfamb, mitt fyrsta skipti. Byrjendaheppnin virtist ætla að brosa við mér, ég var búinn með 75% leiðarinnar á meðan að hin þrjú voru ennþá bara búin með 25%. Á ótrúlegan hátt tókst mér svo að fá ekki eitt einasta stig næsta hálftímann eða svo og Sigurrós og Regína fóru fram úr mér. Sigurrós vann en ég náði þriðja sætinu með því að fá loksins þessi fáu stig sem hafði vantað upp á.

    Eftir þetta gripum við í Kana, og þar brosti gæfan við Erni. Hann sigraði með algjörum yfirburðum, var með fleiri stig en við hin þrjú samanlagt.

    Heimferðin var tíðindalítil, höfðum velt því fyrir okkur að fara í Árbæjarlaugina og svo á Pizza Hut þar sem Sigurrós átti flottan tilboðsmiða. Þegar í bæinn var komið vorum við hins vegar svo glorsoltin að við fórum beint í pizzurnar. Reyndar leið nærri klukkutími frá því að við settumst við borðið og þangað til að við fengum pizzurnar. Örn og Regína fengu fyrir mistök stærri pizzu en við höfðum pantað, nokkuð sem að stelpunni á kassanum fannst greinilega vera fúlt og okkur að kenna. Pakksödd fórum við heim á leið og þar gekk Sigurrós að mestu frá öllu á meðan að ég dó úr þreytu.

    Uncategorized

    Flugukast og gestir

    Byrjuðum morguninn á því að henda einum 20 flugum út. Þær suðuðu í stofuglugganum sem mest þær máttu og okkar fyrsta verk var því að losa okkur við ólátabelgina. Með plastglas í annari og blað í hinni tókum við þær hverja eftir aðra og slepptum út um svaladyrnar. Þá loksins var hægt að setjast niður til morgunverðar.

    Greip því næst aðra bók eftir Rankin mér í hönd, þessi hét svo mikið sem Snuff Fiction. Hef alltaf gaman að þessum bókum hans. Þær eru misdjúpar, en oft dýpri en virðist við fyrstu sýn. Svo eru þær fyndnar og það eitt og sér gerir þær skyldulesningu.

    Við skruppum í sund upp úr hádegi, laugin á Hellu var köld og vindurinn bætti ekki úr skák. Við héldum okkur því í litlu vaðlauginni í smá tíma. Hádegismaturinn var svo hamborgari á matsölustaðnum við bensínstöðina.

    Örn og Regína komust loks í bústaðinn rétt fyrir kvöldmatarleytið. Bara 3 tímum á eftir áætlun sem er með því besta. Þau keyrðu að auki framhjá bústaðnum, enda er hann hógvær mjög og í hvarfi. Ef að þau hefðu ekki farið að undrast svarta auðnina í kringum þau hefðu þau getað endað á hálendinu.

    Við Örn komum loks vatnsdælunni í gang, sambandsleysi í tenginum við rafgeyminn var sökudólgurinn.

    Eftir kvöldmat á Kanslaranum á Hellu – við Sigurrós fengum okkur þokkalega pizzu en Örn og Regína urðu fyrir miklum vonbrigðum með vonda kjúklinga í sjálfum kjúklingabænum – fórum við svo og spiluðum Trivial Pursuit, sem að við Sigurrós unnum, en naumt var það. Mikið af nammi og snakki var innbyrt.

    Svo var talsvert spjallað áður en farið var í háttinn að verða 3.

    Uncategorized

    Sumarbústaðarferð

    Hættum bæði snemma í vinnunni í dag og héldum út úr bænum. Förinni heitið í Sælukot, sumarbústað föðurfjölskyldu Sigurrósar.

    Eftir kaffistopp á Selfossi hjá frænku hennar úr móðurfjölskyldunni og pulsustopp á Hellu – en við erum löngu hætt að borða þennan úrgangsmat, bara smá sannreyning hjá okkur að þetta væri jafn vont og okkur minnti – komum við loks í bústaðinn rétt fyrir 19. Þar sem að þetta er bústaður í eldri kantinum þá var fyrsta verkið að fara út að læk og kveikja þar á vatnsdælunni, hún hins vegar vildi ekki hiksta oftar en tvisvar og sat svo dauð. Ég skipti því um rafgeymi ef ske kynni að hann væri orðinn tómur en svo reyndist ekki vera. Sigurrós náði því í vatn í fötu og það dugði svo sem yfir kvöldið. Næsta verk á eftir vatnsdælunni er að kveikja á gasinu, svo að ísskápur og eldavél virki. Það tókst en ekki gekk nógu vel með gasofninn, þar var gasið búið eftir tvær mínútur og því var hlupið til og skipt um gaskút. Að þessu loknu var hægt að setjast aðeins niður og slappa af.

    Sigurrós hélt áfram að lesa í gegnum gömlu barnabækurnar en ég greip mér bókina Apocalypso í hönd, sem er eftir meistara Robert Rankin. Kláraði hana auðvitað. Stíll Rankins er súrrealískur og fyndinn, orðaleikir og orðarugl talsvert notað en kjarninn að þessu sinni var pæling um guði yfirhöfuð. Ekki fyrir þá sem eru tæpir í enskunni en snilldarskemmtun fyrir þá sem að fatta stílinn.

    Hugsa að það væri auðvelt að gera útvarpsleikrit, stíllinn er það mikið í samræðustíl. Ómögulegt hins vegar að gera leikrit eða kvikmynd, orðaleikirnir myndu týnast og tæknibrellurnar kosta formúgu.

    Mjög áhugaverður tengill sem að ég sá hjá Betu, áhugaverð sýn á íslenska fótboltavelli. Hef einmitt ætlað mér að koma upp myndum af öllum leikvöllunum sem við erum með á skrá hjá World Football Database. Tékka á þessum gaur.

    Áhugavert:

  • The Internet Debacle – an alternative view