Spiladagur

Okkur tókst að snúsa allan morguninn, fórum ekki á fætur fyrr en á hádegi. Ég hafði reyndar hoppað fram úr um áttaleytið og kveikt á gasofninum enda ískalt orðið. Eftir morgunmatinn gripum við svo í Fimbulfamb, mitt fyrsta skipti. Byrjendaheppnin virtist ætla að brosa við mér, ég var búinn með 75% leiðarinnar á meðan að hin þrjú voru ennþá bara búin með 25%. Á ótrúlegan hátt tókst mér svo að fá ekki eitt einasta stig næsta hálftímann eða svo og Sigurrós og Regína fóru fram úr mér. Sigurrós vann en ég náði þriðja sætinu með því að fá loksins þessi fáu stig sem hafði vantað upp á.

Eftir þetta gripum við í Kana, og þar brosti gæfan við Erni. Hann sigraði með algjörum yfirburðum, var með fleiri stig en við hin þrjú samanlagt.

Heimferðin var tíðindalítil, höfðum velt því fyrir okkur að fara í Árbæjarlaugina og svo á Pizza Hut þar sem Sigurrós átti flottan tilboðsmiða. Þegar í bæinn var komið vorum við hins vegar svo glorsoltin að við fórum beint í pizzurnar. Reyndar leið nærri klukkutími frá því að við settumst við borðið og þangað til að við fengum pizzurnar. Örn og Regína fengu fyrir mistök stærri pizzu en við höfðum pantað, nokkuð sem að stelpunni á kassanum fannst greinilega vera fúlt og okkur að kenna. Pakksödd fórum við heim á leið og þar gekk Sigurrós að mestu frá öllu á meðan að ég dó úr þreytu.

Comments are closed.