HM:D20 – Flutningar #3

Eftir aðeins fjögurra stunda svefn var ég mættur fyrir framan sjónvarpið til að sjá Brasilíumenn sigra arfaslaka Englendinga. Svo var farið í vinnuna en tekið hlé um hálftólf og horft á leik Þjóðverja og Bandaríkjamanna hér í Betrabóli ásamt Val og Erni.

Eftir vinnu var haldið á Kambsveginn í þriðju flutningana þaðan á einu ári. Fyrst fór Guðbjörg á Selfoss, því næst fórum við á Flókagötu og nú var það Ragna á Selfoss. Þetta gamla ættarsetur er því nú búið að missa sína upprunalegu ætt, Ragna og Oddur byggðu þar ofan á lítið hús foreldra hennar fyrir 22 árum eða svo.

Á leiðinni á Selfoss sá ég að ég held hana Katrínu hjóla yfir Langholtsveginn, eins stórt og hún tekur upp í sig á vefnum sínum þá er hún afskaplega hlédræg stúlka á mannamótum. Gott dæmi um notkun á alter-ego eins og það er víst kallað.

Brasilía 2-1 England
Ekki er hægt að segja að Englendingar hafi verið ógnandi í leiknum, eina mark þeirra kom eftir mistök hjá varnarmanni sem að Owen nýtti mjög vel. Fyrir utan það ógnuðu þeir varla markinu allan leikinn. Ronaldinho lagði upp mark fyrir Rivaldo í viðbótartíma í fyrri hálfleik, skoraði svo úr aukaspyrnu langt utan af velli í seinni hálfleik, og var svo rekinn útaf fyrir grófa tæklingu. Tæklingin verðskuldaði gult spjald, sólinn of hátt á lofti, en rautt spjald er mjög strangur dómur, spurning hvort að aganefnd muni breyta því. Eftir brottreksturinn bökkuðu Brasilíumenn en fóru þó að halda boltanum mun betur. Áhugalausir Englendingar horfðu á þá spila reitabolta og gerðu fátt af viti. Seaman meiddist í fyrri hálfleik og var greinilega ekki góður í bakinu, það sást í báðum mörkum Brasilíumanna, Eriksson hefði betur skipt honum útaf fyrir heilbrigðan markmann. Beckham meiddist líka og haltraði um völlinn, Scholes átti arfaslakan leik og missti boltann oft og mörgum sinnum. Sanngjarn sigur Brasilíumanna, en ekki get ég sagt að ég vilji sjá þá sem heimsmeistara. Óskarsframmistaða Rivaldos er orðinn mjög þreytandi, algjörlega óíþróttamannslegt bull sem að ég líð ekki. Þar að auki komust Brasilíumenn upp með að hlaupa burtu með boltann þegar dæmdar voru aukaspyrnur á þá, nokkuð sem að önnur lið hafa fengið gul spjöld fyrir.

Þýskaland 1-0 Bandaríkin
Bruce Arena er greinilega hæfur þjálfari. Veikleikar Þjóðverjanna komu berlega í ljós á fyrstu mínútunum, Bandaríkjamenn sóttu mikið upp kantana og komust þar í auð svæði og sköpuðu talsverða hættu, aðeins Kahn bjargaði þýska liðinu frá því að lenda 2 mörkum undir. Þjóðverjar fóru þó aðeins að hressast og ná völdum á miðjunni en kantarnir voru enn galopnir hjá þeim og fljótir sóknarmenn Bandaríkjanna ullu miklum usla. Að auki voru ungu mennirnir í þýsku vörninni frekar kaldir, reyndu að hlaupa með boltann framhjá sóknarmönnum Bandaríkjanna og brenndu sig oft á því. Ballack skoraði loks með skalla, ég var einmitt nýbúinn að taka hann úr draumaliðinu sökum slaks leiks hans hingað til, jæja. Þjóðverjar ógnuðu talsvert en Bandaríkjamenn sömuleiðis. Sigurinn alls ekki í höfn fyrr en flautað var til leiksloka. Þýska liðið mun betra en 1998, en brotalamirnar eru augljósar, andstæðingar þeirra í næsta leik munu hafa séð í þessum hvernig best er að sækja á þá.

Comments are closed.