HM:D24 – Innivera á sólardegi

Ekki líst mér á það hjá Sverri að vilja hafa vegi malbikaða! Steypan er málið enda stunda allar siðmenntaðar þjóðir það að steypa alla vegi nema sveitavegi. Ég skil ekki þessa visku sem að er fólgin í því að búa til bútasaumsteppi úr malbiksbleðlum, hvað þá þessa árlegu malbikun aðalumferðaræðanna. Ein yfirferð með steypu dugar í mörg ár!

Í dag var sólardagur, og í dag hélt ég mig inni við. Eftir helgina eru lokaprófin á þessari sumarönn og þar sem að maður var slakari við námið en ætlunin var verður að bæta úr því núna, síðasti séns til þess.

Bronsleikur
Tyrkland 3-2 Suður-Kórea
Þetta hefði nú átt að vera úrslitaleikurinn en leiðinlegu liðin komust í úrslitin, þannig að maður varð að sætta sig við að þetta væri bara um þriðja sætið. Hinn hingað til frábæri varnarmaður Suður-Kóreu, fyrirliðinn Hong Myung-bo, klikkaði illa á 10 sekúndu þannig að Tyrkir skoruðu á þeirri 12. Þar var að verki afturgangan Hakan Sukur sem allt í einu virtist hafa tekið lýsi og meira til, þvílíkur kraftur í manninum. Ef að drengurinn hefði andskotast til þess að taka þetta lýsi nokkrum dögum fyrr værum við að sjá Tyrkina á morgun í úrslitaleiknum. Suður-Kóreumenn jöfnuðu með glæsilegri aukaspyrnu, svo gerðu þeir önnur varnarmistök og Tyrkir komnir yfir. Einfaldur þríhyrningur hjá Tyrkjum setti svo vörnina á afturendann og staðan var orðin 3-1 í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur aðeins daufari þangað til undir lokin þegar að Suður-Kóreumenn settu allt í botn, uppskáru mark á lokamínútunum en það var ekki nóg.

Leikurinn var mikil skemmtun og tilþrif beggja liða til fyrirmyndar. Ekkert þessu líkt mun sjást á morgun, um það efast ég ekki. Bæði þessi lið voru í góðu bókinni hjá mér og að leik loknum stimpluðu þau sig enn betur í bókina, þar sem leikmenn þeirra tóku höndum saman og fögnuðu áhorfendum. Liðin á morgun eru bæði í vondu bókinni og mér er næstum því eiginlega sama um hvernig það leiðindarugl fer.

Comments are closed.