Monthly Archives: December 2001

Uncategorized

Jólafrí

Þá er jólafríið hafið, þetta eru víst nokkurs konar brandajól þannig að þetta verður 5 daga frí hjá mér, svo tveir vinnudagar, helgarfrí og unnið fyrir hádegi á gamlársdag.

Uncategorized

Litlu jólin

Litlu jólin í hádeginu í dag í vinnunni. 3-4 jólalög sungin, matur etinn, eftirréttur, og svo sami jólabónus og áður: inneign í Kringlunni og rauðvín.

Uncategorized

Hringadróttinssaga

Fórum í Smárabíó í fyrsta sinn, á forsýningu Hringadróttinssögu. Ljósu punktarnir voru þeir að sætin voru fín, poppið var ætt (ólíkt því sem það er í öðrum bíóum) og öll hönnun bíósins greinilega til fyrirmyndar. Myndin sjálf hins vegar vakti takmarkaða hrifningu mína, þessi grein sem nefnist ‘Lord’ of the flyweights lýsir því hvernig mér fannst furðu vel. Þetta var voða sjónrænt og tækniatriðin flest virkilega vel útfærð, en sagan og persónurnar hrifu mig aldrei. Ég hef lesið Hringadróttinssögu, finnst hún ágæt en ekki alveg þetta besta bókmenntaverk síðustu aldar sem að yfirleitt er talið.

Miklar umræður auðvitað í gangi á vefnum, greinilega mikið “hæp” í gangi með myndina og margir sem að sjá ekki myndina fyrir stjörnunum í augunum. Það er svo sem þeirra mat að þetta sé besta mynd allra tíma, mitt mat er **/****.

Uncategorized

Latin Translator

Mest lítið í dag, fann skemmtilegt tól þó á vefnum, Latin Translator, þýðir fleira einnig.

Uncategorized

Hornið

Fórum á Hornið í kvöld með hópi úr Kennó sem var að fagna próflokum (allflestra en ekki allra þeirra). Núna vorum við niðri, umhverfið er svona sæmilega kósý en hátíðnisuðið í einhverjum kælum þarna fór langt með að eyðileggja allt. Maturinn var ágætur, þjónustan allt í lagi.

Hef alveg sofið á Alþingisvaktinni sem ég ætlaði að halda uppi, en sé að Hrafnkell er vel með á nótunum. Ég hélt annars endilega að þetta væri nú þegar löglegt, brugg til einkanota?

Svo er gaman til þess að vita að við séum núna eitt hlýjasta land Evrópu.

Uncategorized

Lífdagar Mözdunnar lengdir

Allur dagurinn fór í lífgunartilraunir á Mözdunni, hún er núna í betra formi en hún hefur verið í fleiri fleiri vikur, starfhæfir demparar komnir undir báðum megin að aftan, en slíkt hefur ekki verið til staðar lengi.

Þakkir fyrir að koma fáknum mínum aftur á götuna fá pabbi allsherjarreddari og vinnuhestur, partasalinn sem að gaf sér tíma frá fjölskyldunni á laugardegi til að selja mér (svolítið dýra) dempara, Ársæll fornbílakall sem að mætti á sunnudegi með suðugræjurnar og sauð demparahúsið aftur á bílinn (ætti að duga eitthvað) og Haukur bróðir fyrir aðstoð.

Mazdan endist enn, ryðið er farið að sækja hart á undirvagninn en vonir standa til þess að hún endist veturinn.

Í skóinn minn: Empire Earth, verst að ég er hættur að fá í skóinn.

Uncategorized

Síðustu dagar Mözdunnar

Grey Mazdan mín 323 frá 1987 hefur verið minn þarfasti þjónn undanfarin 8 ár. Eftir að hafa glímt í 3 tíma við einn skrúfbolta sem að var fastur á versta stað komumst við pabbi að því að smellurinn mikli sem að ég heyrði í gær, var sumsé þegar að boddíið á bílnum hrökk í sundur í demparahúsinu (sumsé bak við vinstra aftursætið er gat í gegn), ryðið búið að safnast fyrir og bilaður dempari og gormar búnir að leggja enn meira álag á þennan hluta undanfarið.

Þessi 5 tíma törn varð því frekar árangurslaus hjá okkur feðgunum, á morgun á hins vegar að sjóða í þetta gat þannig að það endist eitthvað aðeins lengur. Ég er byrjaður að svipast um eftir öðrum bíl, þeir eru bara svo slæm fjárfesting að manni svíður það að þurfa að borga fullt af peningum fyrir þá (svo ekki sé minnst á TUGI þúsunda á ári í tryggingablóðsugurnar).

Uncategorized

En það er ekki föstudagurinn þrettándi…

Ekki var þetta glæsilegur föstudagur. Á leiðinni heim úr vinnunni heyrðist þessi þvílíki hvellur þegar ég beygði út af bílastæðinu, og ég keyrði löturhægt það sem eftir var heim, enda brakaði í öllum bílnum. Demparinn loksins búinn að gefa sig, og ekki enn búið að finna varahlut eftir margra vikna leit. Heima biðu svo mín tvö bréf, annað var frá tollinum sem að trúir ekki reikningnum upp á 0 pund sem að Amazon sendi (voru að senda bók í stað gallaðrar sem ég fékk) né orðum mínum um þetta, hitt bréfið var svo rukkun fyrir fullt nám við HR þó ég sé bara að fara í hlutanám þessa önn. Og enn vill flísin ekki út.

Einn ljós punktur þó, Mike sendi mér Grim Fandango-diskinn (tónlistin úr leiknum frábæra) sem jólagjöf og fékk ég hann í kvöld.

Áhugavert lesefni:

 • Peres hryllir við hernaðaraðgerðum Sharons
 • Uncategorized

  Dekurkvöld

  Þessi endalausi akstur á Reykjanesbrautinni verður pínu þreytandi, stoppaði ekki nema kortér núna áður en ég hélt til baka, um 90 km akstur samtals fyrir kortérsvinnu… jæja.

  Sigurrós steikti handa okkur ungnautakjöt, við fengum okkur ensku ostatertuna sem að var sæmileg síðast, og svo var nammi og popp á meðan að horft var á Bug’s Life á DVD (tekin á bókasafninu), en það er einmitt myndin sem við fórum á, á fyrsta (og eina) stefnumótinu okkar.

  Uncategorized

  Sænskustillingar

  Er að festa sjónvarpsstöðvarnar inn í DVD/VHS-spilarann okkar, og þar sem að þessi þykki bæklingur sem fylgdi með er á sænsku, norsku, dönsku og finnsku. Sænskan er eiginlega langbest af þessum málum, þannig að ég les bara í gegnum hana. Af hverju danska er ennþá kennd í stað til dæmis sænsku, skil ég ekki. Ekki nóg með að við eigum ekki séns á að tala dönsku þannig að Danir skilji, heldur skilja aðrir Norðurlandabúar ekki Dani, á meðan að þeir skilja sænskuna og norskuna hjá hvor öðrum.

  Það er svo sem ekki alltaf gáfulegt sem kemur frá ráðamönnum okkar, en það er verra þegar það er bókstaflega heimskulegt.

  Af fáránlegum hlutum að segja þá er flísin enn djúpt inni.

  Áhugavert lesefni:

 • Mikil vinna eiginkvenna hættuleg heilsu makans