Category Archives: Tækni

Leikir Molasykur Tækni

Fimleikar

Lítið markvert gert í dag, smá PHP fimleikar og smá CM spilun. Ég er orðinn verulega þreyttur á þessari DDE Error villu sem að Windows 2000 er sífellt með, en það er víst ekkert hægt að gera í þessu samkvæmt vefnum hjá Microsoft. Ég hef sjálfur reynt allt, ég er búinn að strauja þessa vél 7 sinnum, eitt sinn meira að segja með Linux til að geta tætt diskinn gjörsamlega í sundur. Samt hangir þessi DDE villa inni, hún veldur því að sum forrit deyja þegar þeim sýnist og önnur fara ekki upp nema suma daga. Það eru góðar ástæður fyrir andúð minni á Microsoft, númer eitt er vanhæfni þeirra til þess að skila af sér vörum sem virka.

Áhugavert lesefni:

Tækni

Betri skrifstofuvöndull

Fékk í dag tilkynningu um að komin væri ný útgáfa af PC Suite frá þeim hjá Software602. Þetta er sumsé svona skrifstofuvöndull sem að gefur Office frá Microsoft ekkert eftir, mér finnst PC Suite reyndar mun skemmtilegri, og ekki sakar að það kemur frá fyrirtæki sem er annt um viðskiptavini sína. Ráðlegg Windows notendum að kíkja á þetta, þetta er nefnilega ókeypis og svo þarf ekki að ná í nema 13,6 MB uppsetningarskrá. Office er ekki uppsett á kjöltutölvunni minni, PC Suite er það!

Mér sýnist sem að Bandaríkjamenn séu nú að gera sitt allra besta til þess að láta sem að World Trade Center hafi aldrei verið til, samkvæmt þessari frétt þá eru allir upp til handa og fóta að breyta sjónvarpsþáttum, textum, myndum og gvuðmávitahvað. Önnur eins söguskoðun hefur ekki sést í lýðræðisríki svo ég muni eftir.

Áhugaverður tengill:

Molasykur Tækni

Matarlistin

Hóf störf við matarlist um leið og ég kom heim, Sigurrós var að prufa nokkurs konar smápizzustjörnubakstur fyrir einn af þeim þremur saumaklúbbum sem hún er í, og því tók ég það að mér að undirbúa kvöldmatinn okkar. Ég viðurkenni að hann var ekki flókinn, en ég er góður í þessu 🙂

Maður tekur einn pizzubotn (reyndar keypt sem Bónus pizza en það er sama sem ekkert álegg), smyr hann duglega með tómatsósu, tekur eitt skinkubréf (í þetta sinn reykt skinka) og dreifir sneiðunum jafnt yfir botninn. Því næst er ananasdós opnuð, safa hellt úr, hringirnir skornir í dósinni (eitt handtak sker í gegnum alla hringina) og bútunum loks raðað á pizzuna. Þá er eftir aðeins eitt hráefni í viðbót, rifnum mozzarella osti er dreift duglega yfir pizzuna, mjög vel gefst að setja extra mikið í miðjuna svo að maður fái þennan pizzuauglýsinga-effekt þegar að pizzusneiðarnar eru skornar og teknar frá. Því næst er þessu stungið inní bakaraofn við á að giska 200°C eða svo, þangað til að osturinn er farinn að gullinbrúnast yst og botninn orðinn svolítið stökkur.

Þar sem okkur finnst báðum skinka og ananas vera besta álegg sem hægt er að fá á pizzu þá var þetta vel heppnað. Einfalt og gott, og mun ódýrara og hollara en margar aðkeyptar pizzur (pönnufitan á Pizza Hut er banvæn).

Orðinn þreyttur á þessum 4000 vírustilkynningum þannig að ég breytti villutilkynningunum, núna fara þær í gagnagrunn í stað þess að fara sem póstur á mig. Svo gref ég bara IP-tölurnar úr grunninum og sendi tilkynningar á rétta aðila.

Í kvöld fór ég svo að spöglera betur í því hvernig ég ætla að hafa vefumsjónarkerfið sem ég ætla að láta þeim sem að fá vefsetur á betra.is í té. Eins og allir vita er verkefni ekki komið almennilega af stað fyrr en það fær eitthvað nafn, mig langaði í eitthvað íslenskt án séríslenskra stafa þó, þannig að ég fór á Orðabók Háskólans, og setti inn orðið “vef” í leitarvél þeirra. Fékk nokkrar niðurstöður, þar á meðal orðið vefarakofi.

Þar sem að þetta umsjónarkerfi á að vera fyrir fólk sem ég þekki vil ég hafa það svolítið heimilislegt, því fannst mér alveg upplagt að fá innblástur frá þessu orði og því varð nafnið Vefkofi. Þetta mun verða heiti þessa blessaða PHP krílis sem ég ætla að koma á laggirnar. Orðið kofi vísar hérna til æskunnar, þegar að maður byggði kofa og lék sér í (pabbi var stórtækur kofasmiður, og við bræðurnir áttum tvo stóra kofa, sá seinni var 2 hæða með bílskúr að auki). Kofar eru því í mínum huga vinalegir staðir, og vonandi verður Vefkofinn minn vinalegur við þá sem munu nota hann.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti Tækni

Þegar þrír er of mikið

Linux-sneiðin mín (partition) kom að góðum notum í dag, þegar að ég prófaði að setja WebSphere upp á *nix stýrikerfi. Uppsetningin gekk glimrandi vel og IBM fær plús í kladdann fyrir það hversu flottur þessi tarbolti þeirra var og vandað uppsetningarforritið.

Áfram hrúgast inn vírusatilkynningar hjá mér, vel yfir 3500 komnar, ég sendi ekki nema á að giska 8 tölvupósta í dag á aðila sem að ættu að geta uppfært vélarnar sem eru að skjóta núna á mig. Raunar voru þessar 8 ábyrgar fyrir eins og 1600 sendingum þannig að þetta er allt að koma. Þetta hefst með þolinmæðinni.

Við skruppum fjögur úr vinnunni á KFC í hádegismat, þar sem að grísabollurnar höfðuðu ekki sterkt til okkar í mötuneytinu. Við pöntuðum okkur öll besta réttinn þeirra, númer 6, sem er BBQ kjúklingaborgari með frönskum og gosi. Fátt sem toppar þetta. Urðum jafn södd og af hamborgurunum sem kostuðu rúmlega tvöfalt meira á Ruby Tuesday síðasta föstudag, en ég hallmæli nú ekki Ruby Tuesday samt, alvöru hamborgarar á góðum stað.

Í kvöld vorum við að keppa einn vináttuleikinn í viðbót. Veðrið var til fyrirmyndar, ekkert rok og rigningarúðinn kom beint niður, okkur til ánægju, svo voru almennileg varamannaskýli við Leiknisvöllinn sem að nýttust vel vegna þessarar útlandarigningar, íslenskt slagviðri hefði bara hnussað og gusað yfir menn sama hvar þeir sátu. Gervigras er líka alltaf best blautt. Fyrri hálfleikur fór 0-0 þar sem að við í vörninni vorum að gera ágætis hluti. Í seinni hálfleik var svo bara kaos með sífelldum innáskiptingum og færslum manna á milli staða. Það voru 3 menn utan vallar sem voru að stjórna þessu og þeir stóðu hlið við hlið og öskruðu hver ofan í annan. Þegar að snöggi kantmaðurinn okkar var allt í einu kominn í miðvörðinn var þetta hætt að vera fyndið. Þessi hringavitleysa þýddi auðvitað öruggt tap, 6-1 var staðan að loknum venjulegum leiktíma en þeir spiluðu víst eitthvað áfram yfir það, ég fór bara heim enda klukkan orðin 23:00. Það sorglega er að við erum með nógu góðan mannskap til þess að gera miklu betur, og hefðum getað rassskellt andstæðingana. En með svona stjórnun þá er bara ein útkoma möguleg.

Áhugavert lesefni:

Tækni

Rauða hættan

Í dag er 18. þessa mánaðar, sem að ég hefði svo sem ekki velt meira fyrir mér nema hvað að það er einmitt 18. hvers mánaðar sem að tölvuveiran Code Red fer á stjá. Ég var alveg búin að steingleyma kauða reyndar. Ég er umsjónarmaður með einum vefþjóni uppí vinnu sem að gegnir mjög sérstöku hlutverki, og ég fæ póst ef að upp kemur villa á honum, þar með talin 404 villa (ef að síða/skrá finnst ekki). Upp úr hádegi byrjaði að streyma inn póstur með villumeldingum, innihald beiðnanna (server request) voru ýmis tilbrigði við villu sem að er vel þekkt í IIS (vefþjónn sem að Microsoft gerir), þó að fyrir löngu sé hægt að fá uppfærslur sem að varna þessu. Við nánari skoðun kom í ljós að þetta er ný veira, sem að heitir á fræðimálinu w32.Nimda.A en almenningur getur kallað einfaldlega Nimda (sjá hvað Bjarni segir um hann), og er víst algjör óþokki sem að fær ýmislegt lánað frá Code Red, SirCam og þeim bræðrum öllum. Málið er bara það að það er gífurlegur fjöldi sem að pælir aldrei í því að uppfæra hugbúnaðinn sem að er notaður. Einkum ættu þeir sem að nota hugbúnað gerðan af Microsoft að vera duglegir að uppfæra hann, þar sem að þetta risafyrirtæki getur ekki gefið út hugbúnað án þess að hann sé með gapandi öryggisvillum (öll forrit innihalda villur, en Microsoft forrit innihalda STÓRAR villur).

Núna telst mér til að yfir 1700 villumeldingar hafi komið, líklega frá þá um það bil 240 vélum sem að eru sýktar. Á morgun sest ég niður, gref upp eigendur netanna sem að vélarnar eru tengdar við og sendi þeim póst, í þeirri von að þeir hafi samband við rétta aðila sem að lagfæra þá vélarnar.

Samkvæmt þessari frétt varð Morgunblaðið fyrir barðinu á tölvuveiru einmitt í dag. Stórar líkur á því að einhvers staðar hafi þeir haft vél án nýjustu uppfærslna keyrandi, og því fór sem fór.

Áhugaverður tengill:

Leikir Tækni

Blogger hvað?

Kvöldið fór í smá CM spilun og smá PHP lagfæringar og viðbætur. Er að smíða smávegis vefleiðarakerfi sem ég ætla að leyfa því fólki sem að fær vefsvæði á betra.is að nýta sér. Ekki séns að ég fari að láta það fólk þjást við að nota eitthvað í líkingu við Blogger, það virðist sífellt vera eitthvað vesen á því, og þegar að maður getur hjálpað til, þá ber manni siðferðisleg skylda til þess.

Ef þú getur hjálpað öðrum, gerðu það.

Fótbolti Tækni

4. dagur sambandsleysis

Gaf enn og aftur upp nauðsynlegustu upplýsingar þegar ég hringdi í hítina sem að er 800 7000. Hef það alltaf á tilfinningunni að hvað sem að ég segi þar, þá hverfi það ofaní svarta hít og finnist aldrei aftur. Að minnsta kosti kannast enginn við neitt þarna. Spurning hvort að þetta verði komið áður en ég fer út um næstu helgi…

Í kvöld sá ég hins vegar loksins almennilegt efni á Eurosport (reyndar var HM í Edmonton nokkuð skemmtilegt), Brescia 1-1 Paris SG í InterToto Final, og seinni hálfleikur í leik Barcelona og Wisla Krakow sem fór 1-0, í undankeppni meistaradeildarinnar.

Tækni

3. dagur sambandsleysis

Þá er þriðji dagur sambandsleysis við internetið hér heima vel á veg kominn. Ég er búinn að gefa upp ýmsustu upplýsingar til þeirra sem svara í 800 7000 aftur og aftur, skrítið að þurfa alltaf að endurtaka sig, ég hélt endilega að þeir hefðu keypt svona Call Center hugbúnað, þar sem öll samskipti eiga að geymast miðlægt með sögu þeirra.

Fjölskyldan Tækni

Rólegheit á sunnudegi

Gærkvöldið var aldeilis vel heppnað og var til fyrirmyndar í alla staði. Raunar var eitt atriði sem að ergði okkur, en það var að tappinn í rauðvínsflöskunni (sem er vikugömul úr Ríkinu) var orðinn svo þurr að miðjan kom upp með tappatogaranum okkar. Eftir talsvert langa rimmu við að reyna að pota restinni upp úr flöskunni ákvað ég að massa þetta bara og ýtti tappanum bara ofan í flöskuna. Rauðvíninu var hellt í gegnum sigt í karöflu, svona til þess að leyfa víninu að anda loksins og að fjarlægja þá korkbita sem flutu um.

Piparsteikin var sérdeilis ljúffeng sem og kartöflurnar, rauðvínið var jafngott og alltaf og ostakakan var prýðileg, þó hún hafi nú ekkert jafnast á við ostakökurnar hjá mömmu, ömmu eða tengdó.

Við horfðum á “My Fellow Americans (1996)”, mynd sem var sýnd á RÚV. Bara bærilegasta skemmtun í anda Odd Couple. Svo verður maður nú að horfa á þetta RÚV af og til fyrst að það kostar heimilið einhvern 3500 kall eða svo á mánuði. Að henni lokinni skelltum við “Me, myself and Irene” svo í vídjóið, hún var ekki síðri skemmtun, svona myndir á bara að horfa á og hlæja.

Ég er annars mest lítið að gera, einkum sökum þess að sem ég skrifa þetta hefur heimili mitt verið sambandslaust við netið síðan um 16:00 í gær, þegar að breiðbandið hikstaði og módemið nær ekki að tengjast. Þeir hjá Símanum segjast vera að reyna að ná í þá sem að eiga að sjá um þetta, vonandi að það takist á morgun þá, tveim sólarhringum eftir að bilunin varð.

Tækni

Ég elska RSS

Og RSS elskar mig. RSS er annars XML staðall fyrir skrár sem að fjölmiðlar nota til að birta yfirlit frétta hjá sér. Ég er búinn að vera að gæla við það í einhvern tíma að skoða það nákvæmlega og búa til mína eigin vefgátt, þar sem ég raða saman því sem ég vil hafa. Um helgina gerði ég Íslenska Sheff Wed vefinn færan um að skila RSS frá sér, og það virkaði fínt. Í gær smíðaði ég svo fyrstu útgáfu vefgáttarinnar minnar, og hún er að virka fínt. Bjarni fær prik í flotta pípuhattinn fyrir RSS þjónustu sína.

Hverju ert þú að bíða eftir? Smíðaðu þér þína eigin vefgátt! Kóðanum geturðu stolið frá minni og breytt eftir hentugleika.