Hóf störf við matarlist um leið og ég kom heim, Sigurrós var að prufa nokkurs konar smápizzustjörnubakstur fyrir einn af þeim þremur saumaklúbbum sem hún er í, og því tók ég það að mér að undirbúa kvöldmatinn okkar. Ég viðurkenni að hann var ekki flókinn, en ég er góður í þessu 🙂
Maður tekur einn pizzubotn (reyndar keypt sem Bónus pizza en það er sama sem ekkert álegg), smyr hann duglega með tómatsósu, tekur eitt skinkubréf (í þetta sinn reykt skinka) og dreifir sneiðunum jafnt yfir botninn. Því næst er ananasdós opnuð, safa hellt úr, hringirnir skornir í dósinni (eitt handtak sker í gegnum alla hringina) og bútunum loks raðað á pizzuna. Þá er eftir aðeins eitt hráefni í viðbót, rifnum mozzarella osti er dreift duglega yfir pizzuna, mjög vel gefst að setja extra mikið í miðjuna svo að maður fái þennan pizzuauglýsinga-effekt þegar að pizzusneiðarnar eru skornar og teknar frá. Því næst er þessu stungið inní bakaraofn við á að giska 200°C eða svo, þangað til að osturinn er farinn að gullinbrúnast yst og botninn orðinn svolítið stökkur.
Þar sem okkur finnst báðum skinka og ananas vera besta álegg sem hægt er að fá á pizzu þá var þetta vel heppnað. Einfalt og gott, og mun ódýrara og hollara en margar aðkeyptar pizzur (pönnufitan á Pizza Hut er banvæn).
Orðinn þreyttur á þessum 4000 vírustilkynningum þannig að ég breytti villutilkynningunum, núna fara þær í gagnagrunn í stað þess að fara sem póstur á mig. Svo gref ég bara IP-tölurnar úr grunninum og sendi tilkynningar á rétta aðila.
Í kvöld fór ég svo að spöglera betur í því hvernig ég ætla að hafa vefumsjónarkerfið sem ég ætla að láta þeim sem að fá vefsetur á betra.is í té. Eins og allir vita er verkefni ekki komið almennilega af stað fyrr en það fær eitthvað nafn, mig langaði í eitthvað íslenskt án séríslenskra stafa þó, þannig að ég fór á Orðabók Háskólans, og setti inn orðið “vef” í leitarvél þeirra. Fékk nokkrar niðurstöður, þar á meðal orðið vefarakofi.
Þar sem að þetta umsjónarkerfi á að vera fyrir fólk sem ég þekki vil ég hafa það svolítið heimilislegt, því fannst mér alveg upplagt að fá innblástur frá þessu orði og því varð nafnið Vefkofi. Þetta mun verða heiti þessa blessaða PHP krílis sem ég ætla að koma á laggirnar. Orðið kofi vísar hérna til æskunnar, þegar að maður byggði kofa og lék sér í (pabbi var stórtækur kofasmiður, og við bræðurnir áttum tvo stóra kofa, sá seinni var 2 hæða með bílskúr að auki). Kofar eru því í mínum huga vinalegir staðir, og vonandi verður Vefkofinn minn vinalegur við þá sem munu nota hann.
Áhugavert lesefni: