Rólegheit á sunnudegi

Gærkvöldið var aldeilis vel heppnað og var til fyrirmyndar í alla staði. Raunar var eitt atriði sem að ergði okkur, en það var að tappinn í rauðvínsflöskunni (sem er vikugömul úr Ríkinu) var orðinn svo þurr að miðjan kom upp með tappatogaranum okkar. Eftir talsvert langa rimmu við að reyna að pota restinni upp úr flöskunni ákvað ég að massa þetta bara og ýtti tappanum bara ofan í flöskuna. Rauðvíninu var hellt í gegnum sigt í karöflu, svona til þess að leyfa víninu að anda loksins og að fjarlægja þá korkbita sem flutu um.

Piparsteikin var sérdeilis ljúffeng sem og kartöflurnar, rauðvínið var jafngott og alltaf og ostakakan var prýðileg, þó hún hafi nú ekkert jafnast á við ostakökurnar hjá mömmu, ömmu eða tengdó.

Við horfðum á “My Fellow Americans (1996)”, mynd sem var sýnd á RÚV. Bara bærilegasta skemmtun í anda Odd Couple. Svo verður maður nú að horfa á þetta RÚV af og til fyrst að það kostar heimilið einhvern 3500 kall eða svo á mánuði. Að henni lokinni skelltum við “Me, myself and Irene” svo í vídjóið, hún var ekki síðri skemmtun, svona myndir á bara að horfa á og hlæja.

Ég er annars mest lítið að gera, einkum sökum þess að sem ég skrifa þetta hefur heimili mitt verið sambandslaust við netið síðan um 16:00 í gær, þegar að breiðbandið hikstaði og módemið nær ekki að tengjast. Þeir hjá Símanum segjast vera að reyna að ná í þá sem að eiga að sjá um þetta, vonandi að það takist á morgun þá, tveim sólarhringum eftir að bilunin varð.

Comments are closed.