Linux-sneiðin mín (partition) kom að góðum notum í dag, þegar að ég prófaði að setja WebSphere upp á *nix stýrikerfi. Uppsetningin gekk glimrandi vel og IBM fær plús í kladdann fyrir það hversu flottur þessi tarbolti þeirra var og vandað uppsetningarforritið.
Áfram hrúgast inn vírusatilkynningar hjá mér, vel yfir 3500 komnar, ég sendi ekki nema á að giska 8 tölvupósta í dag á aðila sem að ættu að geta uppfært vélarnar sem eru að skjóta núna á mig. Raunar voru þessar 8 ábyrgar fyrir eins og 1600 sendingum þannig að þetta er allt að koma. Þetta hefst með þolinmæðinni.
Við skruppum fjögur úr vinnunni á KFC í hádegismat, þar sem að grísabollurnar höfðuðu ekki sterkt til okkar í mötuneytinu. Við pöntuðum okkur öll besta réttinn þeirra, númer 6, sem er BBQ kjúklingaborgari með frönskum og gosi. Fátt sem toppar þetta. Urðum jafn södd og af hamborgurunum sem kostuðu rúmlega tvöfalt meira á Ruby Tuesday síðasta föstudag, en ég hallmæli nú ekki Ruby Tuesday samt, alvöru hamborgarar á góðum stað.
Í kvöld vorum við að keppa einn vináttuleikinn í viðbót. Veðrið var til fyrirmyndar, ekkert rok og rigningarúðinn kom beint niður, okkur til ánægju, svo voru almennileg varamannaskýli við Leiknisvöllinn sem að nýttust vel vegna þessarar útlandarigningar, íslenskt slagviðri hefði bara hnussað og gusað yfir menn sama hvar þeir sátu. Gervigras er líka alltaf best blautt. Fyrri hálfleikur fór 0-0 þar sem að við í vörninni vorum að gera ágætis hluti. Í seinni hálfleik var svo bara kaos með sífelldum innáskiptingum og færslum manna á milli staða. Það voru 3 menn utan vallar sem voru að stjórna þessu og þeir stóðu hlið við hlið og öskruðu hver ofan í annan. Þegar að snöggi kantmaðurinn okkar var allt í einu kominn í miðvörðinn var þetta hætt að vera fyndið. Þessi hringavitleysa þýddi auðvitað öruggt tap, 6-1 var staðan að loknum venjulegum leiktíma en þeir spiluðu víst eitthvað áfram yfir það, ég fór bara heim enda klukkan orðin 23:00. Það sorglega er að við erum með nógu góðan mannskap til þess að gera miklu betur, og hefðum getað rassskellt andstæðingana. En með svona stjórnun þá er bara ein útkoma möguleg.
Áhugavert lesefni: