Author Archives: Jóhannes Birgir

Hafragrautur, meyjarsamloka og grjótnám

Skrifað undir nýjan kjarasamning kennara í dag en það vekur reyndar nokkra furðu þar sem þetta virðist vera miðlunartillagan sem var felld með 93% atkvæða nema hvað hækkun vegna potta verður 3 í stað 2.5 og eingreiðslan hækkar örlítið. Engu líkara en að kennaraforystan sé dauðhrædd um að gerðardómur muni gera enn verr fyrir kennara en þetta rusl.

Svínbeygingarhótunin sem lögin fela í sér með fyrirmælum til gerðardóms greinilega að virka. Svona gera menn ekki! Nú er spurning hvort að kennarar taki þessari afsmán eða treysti á happdrætti svínbundins gerðardóms.

Magnað að stétt sé bundin af kjarasamningum óskyldrar stéttar í sínum samningamálum eins og lögin kveða á um. Þetta getur varla staðist vinnuréttindalög?

Jæja, þetta er álíka rugl og Maríu mey samlokan (sjá einnig hér).

Grein í Wired um menn sem virðast hafa verið að spila EVE! Grjótnám er meðal stærstu atvinnuvega þar.

Írak og Sólveig, newspeak og unglingabólur

Jæja veturinn lét sjá sig í dag. Blindbylur eftir hádegi og það tók tæpan klukkutíma að komast úr vinnunni minni, til Sigurrósar og svo heim.

Í Bandaríkjunum fara nú hreinsanir fram, á meðan bíður vísindasamfélagið eftir því að sjá hvort að miðaldastefna Bush-stjórnarinnar gangi lengra í að banna eða skerða vísindalega starfsemi.

Sólveig “Skeljungs-frú” Pétursdóttir skammaði stjórnarandstöðuna fyrir að vilja “ístöðuleysi” í málum Íraks eftir að þeir vildu draga til baka stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar (ekki þjóðarinnar, það er á hreinu að hún er andvíg) við innrásina þar. Uppbyggingarstarf væri hafið og innrásinni lokið, þó svo að reyndar bardagar geisuðu enn.

Hvenær bjó einhver til þann staðal að það að vera þrjóskur og þver gegn öllum staðreyndum væri að vera staðfastur, og að taka mark á þeim gögnum sem liggja fyrir og vilja fara eftir þeim væri ístöðuleysi?

Þetta er svo mikið “newspeak” að það er sárgrætilegt að sjá fjölmiðla apa svona vitleysu eftir. Það er eitt að vera staðfastur og trúa á sitt, en þegar öll rök og reynsla sýna fram á hið gagnstæða, þá er ekki lengur um staðfestu að ræða heldur sjálfsblekkingu eða lygar.

Sólveig veit vonandi annars að ástandið í Írak er nú mun verra fyrir lífsgæði almennra borgara en þegar Saddam var við völd (þó að maður verji þann fant ekki, þá er hann nábróðir Bush hvað fjölda myrtra kemur). Það sem er að gerast í Írak er hrein og bein slátrun en fjölmiðlar þegja þunnu hljóði og segja bara “10 hermenn og 65 andspyrnumenn létust, einhverjir óbreyttir borgarar eru taldir hafa fallið” þegar þessir óbreyttu borgarar eru í hundruða- og þúsunda tali ekki bara drepnir heldur eru eftirlifandi verulega þjáðir, margir örkumla eftir sprengjuregn og fárveikir vegna næringarskorts og sjúkdóma.

Nei, Sólveigu finnst stjórnarandstæðan ætla að gera Írökum grikk með því að Ísland taki til baka stuðning sinn við ólöglegt stríð. Hún stígur ekki meira í vitið þarna en í öðrum málum sem hún hefur vasast í, hennar arfleifð verður ekki meiri en svo en að gullna klósettið hennar verður talinn hápunktur ferils kerfiskerlingar.

Æjá, hún gæti kannski sagt okkur hvernig gengur í Írak? Smá morð og svona, það er nú ekkert milli vina og eins flugvallar er það?

Þá er það tenglasúpa dagsins, fyrsti tengillinn vekur ugg í brjósti margra: Workers told: computers could blind you! Ekki kemur fram hvort CRT (venjulegir) og LCD (flatskjáir) séu jafn varasamir.

Komin er fram kenning um að unglingabólur, sem mörgum finnst óaðlaðandi, séu einmitt til þess gerðar að minnka líkur á kynmökum unglinga! Náttúruleg getnaðarvörn?

Slúttum þessu á Cocaine haul hidden in giant squid og fótboltafléttu með Kína og Hong Kong.

Vín í Skotlandi, Atlantis við Kýpur og íslensku sóðarnir

Einar Örn er með áhugaverðan pistil um íslensku sóðana á síðunni sinni.

Skotar gæla nú við það að næstu aldamót geti þeir verið farnir að rækta vín og í staðinn flytjist viskígerð til Íslands og Noregs, sökum veðurfarsbreytinga. Ég vil nú frekar vínið en viskíið.

Elín er alltaf jafn dugleg á BBC vaktinni, nýjasta fréttin þaðan er að það er enn einu sinni búið að finna Atlantis.

Ásmundur, Davíð, Halldór, Ol Dirty Bastard

Þingskjal númer 353 frá árinu 2004 er ekki ýkja orðmargt. Þetta eru lög sett á verkfall grunnskólakennara. Í þeim er að finna magnaða klausu sem ég veit ekki til að hafi sést áður í lögum sem sett hafa verið gegn verkfalli.

Við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.

Við þessu er afar einfalt útspil. Ég ætla nú að athuga hvort vinnuveitandi minn geti ekki gert við mig kjarasamning sem gengur út á það að ef að laun kennara verða ekki 200 þúsund krónur hið minnsta, raski það samningi mínum.

Það eru ekki margar stéttir sem fá svona skít hraunað yfir sig, en eins og Ásmundur sagði sjálfur “þetta er jú bara kvennastétt” og eins og Davíð sagði í þætti í gær “er svo mikil karlremba” þá er þetta kannski ekki ýkja undarlegt.

Íslendingar eru allt of duglegir að láta opinbera starfsmenn og pólitíkusa komast upp með þvætting sem að myndi leiða til uppsagnar þeirra í flestum ríkjum Vestur-Evrópu. Á Íslandi þurfa þeir hins vegar ekki einu sinni að biðjast afsökunar heldur yppa öxlum og segja “svona er þetta”.

Hver sá sem tekur “svona er þetta” sem góðu og gildu svari á næstum því skilið að fá útreiðina sem hann fær.

Enda þetta á fréttum úr hipp-hopp heiminum þar sem þeir eru orðljótari en við eigum að venjast, en kunna líka stundum að afsaka sig ólíkt okkar “háu” herrum og frúm. ODB var annars sá meðlimur WTC sem var með bestu tónlistina.

Eurotrip & Minority Report

Stundum þarf maður bara að reyna að gleyma því að lygarar og morðingjar sitja við völd á Íslandi, svo ekki sé minnst á erlenda brúðustjórnendur þeirra.

Því horfðum við á Eurotrip í gær sem reyndist hin besta skemmtun, samansafn af skondnum atriðum með húmorinn í lagi. Fínt til að aðeins kitla brosvöðvana sem hafa lítið getað aðhafst undanfarnar vikur.

Í dag var það svo meðmyndin sem nefnist Minority Report. Öðruvísi mynd með áhugaverðum pælingum, myndir úr hugskoti Philip K. Dicks standa oftast feti framar. Nóg er eftir af sögum hans sem ekki er búið að kvikmynda.

Kennarar steypa okkur í glötun?!

Samkvæmt frumvarpinu skal gerðardómurinn hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deiluaðila að því leyti sem við á. Við ákvarðanir um laun félagsmanna og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.

Hann [Halldór Ásgrímsson] sagði, að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda. Þetta eigi bæði við um stefnuna í peningamálum og fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Í þessu samhengi sé brýnt að launastefna ríkis og sveitarfélaga komi ekki af stað víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefði í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Þessu frumvarpi sé ætlað að stuðla að framgangi þessara markmiða.
(mbl.is)

Já. Laun kennara geta raskað stöðugleika efnahagsmála? Þetta er enn ein snilldarröksemdafærslan frá mönnunum sem eru að sökkva stóru landsvæði í drullupoll sem að auki verður ekki arðbær samkvæmt neinum útreikningum sem hafa verið gerðir og kostar ekki nema gífurlega gommu milljarða króna.

Þegar að við verðum enn að borga upp og þrífa þennan drullupoll (sem stíflast eftir 50 ár eða svo samkvæmt nýjustu tölum) þá skulum við muna það að gáfumennin sem sátu við völd studdu ekki bara þátttöku Íslands í stríði sem kostaði tugþúsundir óbreyttra borgara lífið, heldur töldu kennara eina og sér geta valdið verðbólgu og rýrt kaupmátt fyrir það eitt að krefjast þess að laun þeirra væru leiðrétt eftir hræðilega samninga þar á undan.

Gargandi snillingar.

Glórulaus andúð á morðingjum og lygurum?

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Colin Powel utanríkisráðherra Bandaríkjanna ætla að ræða um í Washington í næstu viku hvernig Íslendingar taki á sig meiri kostnað af rekstri Keflavíkurflugvallar.

Ráðherra flutti ræðu um utanríkismál á Alþingi fyrir hádegi. Hann lýsti áhyggjum af andúð fjölmiðla og stjórnmálamanna á Bandaríkjunum sem hann líkir við glórulausa fordóma og ítrekaði stuðning stjórnvalda við innrásina í Írak. (textavarp.is)

Já. Gott að hann ítrekaði stuðning stjórnvalda, ekki þjóðarinnar. Glórulausir fordómar? Ég hefði nú haldið að allar skýrslurnar sem hafa komið fram varðandi afglöp, yfirhylmingar og vísvitandi lygar stjórnvalda í Bandaríkjunum væri nógur rökstuðningur. Þú Davíð Oddsson, ert blindur maður að kasta grjóti úr eigin glerhöll.

Nokkrir þingmenn hafa lagt fram
Frumvarp til laga um lágmarkslaun
.

Gunnar benti á tvo vefi, þar á meðal Sorry Everybody sem að sannfærði mann um að það eru ekki allir Kanar ofstatrúarmenn. Ein mynd er með íslenskum texta (maður tekur viljann fyrir verkið) og þessi er líka góð.

Að léttari fréttum, Confused sheep wrecks car og NASA to study Rain Man’s mind.

Laun unglækna

Bjarni Þór Eyvindsson, fyrrverandi formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi og fyrrum skólafélagi, er núverandi formaður unglækna. Hann var að barma sér yfir því að fyrsti launatékki unglækna verði lægri en fyrsti launatékki kennara EF kröfur kennara nást fram. Það sem Bjarni Þór minnist hins vegar ekki á er hversu hratt læknirinn hækkar í launum og að kennarar hækka á snigilshraða þannig að eftir ekki mjög marga launatékka er læknirinn kominn með meiri laun og eftir nokkuð fleiri launatékka, rúmlega tvöföld laun kennarans sem útskrifaðist á sama tíma. Enn fremur er augljóst að læknar eru margir að taka á sig yfirvinnu sem kennarar geta ekki þó þeir vildu, þannig er kerfið. Tekjumöguleikar eru því mun betri hjá læknum.

Í mínum huga eru nokkrar stéttir sem eru það nauðsynlegar samfélaginu að þær eiga að vera á topplaunum, þetta er starfsfólk í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Án menntunar, og án heilsu, þá er maður bara hálfur maður og varla það.

Mér fannst þetta frekar ódýrt skot hjá drengnum enda var það gripið af talsmönnum sveitarfélaga sem merki um heimtufrekju kennara. Læknar eiga auðvitað að fá góð laun og málið er, að þeir fá það.

Unglæknar hins vegar fara heldur illa út úr þessu, fyrir utan þennan 205 þúsund kall þá eru þeir á tvö- og stundum þreföldum vöktum. Mér líður ekkert allt of vel að fara á slysadeild og vita það að unglæknirinn sem er að sinna mér er búinn að vera að vinna í 18 tíma og á 6 tíma eftir. Þetta er hvorki hollt fyrir lækninn né sjúklingana. Þetta þarf að laga líka og ég held að þjóðfélagslega sé það mikilvægara mál en fyrsti launaseðillinn (sem mætti vera hærri reyndar).

Bjarni Þór kom sér þarna í mjúkinn hjá mörgum, spennandi að sjá framhaldið eftir þetta ódýra og þrönga útspil. Unglæknar þurfa bara að hafa sama kjark í kjarasamningum og kennarar, en ekki hanga utan á þeim og segja “við viljum meira en þeir”. Kennarar hafa sýnt að þeim er fúlasta alvara, unglæknar þurfa að gera það sama.

Flestir kennarar óska unglæknum vel í þeirra kjarabaráttu.

Sex Change Capital

Var að flakka um Breiðbandið í gær og rakst á stöð sem er nýlega komin inn, Reality TV.

Þar var þátturinn Sex Change Capital sem er smábær í bandaríska Vestrinu þar sem flestar kynskiptaaðgerðir fara fram. Merkilegur þáttur, greinilega umtalsverður fjöldi af fólki sem fer í þessar aðgerðir, fleiri en ég bjóst við.

Uglurnar

Uglurnar unnu loks um helgina eftir slappt gengi. Eru um miðja deild og verða líklega áfram.

Grein í Guardian um erfiða stöðu þeirra. Lazio tapaði í vikunni en Lyon halda haus í Frakklandi.

Kennaraverkfall heldur áfram, voðalega er þessi Birgir Björn falskur gaur, “við erum til í allt en það þarf tvo til” segir hann eftir ótrúlegustu útspil sveitarfélaganna í þessari deilu.

Fékk svo næstum hikstakast í dag þegar Halldór Ásgrímsson sagði að Össur Skarphéðinsson skildi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins. Halldór er nefnilega bæði í framkvæmda- og löggjafarvaldinu og því sjálfur lítt að fara eftir því.