Kennarar steypa okkur í glötun?!

Samkvæmt frumvarpinu skal gerðardómurinn hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deiluaðila að því leyti sem við á. Við ákvarðanir um laun félagsmanna og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.

Hann [Halldór Ásgrímsson] sagði, að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda. Þetta eigi bæði við um stefnuna í peningamálum og fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Í þessu samhengi sé brýnt að launastefna ríkis og sveitarfélaga komi ekki af stað víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefði í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Þessu frumvarpi sé ætlað að stuðla að framgangi þessara markmiða.
(mbl.is)

Já. Laun kennara geta raskað stöðugleika efnahagsmála? Þetta er enn ein snilldarröksemdafærslan frá mönnunum sem eru að sökkva stóru landsvæði í drullupoll sem að auki verður ekki arðbær samkvæmt neinum útreikningum sem hafa verið gerðir og kostar ekki nema gífurlega gommu milljarða króna.

Þegar að við verðum enn að borga upp og þrífa þennan drullupoll (sem stíflast eftir 50 ár eða svo samkvæmt nýjustu tölum) þá skulum við muna það að gáfumennin sem sátu við völd studdu ekki bara þátttöku Íslands í stríði sem kostaði tugþúsundir óbreyttra borgara lífið, heldur töldu kennara eina og sér geta valdið verðbólgu og rýrt kaupmátt fyrir það eitt að krefjast þess að laun þeirra væru leiðrétt eftir hræðilega samninga þar á undan.

Gargandi snillingar.

Comments are closed.