Írak og Sólveig, newspeak og unglingabólur

Jæja veturinn lét sjá sig í dag. Blindbylur eftir hádegi og það tók tæpan klukkutíma að komast úr vinnunni minni, til Sigurrósar og svo heim.

Í Bandaríkjunum fara nú hreinsanir fram, á meðan bíður vísindasamfélagið eftir því að sjá hvort að miðaldastefna Bush-stjórnarinnar gangi lengra í að banna eða skerða vísindalega starfsemi.

Sólveig “Skeljungs-frú” Pétursdóttir skammaði stjórnarandstöðuna fyrir að vilja “ístöðuleysi” í málum Íraks eftir að þeir vildu draga til baka stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar (ekki þjóðarinnar, það er á hreinu að hún er andvíg) við innrásina þar. Uppbyggingarstarf væri hafið og innrásinni lokið, þó svo að reyndar bardagar geisuðu enn.

Hvenær bjó einhver til þann staðal að það að vera þrjóskur og þver gegn öllum staðreyndum væri að vera staðfastur, og að taka mark á þeim gögnum sem liggja fyrir og vilja fara eftir þeim væri ístöðuleysi?

Þetta er svo mikið “newspeak” að það er sárgrætilegt að sjá fjölmiðla apa svona vitleysu eftir. Það er eitt að vera staðfastur og trúa á sitt, en þegar öll rök og reynsla sýna fram á hið gagnstæða, þá er ekki lengur um staðfestu að ræða heldur sjálfsblekkingu eða lygar.

Sólveig veit vonandi annars að ástandið í Írak er nú mun verra fyrir lífsgæði almennra borgara en þegar Saddam var við völd (þó að maður verji þann fant ekki, þá er hann nábróðir Bush hvað fjölda myrtra kemur). Það sem er að gerast í Írak er hrein og bein slátrun en fjölmiðlar þegja þunnu hljóði og segja bara “10 hermenn og 65 andspyrnumenn létust, einhverjir óbreyttir borgarar eru taldir hafa fallið” þegar þessir óbreyttu borgarar eru í hundruða- og þúsunda tali ekki bara drepnir heldur eru eftirlifandi verulega þjáðir, margir örkumla eftir sprengjuregn og fárveikir vegna næringarskorts og sjúkdóma.

Nei, Sólveigu finnst stjórnarandstæðan ætla að gera Írökum grikk með því að Ísland taki til baka stuðning sinn við ólöglegt stríð. Hún stígur ekki meira í vitið þarna en í öðrum málum sem hún hefur vasast í, hennar arfleifð verður ekki meiri en svo en að gullna klósettið hennar verður talinn hápunktur ferils kerfiskerlingar.

Æjá, hún gæti kannski sagt okkur hvernig gengur í Írak? Smá morð og svona, það er nú ekkert milli vina og eins flugvallar er það?

Þá er það tenglasúpa dagsins, fyrsti tengillinn vekur ugg í brjósti margra: Workers told: computers could blind you! Ekki kemur fram hvort CRT (venjulegir) og LCD (flatskjáir) séu jafn varasamir.

Komin er fram kenning um að unglingabólur, sem mörgum finnst óaðlaðandi, séu einmitt til þess gerðar að minnka líkur á kynmökum unglinga! Náttúruleg getnaðarvörn?

Slúttum þessu á Cocaine haul hidden in giant squid og fótboltafléttu með Kína og Hong Kong.

Comments are closed.