Monthly Archives: July 2003

Uncategorized

Brakandi

Þvílík brakandi blíða sem kom í dag. Áður fyrr hefði mörgum fyrirtækjum verið lokað vegna veðurs, það er ekki tíðarandinn núna.

Hjólaði sem endranær úr vinnunni, skemmtilegra nú en oft áður í pollagalla. Þar sem konan mín stakk af úr bænum í dag þá nennti ég ekki að elda fyrir einn (einhleypingar fá mína samúð varðandi eldamennsku fyrir einn) og leit við á Subway. Hjólaði svo aðra leið heim en vanalega svona til að njóta veðursins og heilsa upp á ákveðinn mann.

Naut veðurblíðunnar á leiðinni, hún er svo sjaldan að maður veit aldrei almennilega hvað skal gera af sér.

Einhverjir tóku sig til og bjuggu til andbloggverðlaunin. Betri tíðindi af bloggi eru þau að sjálfboðaliðar hafa bloggað um reynslu sína í Bosníu þar sem þeir gera sitt besta til að aðstoða.

Viðskiptavinir Amazon og margra annara fyrirtækja kannast við það að Indverjar sinni símaþjónustu og margs konar notendaaðstoð, enda ódýrara vinnuafl. Þetta er hins vegar ekki að virka alveg nógu vel hjá greyunum sem vinna á næturvöktum í Indlandi þegar dagur er í Ameríku. Þeir eru víst margir sárlasnir og fárveikir á þessu.

Maður í Ameríkunni er orðinn þreyttur á því að fylgst sé innkaupaferli hans þegar hann notar afsláttarkortið sitt. Hver sem er getur því fengið afsláttarkort frá honum og notað það, allt skráist þetta á hans nafn og því ómögulegt að segja hvað hann eða aðrir keyptu í það sinn.

Úr hinum frábæra heimi vísindanna er svo það að frétta að ýmsir ofurkraftar eru handan við hornið fyrir okkur sem dreymdum um þá.

Svo virðist líka sem að heilinn á manni fái mann til þess að vanmeta eigin mátt… þetta kom í ljós í rannsókn á til dæmis slagsmálum skólabarna sem berja fastar en þau halda.

Að lokum er það svo að frétta að ég er 54% snobbari samkvæmt þessari könnun.

Uncategorized

Flutningar í raunheimum og rafheimum

Í dag er ég búinn að vera að skoða fartölvur fyrir vinnuna. Eftir að mín gaf upp öndina þá var þetta pínulítið freistandi að sjá það sem er í boði en það eru víst nokkrir mánuðir (ár!) þangað til maður hefur efni á nýrri. Tek á morgun ákvörðun um hvaða vél verður fyrir valinu, verður mikið notuð á flakki vélin og því batterílíf og hnjaskþol ofarlega á kröfulista.

Eftir kvöldmat skellti ég mér í 104 hverfið og hjálpaði þar til við að flytja dótið þeirra pabba og Daða sem voru að fá afhenta nýju íbúðina. Mjög skemmtileg íbúð, mikið geymslupláss, fínn bílskur með sérsalerni og stór garður (sem er tvíeggjað sverð þegar kemur að garðslætti).

Hrafnkell leyfði mér að prufa Movable Type kerfið í kvöld. Mjög áhugavert og má kannski slípa til að þörfum notenda.

Talandi um betra.is, þá er ég nú að leita að aðila sem vill leyfa mér að stinga vef/póstþjóninum í netsamband einhver staðar gegn örfáum þúsundköllum á mánuði. Gengur treglega að fá svör frá venjulegum hýsingarfyrirtækjum, ekkert borist enn. Sem stendur er þetta nefnilega í sambandi hjá mínum fyrrverandi vinnuveitanda og óþarfi að níðast mikið lengur á honum.

Pólitískur tengill dagsins: Why the CEO in Chief Needs an Audit

Uncategorized

Tæknimál og kvennamál

Já margt skrítið og sniðugt er að gerast í tæknimálum. Ekki er ýkja langt í það að maður geti orðið ósýnilegur eða svífi um á jónaskýi.

Enn nær okkur í tíma eru hins vegar góðar fréttir fyrir tölvunotendur. Vinnsluminni í tölvur sem gleymir engu þó slökkt sé á henni. Þetta þýðir að áhyggjulaust getur maður slökkt á tölvunni, ekki þarf að bíða eftir “shutting down” og þegar kveikt er á henni er það sekúndubrot sem tekur að kveikja á henni. Gæti sparað rafmagn og bjargað geðheilsu margra.

Í Bandaríkjunum er til fámennur hópur skrifstofumanna sem gerir sitt besta til að lifa James Bond lífi á Austin Powers fjárráðum. Þetta eru menn sem eiga kost á frjálsu hoppfargjaldi með vinnuveitanda sínum og nota það til að eiga stúlku í hverri… flugstöð?

Uncategorized

Bland í poka

Þrífætlingarnir var sjónvarpsefni sem ég sat límdur yfir í barnæsku minni (tengill fenginn frá Stefáni). Ef við bara ættum DVD-spilara í stofunni sem virkar… best að hamra áfram á Samsung.

Góðar líkur eru á því að ég hafi tekið óafvitandi þátt í fjárglæp þegar ég fór í Eiffel-turninn árið 1998. 10 miðasölumenn prentuðu út ólöglega miða og hirtu peningana, talið er að þetta séu rúmar 90 milljónir króna sem þeir hafa viðað að sér svona yfir 10 ár.

Ekki veit ég hvernig endurvinnslumálum farsíma er háttað hér á landi. Í Bandaríkjunum taka fyrirtæki við símunum og selja svo til 3ja heims landa.

Eins og allir vita erum við leikjafólkið alls ekki feimið fólk, það sýna bæði rannsóknir og bækur um það mál.

Sonja bendir á fína grein um stráka, alhæfingar og stimplanir leiða sjaldan til góðs.

Saga Líberíu er ágætis eftiröpun á sögu Bandaríkjanna. Smá yfirferð hérna um það.

Að lokum er þess að geta að svo virðist sem að líkamshreyfingar okkar hafi áhrif á líðan, hvort maður kinkar kolli játandi eða hristir hausinn neitandi hefur meiri áhrif en mann grunar.

Uncategorized

Minning, vondir viðskiptahættir, geðveiki og hamingja

Fórum í dag í minningarathöfn Dússýar. Falleg athöfn, guðleysinginn ég átti reyndar pínu erfitt einstaka sinnum að sitja undir því allra helgasta sem séra Pálmi las upp úr ljósari hluta Biblíunnar (sem væri þá Nýja Testamentið sem er andstæða þess Gamla í boðskap).

Eftir kaffisamsætið héldum við heim og þar gekk Sigurrós í málin, hef ég sagt frá því að mér finnst æðislegt þegar hún er að urra á annað fólk (sumsé ekki mig!) sem á það skilið? Jæja mér finnst það að minnsta kosti.

Að öðrum málum, Joseph Farah er alvarlega siðferðislega þjáður maður. Hann er núna að hefja herferð gegn hæstaréttardómurunum sem sögðu að það væri einkamál tveggja karlmanna ef þeir hefðu mök saman. Þetta gæti nefnilega leitt til hjónabanda samkynhneigðra, ættleiðinga samkynhneigðra, kynlífs með dýrum, hópkynlífs, sifjaspella, fjölvændis og aðstoð við líknardráp. Skelfilegur heimur!

Kanadamenn eru með húmorbeinið á réttum stað og vilja endilega fá smá fjör, innrás Bandaríkjanna er hvort sem er réttlætanleg!

Keypti Soundblaster Live 5.1 (sæmilegt hljóðkort sem kostar 4.900 krónur) í dag og þetta er allt annað líf. Ekki ein einasta endurræsing (hingað til…) og þetta er bara allt annar leikur með svona hljóðkorti.

Uncategorized

Sunnudagsræsingar

Já eitthvað er greyið mitt hann Pele að hvekkja sig á EVE, endurræsti sig þrisvar. Vonast er til þess að nýtt (og ódýrt) hljóðkort leysi þennan vanda á morgun.

Uncategorized

Laugardagstúrinn

Jújú við höfum tekið upp þann sið að fara saman í hjólatúr á laugardögum. Tvær helgar í röð og þetta lofar góðu.

Hreinsaði út eina hillu á bókasafninu og hef því nóg lesefni næsta mánuðinn. Hvenær lestrartími gefst er hins vegar annað mál. Það er nóg að gera í bæði EVE og ýmiss konar öðrum verkefnum.

Uncategorized

Tölvuraunir

Jæja ekki var þetta góður dagur á því sviði í einkalífinu (allt í sómanum í starfinu).

Náði í Maradona (fartalvan) en hann hafði verið í skoðun. Í ljós kom að móðurborðið er að bila illa og skipta þarf um það. Samtals er það 60 þúsund króna pakki. Þar sem hann er ekki lengur aðalvélin mín þá eru litlar líkur á að ég fari í þvílíka fjárfestingu.

Pele (aðalvélin) kom líka úr skoðun, hann hafði verið látin spila tölvuleiki við sjálfa sig og alls konar próf keyrð en aldrei restartaði hann sér eins og hann gerir einstaka sinnum hér heima, mjög hvimleitt að finna ekki ástæðuna, þetta gerist “bara af því bara” stundum. Þegar hann hins vegar fær ekki svona ruglhugmynd þá er hann alveg brilljant.

Diseases which kill millions of poor people every year are ignored by western firms because drugs to combat them make no money, a new research body said yesterday. (src)

Jamm. Fátækir borga ekki peninga fyrir lífsnauðsynleg lyf og að selja þeim lyfin á viðráðanlegu verði eyðileggur alveg fullt af viðskiptafræðilegum hugtökum.

Uncategorized

40 sólarhringar og svo miklu meira

Myndin 40 days and 40 nights varð fyrir valinu í myndbandstækið í kvöld. Fínasta skemmtun.

Talandi um kynhvöt og kynlíf (sem ofangreind mynd er um… eða réttara sagt ofgnótt af því fyrrnefnda og skort á hinu síðarnefnda) þá sá ég í dag niðurstöður rannsóknar sem bar saman kynlífshegðan Frakka og Bandaríkjamanna. Kanarnir eru lauslátari og meira fyrir skyndikynni á meðan að Frakkarnir eru meira fyrir langtímasambönd. Þetta vekur furðu margra Bandaríkjamanna. Konur yfir miðjan aldur lifa líka mun meira kynlífi í Frakklandi en í Bandaríkjunum.

Demókratar hafa nú hafið baráttu um hver hlýtur forsetakjörstilnefningu. Einn maður hefur tekið vefinn og blogg með trompi, réttara sagt starfslið hans.

Margir bíða líka spenntir eftir því hvort að Wesley Clark, fyrrum yfirhershöfðingi NATO, bjóði sig fram en hann þykir fluggáfaður og með viðamikla þekkingu á efnahags-, hernaðar-, mennta- og heilbrigðismálum svo lítið eitt sé nefnt. Vefir eins og þessi hafa verið settir upp þar sem þrýst er á hann að bjóða sig fram. Hann lítur að minnsta kosti mun betur út en litli Stalínistinn hann Bush.

Talandi um ný-alræðisöflin sem eru að rjúka upp vestanhafs og austan sem og hér á landi. Ef menn halda svo að algjörlega blind og hundsholl skrif þeirra Hannesar Hólmsteins og Stefán Einars séu einsdæmi þá verð ég að hryggja þá með því að benda á enn meiri vitleysing fyrir vestan, þar er Ann Coulter að fagna merkustu Bandaríkjamönnum 20. aldarinnar, þeim Joseph McCarthy, J. Edgar Hoover, Richard Nixon, Whittaker Chambers og Ronald Reagan.

Frá mörgu öðru fróðlegu er að segja, best að stytta þetta þó aðeins og benda á að:

Það var og – og er svo.

Uncategorized

Syndir og grjótkast úr glerhúsum

Kvöldið fór í að reyna að bæta fyrir syndir Microsoft-manna. Ekki tókst það og hvorugur aðilinn sem sóttur var heim í kvöld er kominn með allt sitt í lag, þökk sé kenjum Windows og reklum sem því fylgja.

Af Linux er það að segja að gleðilegri tíðindi komu úr þeirri átt.

Er það bara ég eða eru Ítalía og Bandaríkin farin að minna meira en örlítið á Sovétríkin og Austur-Þýskaland hvað varðar spillingu valdhafa, skert frelsi einstaklinga, hótanir í garð annara þjóða, ríkið ofaní hvers manns koppi og svo framvegis svo ekki sé minnst á allt Orwellian newspeak sem þaðan kemur?

Íslendingar eru reyndar að fikra sig í þessa átt eins og aukin harka lögreglunnar gegn þeim sem hafa aðrar hugmyndir en hún og valdhafar. “Stöðugleiki” er svo auðvitað margnotað Orwellian newspeak nema það sé hægt að segja að það sé stöðugleiki að nærri öll fyrirtæki eru að segja fólki upp? Það eru stöðugar uppsagnir og því hlýtur það að vera þessi stöðugleiki sem undarlegir menn hamra á að sé í gangi og ekki megi missa. Þetta væri fyndið ef þetta væri ekki svona sorglegt og satt.

Kláraði í gær að lesa aftur (óvart) Isaac Asimov’s Universe – Volume 1: The Diplomacy Guild. Rámaði í bókina en var ekki viss hvort það væri þessi eða önnur, ákvað að klára hana bara aftur, það var hvort eð er bara síðasta sagan sem ég kunni næstum utanað (þetta er smásagnasafn um heim sem Isaac Asimov skóp fyrir aðra höfunda).