Þvílík brakandi blíða sem kom í dag. Áður fyrr hefði mörgum fyrirtækjum verið lokað vegna veðurs, það er ekki tíðarandinn núna.
Hjólaði sem endranær úr vinnunni, skemmtilegra nú en oft áður í pollagalla. Þar sem konan mín stakk af úr bænum í dag þá nennti ég ekki að elda fyrir einn (einhleypingar fá mína samúð varðandi eldamennsku fyrir einn) og leit við á Subway. Hjólaði svo aðra leið heim en vanalega svona til að njóta veðursins og heilsa upp á ákveðinn mann.
Naut veðurblíðunnar á leiðinni, hún er svo sjaldan að maður veit aldrei almennilega hvað skal gera af sér.
Einhverjir tóku sig til og bjuggu til andbloggverðlaunin. Betri tíðindi af bloggi eru þau að sjálfboðaliðar hafa bloggað um reynslu sína í Bosníu þar sem þeir gera sitt besta til að aðstoða.
Viðskiptavinir Amazon og margra annara fyrirtækja kannast við það að Indverjar sinni símaþjónustu og margs konar notendaaðstoð, enda ódýrara vinnuafl. Þetta er hins vegar ekki að virka alveg nógu vel hjá greyunum sem vinna á næturvöktum í Indlandi þegar dagur er í Ameríku. Þeir eru víst margir sárlasnir og fárveikir á þessu.
Maður í Ameríkunni er orðinn þreyttur á því að fylgst sé innkaupaferli hans þegar hann notar afsláttarkortið sitt. Hver sem er getur því fengið afsláttarkort frá honum og notað það, allt skráist þetta á hans nafn og því ómögulegt að segja hvað hann eða aðrir keyptu í það sinn.
Úr hinum frábæra heimi vísindanna er svo það að frétta að ýmsir ofurkraftar eru handan við hornið fyrir okkur sem dreymdum um þá.
Svo virðist líka sem að heilinn á manni fái mann til þess að vanmeta eigin mátt… þetta kom í ljós í rannsókn á til dæmis slagsmálum skólabarna sem berja fastar en þau halda.
Að lokum er það svo að frétta að ég er 54% snobbari samkvæmt þessari könnun.