Monthly Archives: June 2002

Uncategorized

Örbylgjuloftnetið komið upp

Valur leit við í kvöld og loksins höfðum við allt við hendina sem að þurfti til að setja upp örbylgjuloftnetið. Vinir mínir í Reykjafelli auðvitað liðlegir, það er svona að vera mikils metinn fyrrverandi starfsmaður! Reyndar einhver draugur í sjónvarpinu, get reynt að fínstilla við tækifæri (of seint núna, miðnætti og svo get ég ekki hrópað á sjálfan mig hvort að myndin hafi orðið betri eða verri) en hef þó heyrt að draugagangur sé almennur, varð ekki mikið var við hann á breiðbandinu þó.

Fattaði það í dag að ein af þeim sem bættust við á Nagportal í gær er sumarstarfsmaður hjá okkur (og hefur verið áður). Óskímon nefnist hún þar.

Annars fátt að frétta í dag, vann frameftir til að geta tekið pásu á morgun til að horfa á hádegisleikinn, morgunleikurinn ætti að verða mikil skemmtun, verst að það er of snemmt til að mann langi í popp með. Hitti reyndar Guðm. Stefán í fyrsta sinn í 4 ár líklega, okkur er báðum jafnilla við Blatter að sjálfsögðu, hann er að komast upp með þvílíka glæpi núna.

Uncategorized

Ekkert HM, heldur gervigrasið í Laugardal

Það er alltaf jafn áhugavert að lesa skoðanir fólks, lestur einnar greinar fékk mig til þess að skrifa mína eigin á Huga.

Skaust í Miðhús í kvöld, náði loks að tengja þau aftur við netið, einhver services sem að höfðu rænt hinu og þessu. Greip með mér enn fleiri bækur til að fara með heim. Enn eru eftir kassar í geymslunni sem ekki er auðvelt að komast að.

Fór á leik með mínum gömlu félögum hjá Iceland United, þeir voru að keppa við eitthvað strætólið, Væringjana minnir mig, á gervigrasinu í Laugardal. Sá Örn, Val, Paolo og Rúnar leggja sitt af mörkum í öruggum 7-4 sigri, svo var í Iceland United leikmaður sem að var að bætast við á Nagportal einmitt í dag, skoraði tvö mörk og kallast víst Jommi, var sumsé að komast að því núna eftir þessa heimsókn á Nagportal. Margir nýjir í liðinu, enda gengi þess mun betra en í fyrra. Ætla að kíkja á 1-2 æfingar og sjá hvort að löppinn þolir álagið.

Á laugardaginn á svo Iceland United að keppa við FC Puma í bikarnum. Í FC Puma eru einmitt bræður mömmu, þeir Ívar og Hermann, sem og fyrrum skólafélagar úr vesturbænum (Kópavogi), flestir árinu yngri en ég.

Áhugavert:

 • Húmor frá tjallanum
 • Uncategorized

  HM:D19 – Aftur til vinnu

  Fyrsti dagur í vinnu í dag eftir fótboltaleyfið mitt, kom í ljós að ég hafði klikkað illilega á þessu þar sem að síðustu leikir 16-liða úrslita voru í dag. Ég ætlaði upphaflega að mæta í vinnuna, skjótast svo í burtu og sjá fyrri leikinn endursýndan og þann seinni í beinni og koma svo aftur, en þar sem að ég var dreginn út úr bænum í vinnuerindi varð ekki af því. Eftir vinnu var það svo beint í skólann og þegar ég kom heim voru 25 mínútur búnar af endursýndum leik Suður-Kóreu og Ítalíu.

  Ég vil fá ríkissaksóknara til að rannsaka það hvaða Gestapo hefur dúkkað upp hér á Íslandi. Ómerktir bílar elta mótmælendur, mótmælendur eru handteknir í klárlega ólöglegum aðgerðum lögregluyfirvalda, yfirmenn ljúga blákalt og svo fá menn nafnlausar hótanir sem koma líklega frá aðilum innan löggæslu Íslands (Friðarspillar hf.). Að lögreglan sé orðin einkahersveit Davíðs (sem að útskýrir herbúðalíkinguna hans) er ógnvænleg tilhugsun, ég endurtek fyrri orð um þriðja ríkið, svona byrjaði þetta þar, ef við erum ekki vakandi vöknum við ekki fyrr en við megum ekki anda nema að biðja leyfis svartklæddra manna. Heimurinn er í vondum málum eftir 11. september, og þar vega ofstækismenn með sprengjur mun minna en skrifstofublækur andskotans sem nú teikna upp nýjar miðaldir og ný ríki myrkraveldis bæði hér á landi sem og í hinum vestræna heimi.

  Í skólanum fékk ég að vita að ég hefði verið samkvæmur sjálfum mér í miðannarprófunum, 6.5 í hvoru fyrir sig. Ekki góðar einkunnir en prófin komu mér talsvert á óvart í efnistökum þannig að ég verð að taka því.

  Á meðan ég var í skólanum tók píanóið hennar Sigurrósar sig á loft, híft út um svalirnar á Kambsveginum og svo aftur inn um svalirnar hér í Betrabóli. Sigurrós situr nú við það og mér heyrist hún vera í ágætri þjálfun þrátt fyrir litla iðkun undanfarna mánuði.

  Japan 0-1 Tyrkland
  Missti af leiknum sökum vinnunnar, og gef mér ekki tíma til að sjá endursýninguna núna. Er ánægður með að Tyrkirnir eru komnir áfram, finnst skrítið hvað mörgum er eitthvað illa við þá, þeir voru betra liðið gegn Brasilíu en áttu svo reyndar tvo daufa leiki. Liðið er hins vegar þrusugott og spilar fínan bolta. Einstaka aðrir eru þó sammála mér um Tyrkina (og reyndar Spánverja líka). Fínt skallamark hjá Tyrkjum, heyrði að restin af leiknum hefði verið í daufari kantinum. Japanir virðast hafa haft 6 miðjumenn… kannski of þétt?

  Suður-Kórea 2-1 Ítalía (gullmark)
  Missti af fyrstu 25 mínútunum eins og áður segir, en það sem ég sá af fyrri hálfleik var að Suður-Kórea réði leiknum. Mín ágiskun því sú að Ítalirnir hafi skorað og svo hörfað, sama gamla taktíkin og þeir hafa beitt undanfarna áratugi. Vítið sem Suður-Kórea fékk var rétt, en spyrnan var jafn slök og öll hin vítin sem hafa verið varin hingað til. Hvað er að þessum mönnum, atvinnumönnum í íþróttinni, sem að geta ekki tekið vítaspyrnu skammlaust heldur rúlla boltanum eftir jörðinni að markinu. Það á að taka þetta með nákvæmninni, helst í hliðarnetin og það frekar ofarlega. Skallamarkið hjá Vieri auðvitað flott, maðurinn óstöðvandi í teignum, glæsilegur skalli þó að verið væri að klæða hann úr treyjunni í loftinu. Í lok hálfleiksins fékk Coco slæmt högg og það fossblæddi úr skurðinum við gagnaugað, kom inná nokkuð spaugilegur með grisju um hausinn og leit nú út eins og fótboltastrumpur, hvítur kollur, blár að ofan og í hvítum buxum. Stuðningur áhorfenda alveg magnaður, ef eitthvað meiri en í síðasta leik þeirra. Trappatoni notar sínar skiptingar til að bakka í vörn á meðan að Hiddink skiptir fleiri sóknarmönnum inná. Ítalirnir ætla greinilega að reyna að halda 1-0. Ítalirnir aðeins sprækari í seinni hálfleik en ég sá þá í þeim fyrri, en Suður-Kórea ræður þó ferðinni. Bæði lið með færi, en Suður-Kórea jafnar á 88. mínútu. Vieri svo með dauðafæri en orðinn þreyttur og tekst að klúðra rækilega. Síðustu mínútur leiksins eru nú eins og handboltaleikur, liðin skiptast á sóknum og bæði komast í þvílík dauðafæri. Þá er komið að framlengingu, þar eru Suður-Kóreumenn áfram sterkari. Totti fær sitt annað gula spjald og er rekinn útaf, rangur dómur þar sem að hann lét sig ekki detta (í þetta eina sinn). Sóknir Suður-Kóreu skila þeim að lokum gullmarki, enda hefði mér ekki litist á blikuna fyrir þá í vítakeppni. Fínn sigur hjá góðu liði Suður-Kóreu sem að fæstir virðast reyndar kunna að meta samkvæmt því sem ég heyri? Ítalir úr leik sem mér finnst gott mál enda dauðþreyttur á þessum sið þeirra að skora eitt mark og bakka svo.

  Enn og aftur voru leikirnir leiknir í grenjandi rigningu. Það virðist vera sem svo að allir leikir héðan í frá verði í grenjandi rigningu enda rigningartíminn nú kominn fyrir alvöru. Þessi rigningartími ber einn og sér mikla ábyrgð á því að þetta hefur verið HM óvæntra úrslita, bæði var keppni flýtt vegna hans (sem að leiddi til minni undirbúnings stórveldanna en áður) og bleytan hefur haft sitt að segja í leikjum keppninnar. Það er þó fínt að fá nýtt blóð í knattspyrnuna, og á heimsvísu held ég að þetta HM muni efla hana. Þvílíkur grís hjá rottunni honum Blatter að fá upp í hendurnar HM þar sem að úrslitin fara svona skemmtilega fyrir heimsbyggðina. Ekki hefur hann gert mikið gott sjálfur, hið andstæða raunar.

  Áhugavert:

 • Every dial you take
 • Uncategorized

  HM:D18 – Hvaða þjóðhátíð?

  Elsta knattspyrnulið heims hefur verið sett í umsýslu eða hvað það heitir, síðasta skref fyrir gjaldþrotaskipti. Sagnfræðileg verðmæti sem gætu glatast ef að ekki rætist úr (svona svipað og tjáningarfrelsi Íslendinga?).

  Get ekki sagt að ég hafi haldið upp á þjóðhátíðardaginn í dag, enda fáar ástæður til þess á þessum síðustu og verstu. Notaði daginn í að fikta í tölvunni hans Kára, hún kemur reglulega í skoðun. Fórum svo í mat til Rögnu, en Guðbjörg kom með læri í matinn alla leið frá Selfossi. Horfðum á Survivor, síðasta skiptið sem við gerum það á Kambsveginum, þar sem nú er tæp vika í flutningana.

  Valur leit svo við hérna heima og við fórum að reyna að setja upp örbylgjuloftnetið. Það vantar kall og það vantar kellingu, spýtu og sög, til að þetta fari nú að virka, framhald á morgun.

  Bandaríkin 2-0 Mexíkó
  Mér leist ekkert á þetta fyrir leikinn, mínir menn í Mexíkó hafa farið halloka undanfarið fyrir Könunum sem að hafa eitthvað tak á þeim. Mexíkóar ráða þó leiknum í upphafi en á 8. mínútu fá Bandaríkjamenn sína fyrstu sókn og gerast svo djarfir að skora úr henni, McBride eftir sprett frá Reyna og sendingu frá Wolff. Gamla kempan Luis Hernandez kemur inná á 28. mínútu til að setja meiri brodd í sóknarleikinn og færa Blanco aftar til að skapa færin. Línuvörðurinn drepur nokkrar sóknir Mexíkóa með vitlausum rangstöðudómum. Mexíkóar byrja seinni hálfleik af krafti með miklum sóknum, en Bandaríkjamenn byrja á því að safna gulum spjöldum. Miðjumaðurinn O’Brien slær hornspyrnu Mexíkóa frá marki sínu, þar sem hann var ekki markmaður er nokkuð ljóst að þarna átti að dæma víti en einhver óútskýranleg blinda háði bæði dómara og línuverði þarna, Bandaríkjamenn sleppa með ljótan hrekk. Á 65. mínútu koma Bandaríkjamenn í eina af fáum skyndisóknum og nú skora þeir, ungstirnið Landon Donovan skallar boltann í markið eftir fyrirgjöf Eddie Lewis. Tvö mörk Bandaríkjamanna komið bæði gegn gangi leiksins, Mexíkóarnir verið mun slappari en þeir hafa verið alla þessa keppni, spurning hvort þetta hafi verið sálrænt atriði, að Bandaríkin séu þeirra “Svíagrýla”. Mikil barátta, þéttur varnarpakki, vel kláruð færi og hálfblindir línuverðir skila Bandaríkjunum í 8-liða úrslit.

  Belgía 0-2 Brasilía
  Belgar byrja leikinn vel og ógna marki Brasilíu mun meira. Belgarnir ráða leiknum, Brasilíumenn eru allt í einu orðnir litla liðið sem notar skyndisóknir, taktík sem að reyndar virðist vera að ganga upp í þessum 16-liða úrslitum. Belgar skora fínt mark en dómari með talsverð tengsl við FIFA-mafíuna (mikill vinur Jack Warner forseta CONCACAF, sem er aftur mikill vinur Sepp Blatters, rottu í mannsmynd og forseta FIFA) dæmir markið af sökum engrar sjáanlegrar ástæðu. Belgar halda áfram með pressuna í seinni hálfleik, en á 67. mínútu fær Rivaldo boltann fyrir utan teig Belga, snýr sér laglega við og neglir á markið, boltinn fer af varnarmanni og breytir um stefnu og flýgur því framhjá markmanni Belga og í markið. Óverðskulduð forysta Brasilíu staðreynd. Markið virðist hressa upp á slaka Brasilíumennina, fara að ógna meira og leyfa Belgum ekki að ráða spilinu eins mikið og hingað til. Undir lok leiksins grípa Belgar aftur stjórnina og Brasilíumenn bakka og verjast stórsóknum. Á 87. mínútu ná Brasilíumenn skyndisókn og Ronaldo klárar hana með marki, boltinn í gegnum klofið á markmanni Belga og sigurinn blasir við í stöðunni 2-0. Leiknum lýkur með sigri Brasilíumanna sem vannst á þremur mönnum, markmanninum sem að bjargaði þeim ótal sinnum og markaskorurunum tveimur. Liðið sem tapaði var betra liðið en það var ekki nóg, 16-liða úrslitin virðast einkennast af því að liðið sem að ræður leiknum tapar honum þó vegna góðrar nýtingar varnarliðsins á þeim fáu færum sem það hlýtur.

  Uncategorized

  HM:D17 – Dalli afi

  Davíð og Bush með sömu fasísku tilburðina, sjá þessa frásögn þar sem að nemendum sem voru við útskrift sína var hótað að ef þeir klöppuðu ekki fyrir Bush yrðu þeir handteknir og fengju ekki að útskrifast. Kennari árið 2030: “Mussolini, Hitler, Stalin, Mao, Bush, Oddsson, yeah they were pretty rotten!”. Mér er ekki hlátur í huga, Davíð hefur engan drepið reyndar (svo ég viti) en svona byrja harðstjórnir. Fyrst má maður aðeins tjá sig þegar að það er ekki óþægilegt fyrir stjórnvöld, svo er maður settur í fangelsi ef tjáningin var ekki að skapi stjórnvalda og svo er maður drepinn, þekkt stigmögnun og fyrsta skrefið hefur verið tekið hér á landi, því miður fyrir okkur öll. Lítil þúfa veltir þungu hlassi.

  Jæja, að gleðilegri málum, undanfarnar færslur byrjað á þessum skítamálum því miður en ef að maður er ekki vakandi fyrir þessu þá er maður tekinn aftan frá þegar maður á einskis ills von. Ég ætla ekki einu sinni að minnast á sjálfa Kínverjana, orð þeirra um að stærð landsins þýði að erfiðara sé að tryggja mannréttindi (hvernig væri þá að frelsa Tíbet?) og annað bull sem þaðan kemur.

  Við fórum í matarboð hjá mömmu, amma og afkomendur hennar að hittast til að minna 70 ára afmælis Dalmanns afa sem lést fyrir aldur fram. Fínn grillmatur, pulsur fyrir þá krakka sem vildu, ís í eftirrétt og súkkulaðimolar sem hurfu eins og dögg fyrir sólu.

  Svíþjóð 1-2 Senegal
  Svíarnir byrja mjög fjörlega og á 11. mínútu skorar Henrik Larsson með skalla eftir hornspyrnu, vond varnarvinna hjá Senegal. Svíar bakka aðeins og Senegalir sækja, skora mark en það er dæmt af vegna rangstöðu. Henri Camara skorar j-fnunarmarkið á 37. mínútu með góðu skoti fyrir utan vítateig. Seinni hálfleikur eitthvað daufari, bæði lið fá þó ágætis færi. Nú er því farið í framlengingu, þar sem að gullmarksreglan er enn við lýði. Svíar byrja með miklum látum og eiga góð færi. Á 104. mínútu kemst Henri Camara á sprett og skorar gullmarkið með skoti af svipuðum stað og áður. Sárgrætilegt fyrir gott lið Svía sem að átti meira í framlengingunni en það telur ekki. Skemmtilegt en brothætt lið Senegals er komið áfram.

  Spánn 1-1 Írland (3-2 í vítum)
  Leikurinn byrjar með miklum látum, bæði lið eiga færi og ógna hinu talsvert. Á 8. mínútu nær Morientes góðum skalla og boltinn í netið, Spánn kominn yfir. Írar ná völdum á miðjunni og dæla háum boltum inn á vítateig Spánverja, þar sem smávaxnir írskir sóknarmenn eiga litla möguleika gegn stórum varnarmönnum. Seinni hálfleikur byrjar ekki síður fjörlegar, bæði lið með dauðafæri á upphafsmínútunum. Damien Duff veiðir vítaspyrnu á 62. mínútu en Ian Harte klúðrar henni, lélegt skot hans auðveldlega varið af Iker Casillas. Niall Quinn er skipt inná í stað Gary Kelly, og nú byrja þessar háu sendingar sem Írar dæla inn í vítateiginn að skapa hættu, Quinn er ennþá frábær í sköllunum og matar litlu sóknarmennina á sendingum. Á 89. mínútu reynir Hierro að klæða Quinn úr treyjunni í vítateignum, dómarinn dæmir víti og Robbie Keane skorar örugglega úr spyrnunni á 90. mínútu. Írar ná aftur að jafna í blálok leiksins (og ég missti því af þó nokkrum stigum í draumaleiknum). Framlenging! Spánverjar eru komnir upp að vegg, aðeins einn sóknarmaður inná, og svo missa þeir meiddan miðjumann útaf, búnir með skiptingar þannig að þeir eru aðeins 10 talsins. Írar halda áfram pressunni sem þeir hafa haft nær allan leikinn, en hvorugt liðið nær að skora úr sínum færum. Vítakeppni! Írar klúðra 3 vítaspyrnum, Matt Holland neglir í þverslána, en Connolly og Kilbane skjóta lufsulega beint að Casillas sem þarf lítið að gera til að verja skotin. Juanfran og Valeron skjóta báðir framhjá en Mendieta skorar sigurspyrnuna. Spánn áfram þrátt fyrir erfitt gengi í leiknum.

  Írar misnotuðu 4 víti, 3 þeirra voru arfaslök skot næstum því beint á markmanninn. Ótrúlegt að atvinnumenn geri svona á stórmóti í svona lykilleikjum, eitthvað tæpir á taugum.

  Uncategorized

  HM:D16 – Morðingjar hafa forgang á ljósum

  Hvers vegna er lögreglumönnum beitt til þess að hefta tjáningarfrelsi hér á landi? Hvers vegna er þeim sagt að taka sér stöðu fyrir framan fólk með mótmælaskilti, hvers vegna reyna þeir að standa sem mest fyrir framan mótmælendur með skilti þannig að í þau sjáist ekki? Hvers vegna færa þeir sig nær fólki sem hrópar slagorð? Hvers vegna stendur ríkisstjórn Íslands fyrir því að við megum ekki láta skoðanir okkar í ljós? Hvers vegna er fólki vísað út af hóteli vegna pólitískra skoðana þess? Aldrei aldrei aldrei mun Sjálfstæðisflokkurinn fá mitt atkvæði eftir þetta, hingað til hef ég kosið hann fyrir utan síðustu borgarstjórnarkosningar, en aldrei aftur. Mér líður eins og ég sé sjálfur í Kína, einræðisherrann okkar (eða yfirmarskálkur, fer eftir því hvort hann er í jakkafötum eða einkennisbúningi) segir að mótmælendur megi þakka fyrir að vera ekki hent úr landi með ofbeldi. Davíð í geðrannsókn segi ég, próteinkúrinn sem Davíð hefur verið í er þekktur fyrir skort á ýmsum bætiefnum sem að heilann vantar sárlega, og á hegðun hans og orðfari er augljóst að ekki er allt eins og á að vera í sálartetri hans.

  Eftir að ég ritaði ofangreind orð sat ég svo fastur á ljósum í þó nokkurn tíma á meðan að fjöldamorðingjarnir og mannréttindabrjótarnir óku Miklubrautina, hefði átt að drepa á bílnum og steyta hnefann yfir grindverkið, spurning hversu margar mótorhjólalöggur hefðu komið sér fyrir framan mig til að skyggja á mig, og hversu mörgum skotum hefði verið hleypt á mig, bíll forsetans fór framhjá mér í 2 metra fjarlægð, þvílíkur ógnarfjöldi af bílum sem þetta var. Hélt að þetta yrðu bara 10 bílar, ef ég hefði vitað að 20 í viðbót komu á eftir hefði ég nú steytt hnefann betur.

  Í annað sinn sem að ég er stoppaður á ljósum svo hægt sé að láta kínverskan fjöldamorðingja keyra óáreittan fram hjá pöpulnum, fyrra skiptið var það Li Peng. Af hverju eru mínir skattpeningar að fara í að hafa 10 mótorhjólalöggur til að stoppa mig og mína samborgara og greiða götu morðingja?

  Að gleðilegri og eðlilegri málum, fórum á Miklatún til að sleikja sólina í smá tíma og gleyma heimsku heimsins, ákváðum svo að nýta sólina og borðuðum úti á svölum. Fengum okkur piparsteik og bakaðar kartöflur (ódýrara en pizza) nema hvað að fúllynt ský smellti sér fyrir þannig að eitthvað varð svalara en vonast hafði verið eftir.

  Horfðum á American Pie II á DVD, 6 mínútur þar af atriðum sem ekki voru í bíó. Kosturinn við DVD er óneitanlega aukaefnið, sáum þar nokkur atriði sem voru klippt úr, tvö þeirra reyndar settu í samhengi nokkuð ummæli í myndinni sem að komu undarlega fyrir ein og sér. Ágætasta skemmtun, þó nokkur atriði sem hægt er að hlæja mikið að.

  Þýskaland 1-0 Paragvæ
  Þjóðverjarnir með undirtökin í byrjun, Paragvæ missir sinn þekktasta útileikmann (Chilavert líklega þekktari en hann er í marki) á 29. mínútu, Roque Santa Cruz fer meiddur af velli, Jorge Campos kemur inn í staðinn. Sóknarleikur Paragvæ hressist raunar við þetta, Campos mun sneggri og sprækari en Santa Cruz, Ayala á dauðafæri á 36. mínútu og Campos á frábært skot á 37. mínútu. Þýskaland byrjar seinni hálfleik af miklum krafti, tvö skot á mark á fyrstu tveim mínútunum. Leikurinn jafnast svo og Paragvæ ógna mjög marki Þjóðverja, á 88. mínútu kemur “þýska andartakið”, Neuville skorar eftir sendingu frá Schneider, Þjóðverjar samir við sig og skora á lokamínútunum sigurmarkið. Á 90. mínútu kemur galdramaðurinn Cuevas inn (sem skoraði 2 mörk í síðasta leik en fór útaf meiddur) og gerir sig strax líklegan en tíminn er ekki nógur, Þjóðverjar vinna enn einn sigurinn á seiglunni.

  Danmörk 0-3 England
  Grenjandi rigning, virðist sem að kvöldleikirnir séu nú allir leiknir í suddaveðri. Englendingar hefja leikinn með einum gömlum langbolta, bara svona að prufa. Á 5. mínútu gerir Laursen mistök og skallar afturfyrir, horn fyrir England. Rio Ferdinand skallar boltann að marki en beint í Sørensen sem að klúðrar gjörsamlega hins vegar, reynir að grípa boltann í fangið en missir hann inn í markið, sjálfsmark hjá markverðinum sem hefur verið frábær í undanförnum leikjum. Danir virðast taka þetta mjög inn á sig og gera fátt af viti. Á 22. mínútu skoppar boltinn í vítateig til Owen sem að klárar færið vel og kemur Englandi í 2-0, heppnisstimpill en vel klárað. Danir orðnir pirraðir, Tøfting fær gult spjald fyrir að slá boltann í jörðina, mér finnst þetta alltaf jafn fáránlegt þegar að dæmt er fyrir svona augnabliks svekkelsi, svo sleppa menn með olnbogaskot, peysutog og hrikalegar tæklingar? Á 44. mínútu missa Danir boltann klaufalega í innkast, Englendingar taka það strax, Jensen skallar beint á Beckham sem sendir á Heskey fyrir utan teig og hann neglir á markið, boltinn spýtist á grasinu og undir Sørensen, 3-0 og hálfleikur ekki kominn. Danir eru síst sprækari eftir hlé, andlausir og dofnir og Olsen þjálfari gerir enga breytingu af viti. Englendingar vinna verðskuldaðan sigur á dönsku liði sem að virðist hafa slegið sjálft sig úr leik með taugaóstyrk og klaufaskap.

  Uncategorized

  HM:D15 – Dagur 2 í Camp Ísland

  Mig grunar að Davíð hafi ekki tekið eftir því, að þó að Björn Bjarnason hafi mælt með því að hér yrði stofnaður íslenskur her, þá fór það aldrei í gang. Davíð stendur því fast á því að Ísland sé nú herstöð, og hann sem yfirmarskálkur því alvaldur. Það skýrir auðvitað drottningarviðtölin hans og það hvernig hann gerir lítið úr öllum öðrum en sjálfum sér í samtölum, eini maðurinn sem kemur illa út er auðvitað Davíð marskálkur sjálfur.

  Spurning hvort að Davíð mæti í tindátabúningi á 17. júní? Íbúar Camp Ísland eiga þá væntanlega að hrópa ferfalt húrra fyrir honum.

  Í dag kláraðist riðlakeppnin á HM, á morgun hefjast 16-liða úrslit. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið skemmtilegasta HM í áraraðir. Mörg óvænt úrslit, nærri öll liðin hafa lagt áherslu á sóknarknattspyrnu og mörkin eru að meðaltali 4 í leik eða svo held ég. Knattspyrnuheimurinn er að breikka, sem að má sjá á því að stórveldi eru felld af ríkjum sem að voru lægra skrifuð.

  Belgía 3-2 Rússland
  Fyrir mótið bjóst ég við skemmtilegum tilþrifum frá Belgum. Það hefur látið standa á sér en í þessum leik sýndu þeir loksins það sem að ég beið eftir. Nokkrar breytingar á liðinu frá síðasta leik (enda arfaslakir þar) og þetta byrjar fjörlega. Walem skorar úr aukaspyrnu á 7. mínútu og Belgar sækja stíft á dapra Rússana. Ungstirnið Sychev kemur inn sem varamaður hjá Rússum, honum hefur verið líkt við Michael Owen, ungur, snöggur og flinkur framherji. Hann bjargaði þeim einmitt gegn Túnis, og hér tekur hann strax málin í sínar hendur, á sendingu á Becashtnych sem að jafnar metin á 52. mínútu. Belgar eiga unga sóknarmenn líka, Wesley Sonck er skipt inná og nokkrum sekúndum síðar skorar hann með skalla eftir hornspyrnu, þetta er á 78. mínútu. Marc Wilmots kemur svo Belgum í 3-1 á 82. mínútu með góðu skoti fyrir utan vítateig, og Belgar virðast öruggir í 16-liða úrslit. Sychev er ekki sammála, skorar á 89. mínútu og nú vantar Rússa aðeins eitt mark enn til að komast áfram. Talsverð læti í Rússunum lokamínúturnar en það dugar ekki til, Belgar vinna verðskuldaðan sigur á Rússum og senda þá heim.

  Japan 2-0 Túnis
  Túnis voru þokkalegir á móti Rússum og voru óheppnir að tapa þeim leik en áðurnefndur Sychev kom þar Rússum til bjargar. Fyrri hálfleikur var mikil ládeyða, en Japanir gerðu skiptingar í hálfleik og þær skiluðu sér. Varamaðurinn Moroshima skorar glæsilegt mark á 48. mínútu eftir sendingu frá varamanninum Ichikawa. Á 75. mínútu á svo Ichikawa góða sendingu fyrir markið og þar mætir Hidetoshi Nakata og skallar boltann í markið. Japanir verið sprækari, kannski orðnir þreyttir enda búnir að vera á fullri keyrslu allt mótið.

  Pólland 3-1 Bandaríkin
  Svakalegar upphafsmínútur, Pólland skorar á 3. mínútu, Olidasebe með skot í þverslána og inn. Á 4. mínútu skorar Landon Donovan mark fyrir Bandaríkin en það er dæmt af, hann braut á varnarmanni Pólverja. Á 5. mínútu skora svo Pólverjar aftur, nú Kryzalowisch. Algjör handboltabyrjun, sóknir á báða bóga. Pólverjar bakka svo og Bandaríkjamenn hefja miklar sóknaraðgerðir sem að stranda á hávaxinni og þéttri vörn Pólverja. Pólverjar fá reyndar betri færi, hraðaupphlaup þeirra mjög hættuleg og varnarmönnum Bandaríkjanna reynist erfitt að taka boltann af mönnum á ferð. Bandaríkin gefast upp á að gefa bolta inn í þéttsetinn teiginn og fara að skjóta á markið af mislöngu færi. Á 65. mínútu kemur Zewlakow inná og skorar mínútu síðar, 3-0! Ungstirnið Landon Donovan skorar á 83. mínútu og Bandaríkin fá nokkur færi en tekst ekki að skora. Þurfa nú að treysta á Suður-Kóreu til að komast áfram í 16-liða úrslit.

  Portúgal 0-1 Suður-Kórea
  Portúgalir geta komist áfram ef þeir fá stig og Bandaríkjamenn tapa. Geggjuð læti á vellinum þar sem 65.000 áhorfendur öskra úr sér lungun og raddböndin, ógurlegasti dynur sem ég hef heyrt, og var þó á HM98 þar sem króatísku áhangendurnir voru svakalegir og sungu án hvíldar í 2.5 tíma. Bæði lið láta boltann ganga vel og spila fínan fótbolta, minni hreyfing er á leikmönnum Portúgal en Suður-Kóreu, og því komast Evrópustjörnurnar lítt áleiðis að marki. Luis Figo lætur stela af sér boltanum hægri vinstri og virðist bara ekki vaknaður. Suður-Kóreumenn spila fínan fótbolta, boltinn gengur vel og mikil hreyfing þannig að alltaf er hægt að finna lausan mann, komnir með hollenska stílinn alveg fantaflottann. Ná reyndar ekki að skapa sér marktækifæri enda vörn Portúgala glaðvakandi í þetta sinn. Suður-Kóreumenn fara mjög fast í alla bolta og það pirrar Portúgalina. Joao Pinto tapar boltanum hvað eftir annað og lætur það fara í taugarnar á sér, fer í vafasama tæklingu á 27. mínútu og fær rauða spjaldið fyrir. Strangur dómur en fyllilega samkvæmt bókinni. Portúgalir bakka aftar og markmenn sjá varla boltann í hálfleiknum. Suður-Kórea byrjar seinni hálfleikinn af miklum krafti, Portúgalir halda sig aftarlega og leyfa þeim að koma, gæti reynst hættulegt gegn kvikum og snöggum andstæðingum. Á 65. mínútu fær Beto sitt annað gula spjald fyrir minniháttar brot og nú eru Portúgalir aðeins 9 á vellinum, og þulirnir froðufellandi (enda mikil eftirsjá að þessu frábæra liði). Portúgalir eflast við þetta en Suður-Kóreumenn hægja ferðina, á 70. mínútu fá þeir hornspyrnu og Park Ji Sung tekur vel á móti boltanum og klárar glæsilega, 1-0 og Portúgalir tveimur færri og marki undir og því á heimleið. Nú hefst einhver svakalegasti kafli keppninnar, Portúgalir verða hamrammir og skipta yfir í 3-2-3 leikkerfi, varnartröllið Couto færir sig fram í miðherjann og gerir þar mikinn usla. Allir leikmenn Portúgals berjast eins og ljón og Suður-Kóreumenn bakka gegn svona brjálæðingum. Portúgalir eiga færi eftir færi, og varamaðurinn Nuno Gomes klikkar hrikalega þegar hann kemst einn á móti markmanni en hálfsest á boltann. Sergio Conceiçao á skot í stöngina og boltinn skýst meðfram marklínunni og burt, skömmu seinna á hann glæsispyrnu sem markmaðurinn ver, grey töframaðurinn gráti næst að sjá boltann forðast netið eins og heitan eldinn. Vitor Baia bjargar þrisvar maður á móti manni þegar að portúgalska vörnin er búin að minnka niður í 2 menn. Mikil læti og dramatík síðustu mínúturnar en inn vildi boltinn ekki. Loksins sáum við hvernig Portúgal getur leikið fótbolta, en það kom tveimur og hálfum fótboltaleik of seint. Dómarinn var arfaslakur og ósamkvæmur sjálfum sér, en það eru Bandaríkin sem komast áfram á þessu eina marki Suður-Kóreu. Mikil synd. Nú er bara vonandi að Suður-Kórea slái næstu andstæðinga sína út, Ítali.

  Áhugavert:

 • Ticket policy prompts Hispanic fan to sue U.S. Soccer Federation
 • Uncategorized

  HM:D14 – Davíð tapar sér

  Það held ég að Davíð sé búinn að tapa sér gjörsamlega í einræðistilburðunum, það nýjasta nýtt er að Ísland er orðið að herbúðum! Þar á víst að ríkja agi segir hann, eða orðrétt: “Íslenskur almenningur veit það og skilur þegar hann skoðar málið að það þarf að vera agi í herbúðunum.” (Fréttablaðið, 13. júní 2002). Svo finnst honum voðalega grunsamlegt að þetta fólk nenni að koma hingað til að mótmæla, hvað þá að það hafi efni á því, eða jafnvel borgi farið ekki sjálft! Spurning hvort að Osama er á bakvið þetta… hann er jú fjársterkur.

  Leiðari Morgunblaðsins er að minnsta kosti að bera í bætifláka fyrir Davíð, verst að kallanginn er steinblindur. Ekkert orðið var við almenna óánægju með þessa ákvörðun.

  Bakið á mér alveg að drepa mig í dag, komst ekki fram úr rúmi fyrr en um 11, ég sem hef hingað til farið á fætur klukkan sex til að horfa á leikina. Gerði reyndar heiðarlega tilraun til þess í morgun en náði ekki að lyfta höfði frá kodda sökum bakverkja sem voru suddalegir, missti andann í hvert sinn sem ég hreyfði mig.

  Örn leit við í hádeginu til að horfa á boltann og kom með langloku, ég lagði ekki einu sinni í að fara niður stigann til að opna millihurðina þannig að ég lét taka þar úr lás.

  Pabbi leit svo við með kínverskan mat handa mér, Sigurrós skrapp í vinnuferð á Selfoss.

  Jæja, boltinn. “Spekingarnir” núna að tuða eitthvað með að Tyrkir spili leiðinlegan fótbolta, sáu greinilega ekki leikinn við Brasilíu og finnst lítið til þeirra koma.

  Tyrkland 3-0 Kína
  Lá uppí rúmi sárkvalinn, sá þennan leik því ekki því miður, en mörkin voru sæmileg. Tyrkirnir eiga það fyllilega skilið að komast áfram.

  Kosta Ríka 2-5 Brasilía
  Lá uppí rúmi, sá bara síðustu mínútur leiksins. Kosta Ríka börðust vel en Brasilíumenn voru bara of góðir, þó að hálft byrjunarlið síðustu leikja væri hvílt.

  Mexíkó 1-1 Ítalía
  Leikurinn byrjaði fjörlega, Mexíkóar heldur betri en Ítalir náðu að ógna markinu oftar. Skora á 13. mínútu en markið dæmt af vegna rangstöðu. Á 35. mínútu klára Mexíkóar glæsilega sókn með glæsilegu marki, 20 sendingar fyrir utan vítateig Ítala, fyrirgjöf frá Blanco og Borgetti skallar frábærlega í netið. Mexíkóar réðu leiknum lengst af, Ítalir voru einna helst í skyndisóknum og ógnuðu markinu talsvert. Del Piero er skipt inná og hann nær að jafna á 85. mínútu. Tryggir Ítali áfram í 16-liða úrslit.

  Króatía 0-1 Ekvador
  Andlausir Króatar á móti sprækum Ekvadorum. Ekvador skorar verðskuldað mark en Króatar reyna talsvert á stangir og þverslá þeirra, Ekvadorar bjarga á línu af og til en Króatar virðast samt ekki nógu hungraðir. Detta úr keppni með þessum ósigri, ekki sami krafturinn og var í þeim 1998, þar sem ég sá þá spila 3 leiki í Frakklandi.

  Uncategorized

  HM:D13 – Attack of the clones

  Jesús minn almáttugur. Er reyndar yfirlýstur guðleysingi en þegar grípa verður til stórra upphrópanna þá skilja allir þessa. Við Sigurrós skruppum á Star Wars:Episode 2, langa myndin með B-myndanafninu. Auk þess að hafa þetta B-myndanafn þá eru samtöl og leikur af B-standard, hægri vinstri, besti leikarinn er án efa Yoda, sem að er tölvuteiknaður. Umgjörð myndarinnar er að sjálfsögðu mjög flott, öll grafík er flott, umhverfi, farartæki og fleira, tæknileg útfærsla næstum gallalaus (næstum því…). Yoda að berjast er án efa atriði myndarinnar. Sé horft framhjá öllum bardögunum og eltingarleikjunum hins vegar þá er þetta frekar óburðug mynd með ósannfærandi söguþræði, vondum samtölum og stirðbusalegum leik undir slappri leikstjórn. Ég telst hins vegar til örfárra sem að líta svona á myndina, flestir gleyma sér bara í sprengingunum, rifnum fötum, geislasverðum og Mættinum. Verði þeim að góðu, þetta er að sjálfsögðu upplifun að sjá svona stóra (löng og mikið af brellum) mynd, en hefði hún ekki getað orðið betri ef að alvöru höfundur hefði skrifað samtölin og stoppað í götin í handritinu og alvöru leikstjóri hefði leikstýrt góðum leikurum? Svona er maður nú, krefst alltaf þess besta.

  Við fórum á myndina í Smárabíói, enda bestu salirnir þar. Ekki alveg eins kalt núna og síðast, skondið að vera í stuttermabol í 20°C hita úti, fara svo inn í sal og vera kominn í 12°C, ennþá á stuttermabolnum. Sætin eru hins vegar algjör martröð fyrir þá sem að vilja halda bakinu á sér í lagi. Í hléinu var ég á leiðinni aftur í salinn en fékk þá gífurlegt þursabit, nokkuð sem ég hef ekki fengið mánuðum saman. Seinni hluta myndarinnar horfði ég á í reygðri stellingu til að halda bakinu þokkalegu. Ég ætla nú að benda Smárabíósmönnum á að þessi bök eru stórhættuleg, hef heyrt sjúkraþjálfara segja að þetta séu allra verstu bök sem að baksjúklingar geta fundið á þessu landi.

  Ég býst við því að þeir muni gera eitthvað í þessu, af hverju að eyða milljónum í fín sæti, flotta sali og góða aðstöðu þegar að þeir svo gera alla bakveika sem þangað fara í bíó. Það væri best fyrir þá og viðskiptavini þeirra ef þeir myndu breyta bökunum til hins betra og geta þá auglýst sig sem bakvænt bíó, eða bara ergónómískt (ergónómía er fræðin sem miðar að því að gera aðstöðu manna betri, stólar sem að fara ekki illa með bakið, skæri sem að meiða ekki þá sem þau nota, betri lyklaborð, betri mýs og svo framvegis).

  Þá að boltanum sem er að sjálfsögðu að rúlla af miklum móð.

  Svíþjóð 1-1 Argentína
  Chamot spjaldasafnari, Almeyda og Aimar komnir í byrjunarlið Argentínumanna. Argentínumenn byrja mjög sterkt og eiga leikinn, Svíar verjast hins vegar og gera það vel. Hálfleikur nálgast og Argentínumenn farnir að pirrast á því að geta ekki skorað hjá sterkri vörn og góðum markmanni Svía, gemlingurinn Claudio Caniggia brúkar kjaft á bekknum og er rekinn upp í stúku, ekki glæsilegur sprettur á þessu HM hjá honum. Anders Svensson, sem að hefur nýst manni vel í Championship Manager í gegnum tíðina, skorar úr glæsilegri aukaspyrnu á 59. mínútu og Svíar eru í góðum málum. Argentínumenn sjá nú fram á að vera slegnir út og halda áfram að ógna marki Svía, það er ekki fyrr en á 88. mínútu að þeir skora. Ortega fær víti, tekur það sjálfur en Hedman ver, Crespo nær boltanum og skorar. Við endursýningu kemur í ljós að Crespo er kolrangstæður í raun, var kominn samhliða Ortega þegar að hann tók vítið, markið er því ólöglegt en línuvörðurinn klikkar á að dæma. Svíar eiga svo dauðafæri, en leiknum lýkur með jafntefli. Svíar komnir áfram en stórveldið Argentína fer heim með fyrstu flugvél, þvílíkt áfall fyrir þá sem og keppnina. Bielsa hefði betur tekið Saviola með.

  Nígería 0-0 England
  Fyrir leikinn bjóst ég við Nígeríumönnum mjög grimmum, það væri of mikill skandall ef að þeir fæmu án stiga frá þessu móti. Á þennan leik er hins vegar ekki orðum eyðandi, 3 færi á lið og svo þess á milli gerðu þau sitt besta til að tefja tímann. Vildu greinilega bara sættast á leiðinlegt og ljótt 0-0 jafntefli og það fengu þeir. Leiðinlegasti leikur HM.

  Slóvenía 1-3 Paragvæ
  Paragvæ byrja af krafti, þeir þurfa sigur og ætla sér greinilega að fá hann. Á 20. mínútu fær Paredes sitt annað gula spjald og er réttilega rekinn út af. Paragvæ eru orðnir 10 og þurfa nú virkilega að bretta upp ermarnar. Þeir gera það og setja mikla pressu á Slóvenana. Slóvenar hressast síðustu mínútur hálfleiksins þegar þreytan fer aðeins að segja til sín hjá Paragvæum, og skora í viðbótartíma, boltinn fer klaufalega í gegnum klofið á Chilavert og af fæti hans í markið eftir skot frá endalínu. Slóvenar byrja seinni hálfleik af krafti og fá fjölda færa. Nú er ég eiginlega farinn að afskrifa Paragvæ. Nelson Cuevas er skipt inná í lið Paragvæ og er ekki búinn að vera nema 5 mínútur á vellinum þegar hann skorar jöfnunarmarkið með góðu einstaklingsframtaki á 66. mínútu. Paragvæ eiga von, en þurfa að vinna, helst með tveimur til að vonin rætist. Varamaðurinn Jorge Campos kemur svo Paragvæ yfir á 73. mínútu með góðu langskoti. Cuevas tryggir svo sigurinn með glæsilegum tilþrifum og neglir í þverslá og inn á 84. mínútu. Hann meiðist svo og er tekinn útaf á 90. mínútu. Var inná í tæpan hálftíma og skoraði tvö mörk, ekki slæmt. Frábær barátta í liði Paragvæ, hjálpuðu sjálfum sér til að ná í 16-liða úrslit.

  Spánn 3-2 Suður-Afríka
  Spánverjar gera miklar breytingar, leyfa fleiri leikmönnum að taka þátt, sem ég er bara ánægður með. Á 4. mínútu missir Arendse markvörður SAF boltann frá sér klaufalega og Raúl skorar auðvelt mark. Spánverjar halda áfram að sækja og nýju mennirnir eru sprækir og vilja sanna sig. Suður-Afríkumenn berjast vel og ná að jafna á 31. mínútu, Benni McCarthy klárar loks færi á þessu móti. Mendieta vinnur aukaspyrnu á 45. mínútu og skorar úr henni sjálfur, Arendse illa staðsettur. Lucas Radebe jafnar á 53. mínútu með skalla, Suður-Afríka að spila ágætlega og fjarri því að láta traðka á sér. Á 56. mínútu gefur svo Joaquin glæsilega sendingu inn á teig sem að Raúl skallar í netið. 3-2 fyrir Spán. Suður-Afríkumenn berjast áfram en ná ekki að setja fleiri mörk, þeir detta því úr leik eftir hetjulega frammistöðu.

  Áhugavert:

 • Góð greining á klúðri stórveldanna
 • Uncategorized

  HM:Dagur 12 – Bananalýðveldið hf.

  Fjöldinn allur af fólki er auðvitað hoppandi yfir ótrúlegum fasískum atburðum sem eru hér í gangi. Það sem ég vil fá eru svör frá:

 • Forseta Íslands (hvers vegna bauðstu þessum fjöldamorðingja í heimsókn til Íslands? er það til þess að einhver lakkrísverksmiðja eða annað lítilfjörlegt fyrirtæki fái hagstætt kínverskt lán?)
 • Forsætisráðherra Íslands (hvar er svartstakkurinn þinn?)
 • Fulltrúanum sem var í Kastljósi í gær (af hverju væri það vont mál ef að Jiang Zemin hætti við komuna til Íslands? af hverju er það vont mál að samskipti Íslands og Kína versni?)
 • Dómsmálaráðherra (hvað eru 2 + 2?)
 • Utanríkisráðherra (eru Falun Gong óæðri til að mynda Palestínumönnum fyrst að það má halda þeim?)
 • Ríkislögreglustjóra (muntu fylgja hverri einustu skipun sem að vitfirrtir yfirmenn gefa þér, þar á meðal “skjóttu á mannfjöldann” ?)
  og reyndar fleirum. Svona lagað er ekki boðlegt okkar gildum, samt halda ráðamenn að þeir komist upp með þetta?

  Aftur að skárri hlutum…

  Frakkland 0-2 Danmörk
  Eitthvað er þetta undarlegt, ekkert hljóð heyrist í útsendingunni af Sýn en Stöð 2 og RÚV virka fínt? Jæja.. ég horfi þá á hljóðlausa útsendingu, fínt þar sem að “spekingurinn” Arnar Björnsson er við hljóðnemann núna, myndi samt þiggja að heyra í áhorfendum, dómara og öllu því. Gaman að sjá að Thuram er voða kátur, kominn í stöðuna sem hann vildi vera í, miðvörðinn. Leikurinn byrjar nokkuð rólega, Barthez skutlar sér og virðist togna í þjóhnappi (rasskinn). Nota einhverja risaloftbyssu til að nudda tognaða svæðið. Danir byrja vel, nei sko! Stig Tøfting með fyrirgjöf og Dennis Rommedahl mættur og potar boltanum í markið á 22. mínútu! Danmörk með 1-0 forystu og Frakkar þurfa núna að skora 3 mörk til að komast upp úr riðlinum! Zidane er að leika en er bara hálfur maður, sendingar og leikskilningur í fínu lagi en greyið er vafið um annað lærið og haltrar um. Thuram lentir í ryskingum og er núna í þessari flott rifnu treyju, sýnir þvottabrettið á maganum mjög vel, nokkrar dömur líklega alveg slefandi yfir honum. Jæja.. fékk nýja treyju, dömurnar fengu þann bónus að sjá hann þá beran að ofan, hann er duglegur í ræktinni strákurinn (ætti að taka hann mér til fyrirmyndar). Hálfleikur, Barthez og Zidane enn haltrandi, Frakkar 1-0 undir og þetta lítur ekki voðalega vel út fyrir Heims-, Evrópu- og Álfumeistarana. Jæja.. Lemerre sér að þetta er ekki að ganga hjá honum, Cissé inná í stað Dugarry (sem að gerði akkúrat ekkert… ofmetið vandræðabarn). Nei nei nei! 67. mínúta, staðan er 2-0 fyrir Dani! Tomasson í einvígi við Thuram, hefur betur og potar boltanum í markið! Frakka vantar 4 mörk á næstu 23 mínútum til að vera ekki sendir heim með skömm! Trézeguet neglir boltanum í þverslá, í jörðina og út, heppnin ekki með þeim þetta árið. Leik lokið! Frakkar á heimleið, 3 leikir, 0 mörk skoruð, 3 fengin á sig, 2 töp og 1 jafntefli. Hrikaleg tölfræði og Lemerre verður ekki þjálfari þeirra mikið lengur. Þessir aukaframherjar á köntunum sköpuðu litla hættu, hefði átt að reyna að hafa tvo framherja og þá einum fleiri á miðjunni til að skapa færin.

  Nei sko, fæ ég ekki hljóðið núna þegar að myndir eru sýndar af kátum Dönum og vantrúa Frökkum. Sparaði örugglega helling af ergelsi að heyra ekkert í “spekingnum”.

  Senegal 3-3 Úrúgvæ
  Dómarinn ætlar að vera sýnilegur í leiknum, 2 gul spjöld komin og bara 3 mínútur liðnar. Enn fjölgar spjöldunum og bara kortér liðið af leiknum. 19. mínúta, Montero klikkar illa í vörninni, markmaður reynir að bjarga og víti dæmt! Fadiga skorar örugglega úr vítinu! 1-0. Úrúgvæ reyna að byggja upp pressu en Senegalir ná flottu hraðaupphlaupi, sending inn á miðjuna og þar kemur Bouba Diop og smellir boltanum efst í hægra hornið, 2-0 og 26 mínútur liðnar. Stunga inn fyrir, Bouba Diop! Mark! 3-0 á 38. mínútu. Hálfleikur og Úrúgvæar gera róttækar breytingar, tveir sóknarmenn inná. Annar varamaðurinn skorar eftir 12 sekúndur úr fyrstu sókn hálfleiksins, 3-1. Diego Forlan nær frákasti fyrir utan teig og skorar svipað mark og Úrúgvæar gerðu, smellir boltanum í markið frá jaðri vítateigs, 69 mínútur og staðan 3-2, Úrúgvæar sýna hvað í þeim býr og spila alvöru fótbolta! Víti á 87. mínútu og 12. gula spjaldið gefið, Recoba skorar og jafnar, 3-3! Stórsóknir að báðum mörkum og Morales skallar framhjá marki Senegala á lokamínútunni úr dauðafæri! Dramatískur endir á leiknum, Senegalir rétt sleppa inn í 16-liða úrslit, Úrúgvæar sýndu loksins sinn rétta leik en of seint.

  Jæja, smá hlé milli leikja, skaust í 11-11 og keypti heilsusnakk, hádegismat, brauð og álegg. Smá hjólatúr svona til að vega upp á móti kyrrsetunni.

  Þýskaland 2-0 Kamerún
  Þjóðverjar byrja aðeins betur, en Kamerún ná sér á strik um miðbik hálfleiksins. Rigobert Song hamrar boltann hárfínt framhjá stönginni. Þessi dómari er enn spjaldaglaðari en sá á undan, gulu spjöldin fljúga upp úr vasanum við minnstu snertingu, Carsten Ramelow fær sitt annað gula spjald á 40. mínútu og Þjóðverjar nú orðnir aðeins 10! Hálfleikur og 9 gul spjöld komin. Marco Bode skipt inná í stað Janckers í hálfleik, Klose gerir vel gegn 4 varnarmönnum á 40. mínútu (sem að gera illa.. bakka allir frá manninum) og sendir fína stungusendinga á Bode sem að klára örugglega og einum færri eru Þjóðverjar komnir með 1-0 forystu! Kamerúnar virka eitthvað máttlausir? Klose klárar leikinn á 80. mínútu með enn einu skallamarkinu. Kamerúnar misstu trúna þegar að 10 Þjóðverjar náðu að komast yfir, einhver sálfræðiþröskuldur sem að þeir komust ekki yfir. Þjóðverjar komast áfram á seiglunni sem fyrr.

  Írland 3-0 Sádi-Arabía
  Írar byrja leikinn vel, Robbie Keane klárar fínt færi örugglega á 7. mínútu og Írar komnir með annan fótinn í 16-liða úrslit. Eftir hálftímaleik ná Sádarnir öllum völdum á vellinum og Írarnir pakka í vörn (reyndar vanir því). Sádarnir ná ekki að klára færin fyrir hálfleik. Ian Harte hinn seini er tekinn útaf í hálfleiknum, ekkert vit að hafa svona hæga leikmenn í bakverðinum. Gary Breen skorar eftir fast leikatriði á 62. mínútu, nú eru Írar gulltryggðir í 16-liða úrslit! 2-0. Sádar halda áfram að pressa en skyndisókn Íra á 87. mínútu skilar marki frá Damien Duff, mistök hjá markmanni Sáda, slær boltann lufsulega í netið.

  Las í kvöld “Thief of Time”, enn ein snilldin frá Terry Pratchett. Fékk bókina fyrir viku en ekki gefið mér tíma til að lesa hana fyrr.