HM:D17 – Dalli afi

Davíð og Bush með sömu fasísku tilburðina, sjá þessa frásögn þar sem að nemendum sem voru við útskrift sína var hótað að ef þeir klöppuðu ekki fyrir Bush yrðu þeir handteknir og fengju ekki að útskrifast. Kennari árið 2030: “Mussolini, Hitler, Stalin, Mao, Bush, Oddsson, yeah they were pretty rotten!”. Mér er ekki hlátur í huga, Davíð hefur engan drepið reyndar (svo ég viti) en svona byrja harðstjórnir. Fyrst má maður aðeins tjá sig þegar að það er ekki óþægilegt fyrir stjórnvöld, svo er maður settur í fangelsi ef tjáningin var ekki að skapi stjórnvalda og svo er maður drepinn, þekkt stigmögnun og fyrsta skrefið hefur verið tekið hér á landi, því miður fyrir okkur öll. Lítil þúfa veltir þungu hlassi.

Jæja, að gleðilegri málum, undanfarnar færslur byrjað á þessum skítamálum því miður en ef að maður er ekki vakandi fyrir þessu þá er maður tekinn aftan frá þegar maður á einskis ills von. Ég ætla ekki einu sinni að minnast á sjálfa Kínverjana, orð þeirra um að stærð landsins þýði að erfiðara sé að tryggja mannréttindi (hvernig væri þá að frelsa Tíbet?) og annað bull sem þaðan kemur.

Við fórum í matarboð hjá mömmu, amma og afkomendur hennar að hittast til að minna 70 ára afmælis Dalmanns afa sem lést fyrir aldur fram. Fínn grillmatur, pulsur fyrir þá krakka sem vildu, ís í eftirrétt og súkkulaðimolar sem hurfu eins og dögg fyrir sólu.

Svíþjóð 1-2 Senegal
Svíarnir byrja mjög fjörlega og á 11. mínútu skorar Henrik Larsson með skalla eftir hornspyrnu, vond varnarvinna hjá Senegal. Svíar bakka aðeins og Senegalir sækja, skora mark en það er dæmt af vegna rangstöðu. Henri Camara skorar j-fnunarmarkið á 37. mínútu með góðu skoti fyrir utan vítateig. Seinni hálfleikur eitthvað daufari, bæði lið fá þó ágætis færi. Nú er því farið í framlengingu, þar sem að gullmarksreglan er enn við lýði. Svíar byrja með miklum látum og eiga góð færi. Á 104. mínútu kemst Henri Camara á sprett og skorar gullmarkið með skoti af svipuðum stað og áður. Sárgrætilegt fyrir gott lið Svía sem að átti meira í framlengingunni en það telur ekki. Skemmtilegt en brothætt lið Senegals er komið áfram.

Spánn 1-1 Írland (3-2 í vítum)
Leikurinn byrjar með miklum látum, bæði lið eiga færi og ógna hinu talsvert. Á 8. mínútu nær Morientes góðum skalla og boltinn í netið, Spánn kominn yfir. Írar ná völdum á miðjunni og dæla háum boltum inn á vítateig Spánverja, þar sem smávaxnir írskir sóknarmenn eiga litla möguleika gegn stórum varnarmönnum. Seinni hálfleikur byrjar ekki síður fjörlegar, bæði lið með dauðafæri á upphafsmínútunum. Damien Duff veiðir vítaspyrnu á 62. mínútu en Ian Harte klúðrar henni, lélegt skot hans auðveldlega varið af Iker Casillas. Niall Quinn er skipt inná í stað Gary Kelly, og nú byrja þessar háu sendingar sem Írar dæla inn í vítateiginn að skapa hættu, Quinn er ennþá frábær í sköllunum og matar litlu sóknarmennina á sendingum. Á 89. mínútu reynir Hierro að klæða Quinn úr treyjunni í vítateignum, dómarinn dæmir víti og Robbie Keane skorar örugglega úr spyrnunni á 90. mínútu. Írar ná aftur að jafna í blálok leiksins (og ég missti því af þó nokkrum stigum í draumaleiknum). Framlenging! Spánverjar eru komnir upp að vegg, aðeins einn sóknarmaður inná, og svo missa þeir meiddan miðjumann útaf, búnir með skiptingar þannig að þeir eru aðeins 10 talsins. Írar halda áfram pressunni sem þeir hafa haft nær allan leikinn, en hvorugt liðið nær að skora úr sínum færum. Vítakeppni! Írar klúðra 3 vítaspyrnum, Matt Holland neglir í þverslána, en Connolly og Kilbane skjóta lufsulega beint að Casillas sem þarf lítið að gera til að verja skotin. Juanfran og Valeron skjóta báðir framhjá en Mendieta skorar sigurspyrnuna. Spánn áfram þrátt fyrir erfitt gengi í leiknum.

Írar misnotuðu 4 víti, 3 þeirra voru arfaslök skot næstum því beint á markmanninn. Ótrúlegt að atvinnumenn geri svona á stórmóti í svona lykilleikjum, eitthvað tæpir á taugum.

Comments are closed.