HM:D14 – Davíð tapar sér

Það held ég að Davíð sé búinn að tapa sér gjörsamlega í einræðistilburðunum, það nýjasta nýtt er að Ísland er orðið að herbúðum! Þar á víst að ríkja agi segir hann, eða orðrétt: “Íslenskur almenningur veit það og skilur þegar hann skoðar málið að það þarf að vera agi í herbúðunum.” (Fréttablaðið, 13. júní 2002). Svo finnst honum voðalega grunsamlegt að þetta fólk nenni að koma hingað til að mótmæla, hvað þá að það hafi efni á því, eða jafnvel borgi farið ekki sjálft! Spurning hvort að Osama er á bakvið þetta… hann er jú fjársterkur.

Leiðari Morgunblaðsins er að minnsta kosti að bera í bætifláka fyrir Davíð, verst að kallanginn er steinblindur. Ekkert orðið var við almenna óánægju með þessa ákvörðun.

Bakið á mér alveg að drepa mig í dag, komst ekki fram úr rúmi fyrr en um 11, ég sem hef hingað til farið á fætur klukkan sex til að horfa á leikina. Gerði reyndar heiðarlega tilraun til þess í morgun en náði ekki að lyfta höfði frá kodda sökum bakverkja sem voru suddalegir, missti andann í hvert sinn sem ég hreyfði mig.

Örn leit við í hádeginu til að horfa á boltann og kom með langloku, ég lagði ekki einu sinni í að fara niður stigann til að opna millihurðina þannig að ég lét taka þar úr lás.

Pabbi leit svo við með kínverskan mat handa mér, Sigurrós skrapp í vinnuferð á Selfoss.

Jæja, boltinn. “Spekingarnir” núna að tuða eitthvað með að Tyrkir spili leiðinlegan fótbolta, sáu greinilega ekki leikinn við Brasilíu og finnst lítið til þeirra koma.

Tyrkland 3-0 Kína
Lá uppí rúmi sárkvalinn, sá þennan leik því ekki því miður, en mörkin voru sæmileg. Tyrkirnir eiga það fyllilega skilið að komast áfram.

Kosta Ríka 2-5 Brasilía
Lá uppí rúmi, sá bara síðustu mínútur leiksins. Kosta Ríka börðust vel en Brasilíumenn voru bara of góðir, þó að hálft byrjunarlið síðustu leikja væri hvílt.

Mexíkó 1-1 Ítalía
Leikurinn byrjaði fjörlega, Mexíkóar heldur betri en Ítalir náðu að ógna markinu oftar. Skora á 13. mínútu en markið dæmt af vegna rangstöðu. Á 35. mínútu klára Mexíkóar glæsilega sókn með glæsilegu marki, 20 sendingar fyrir utan vítateig Ítala, fyrirgjöf frá Blanco og Borgetti skallar frábærlega í netið. Mexíkóar réðu leiknum lengst af, Ítalir voru einna helst í skyndisóknum og ógnuðu markinu talsvert. Del Piero er skipt inná og hann nær að jafna á 85. mínútu. Tryggir Ítali áfram í 16-liða úrslit.

Króatía 0-1 Ekvador
Andlausir Króatar á móti sprækum Ekvadorum. Ekvador skorar verðskuldað mark en Króatar reyna talsvert á stangir og þverslá þeirra, Ekvadorar bjarga á línu af og til en Króatar virðast samt ekki nógu hungraðir. Detta úr keppni með þessum ósigri, ekki sami krafturinn og var í þeim 1998, þar sem ég sá þá spila 3 leiki í Frakklandi.

Comments are closed.