HM:D18 – Hvaða þjóðhátíð?

Elsta knattspyrnulið heims hefur verið sett í umsýslu eða hvað það heitir, síðasta skref fyrir gjaldþrotaskipti. Sagnfræðileg verðmæti sem gætu glatast ef að ekki rætist úr (svona svipað og tjáningarfrelsi Íslendinga?).

Get ekki sagt að ég hafi haldið upp á þjóðhátíðardaginn í dag, enda fáar ástæður til þess á þessum síðustu og verstu. Notaði daginn í að fikta í tölvunni hans Kára, hún kemur reglulega í skoðun. Fórum svo í mat til Rögnu, en Guðbjörg kom með læri í matinn alla leið frá Selfossi. Horfðum á Survivor, síðasta skiptið sem við gerum það á Kambsveginum, þar sem nú er tæp vika í flutningana.

Valur leit svo við hérna heima og við fórum að reyna að setja upp örbylgjuloftnetið. Það vantar kall og það vantar kellingu, spýtu og sög, til að þetta fari nú að virka, framhald á morgun.

Bandaríkin 2-0 Mexíkó
Mér leist ekkert á þetta fyrir leikinn, mínir menn í Mexíkó hafa farið halloka undanfarið fyrir Könunum sem að hafa eitthvað tak á þeim. Mexíkóar ráða þó leiknum í upphafi en á 8. mínútu fá Bandaríkjamenn sína fyrstu sókn og gerast svo djarfir að skora úr henni, McBride eftir sprett frá Reyna og sendingu frá Wolff. Gamla kempan Luis Hernandez kemur inná á 28. mínútu til að setja meiri brodd í sóknarleikinn og færa Blanco aftar til að skapa færin. Línuvörðurinn drepur nokkrar sóknir Mexíkóa með vitlausum rangstöðudómum. Mexíkóar byrja seinni hálfleik af krafti með miklum sóknum, en Bandaríkjamenn byrja á því að safna gulum spjöldum. Miðjumaðurinn O’Brien slær hornspyrnu Mexíkóa frá marki sínu, þar sem hann var ekki markmaður er nokkuð ljóst að þarna átti að dæma víti en einhver óútskýranleg blinda háði bæði dómara og línuverði þarna, Bandaríkjamenn sleppa með ljótan hrekk. Á 65. mínútu koma Bandaríkjamenn í eina af fáum skyndisóknum og nú skora þeir, ungstirnið Landon Donovan skallar boltann í markið eftir fyrirgjöf Eddie Lewis. Tvö mörk Bandaríkjamanna komið bæði gegn gangi leiksins, Mexíkóarnir verið mun slappari en þeir hafa verið alla þessa keppni, spurning hvort þetta hafi verið sálrænt atriði, að Bandaríkin séu þeirra “Svíagrýla”. Mikil barátta, þéttur varnarpakki, vel kláruð færi og hálfblindir línuverðir skila Bandaríkjunum í 8-liða úrslit.

Belgía 0-2 Brasilía
Belgar byrja leikinn vel og ógna marki Brasilíu mun meira. Belgarnir ráða leiknum, Brasilíumenn eru allt í einu orðnir litla liðið sem notar skyndisóknir, taktík sem að reyndar virðist vera að ganga upp í þessum 16-liða úrslitum. Belgar skora fínt mark en dómari með talsverð tengsl við FIFA-mafíuna (mikill vinur Jack Warner forseta CONCACAF, sem er aftur mikill vinur Sepp Blatters, rottu í mannsmynd og forseta FIFA) dæmir markið af sökum engrar sjáanlegrar ástæðu. Belgar halda áfram með pressuna í seinni hálfleik, en á 67. mínútu fær Rivaldo boltann fyrir utan teig Belga, snýr sér laglega við og neglir á markið, boltinn fer af varnarmanni og breytir um stefnu og flýgur því framhjá markmanni Belga og í markið. Óverðskulduð forysta Brasilíu staðreynd. Markið virðist hressa upp á slaka Brasilíumennina, fara að ógna meira og leyfa Belgum ekki að ráða spilinu eins mikið og hingað til. Undir lok leiksins grípa Belgar aftur stjórnina og Brasilíumenn bakka og verjast stórsóknum. Á 87. mínútu ná Brasilíumenn skyndisókn og Ronaldo klárar hana með marki, boltinn í gegnum klofið á markmanni Belga og sigurinn blasir við í stöðunni 2-0. Leiknum lýkur með sigri Brasilíumanna sem vannst á þremur mönnum, markmanninum sem að bjargaði þeim ótal sinnum og markaskorurunum tveimur. Liðið sem tapaði var betra liðið en það var ekki nóg, 16-liða úrslitin virðast einkennast af því að liðið sem að ræður leiknum tapar honum þó vegna góðrar nýtingar varnarliðsins á þeim fáu færum sem það hlýtur.

Comments are closed.