Monthly Archives: May 2002

Uncategorized

Hraðinn eykst

Vinna, allt á fullu. Skóli, allt á fullu, bara annar tíminn og strax eftir á hvað dæmin varðar. Er hins vegar að komast inn í þetta, fékk smá flashback frá menntaskólaárunum þegar við fórum í algebruna. Kemst á rétt ról núna þegar að flutningarnir verða yfirstaðnir. Við viljum annars fara að flytja bara sem fyrst! Síminn okkar var tengdur í dag, þá er bara að fara og punga út fyrir ADSL-router.

Við nánari skoðun á vefþjóninum kom í ljós að örgjörvinn er líklegast í fínu lagi, vandamálið var að allir þéttarnir á móðurborðinu voru annaðhvort sprungnir eða hálfsprungnir sökum óhóflegs hita sem að vélin lenti í á tímabili. Skipt verður um móðurborð í fyrramálið ef áætlanir standast.

Áhugavert:

  • All the World Cup news that’s not fit to print
  • Uncategorized

    Fyrstu kassarnir inn

    Í dag voru mamma, pabbi og Ragna að hjálpa okkur, svo kom Haukur hennar Rögnu aðeins. Eldhúsið og gangurinn búin, bara eftir að fara eina umferð á baðherbergið og á eldhússkápana. Sigurrós skrapp svo með fyrstu kassana, þetta er allt að bresta á.

    Rakst á þessa síðu á einhverju flakki í dag. Þetta er alltaf að verða betra og betra, nú geta litlu krakkarnir fengið SMS frá einhverjum stelpum sem eiga víst að vera voða “hot”. Það að SMS-in munu koma frá litlum sætum gagnagrunnum en ekki litlum sætum stelpum er auðvitað sjálfgefið.

    Björn Bjarna kynnir krökkum í framhaldsskólum kosningarnar með því að setja áfengi í matvöruverslunum fram sem aðalmálið (til dæmis á fundi í FÁ). Það að þessir krakkar eru flestir undir lögaldri gerir þetta að mjög siðlausu athæfi, líklega lögbroti, þegar verið er að hvetja til áfengisneyslu ólögráða ungmenna. Það að þau drekka flest örugglega nú þegar skiptir ekki máli, heldur sú hvatning Björns að með því að kjósa hann verði það auðveldara fyrir þau að nálgast löglegt áfengi.

    Ekki kynna menn nýja brettapalla fyrir eldri borgurum, og þeir kynna ekki ný elliheimili fyrir ungu barnafólki. Áróðri framboðanna er beint að markhópum, og yngstu kjósendunum er sýnd þessi mynd af bjór og brjóstum af hálfu D-listans.

    Ef ég var nokkru sinni í vafa með hvern ætti að kjósa, þá eyddi þetta þeim vafa hvað D-listann varðar. Svona suddakosningabáratta þar sem að ungmenni eru plötuð til að krossa við D með því að veifa áfengisflösku og kvenmannsbrjóstum fyrir framan þau er ekki að mínu skapi.

    Þetta er lýðræðið já, en voðalega svipað því sem gerðist í Rómarveldi forðum. Aldrei hef ég heyrt menn mæra það.

    Uncategorized

    Bilaður íbúðareigandi

    Vaknaði hress í morgun en það dugði skammt, tókst einhvern veginn að togna í bakinu þannig að ég er búinn að vera til lítils nýtur í dag, hin hafa bara tekið meiri vinnu á sig. Fengum nýjan ísskáp í innflutningsgjöf frá pabba og Rögnu, pabbi og Sigurrós báru hann upp stigana á meðan að ég auminginn var til lítils gagns. Eldhúsið var málað, og byrjað að kítta baðherbergið. Ég skrúfaði tenglahúsin föst, dútlaði bara í smálegum hlutum hér og þar og var mest bara fyrir í aumingjaskapnum, sem ekki batnaði þegar ég fékk svo í magann.

    Magakveisan skrifast að hluta til á það að ég fékk mér ekki alvöru hádegismat, svo þegar ég var orðinn vankaður af hungri um þrjúleytið fékk ég mér í neyð eitt stykki pulsu með tómat og steiktum. Í fyrsta sinn í líklega tvö ár, og það síðasta sem eftir er ævinnar, magakveisan jókst stórlega og svo vita allir að pulsur eru gerðar úr öllu afgangshráefni sem fellur til við kjötvinnslu. Aldrei aftur pulsu. Aldrei.

    Uncategorized

    Skrapað og málað

    Í dag var fyrsti dagurinn sem að ég sjálfur, prívat og persónulega, tek til hendi í íbúðinni minni. Auk mín voru svo Sigurrós, Guðbjörg systir hennar, Ragna móðir þeirra, Jens faðir minn og Björk móðir mín. Öll nema mamma höfðu tekið til hendi í íbúðinni minni svo um munaði áður. Dagurinn hjá mér og pabba fór í baðherbergið, þar höfðu einhverjir geðveikir einstaklingar málað tvær umferðir af blárri vatnsmálningu yfir mjög fínar brúnar flísar. Við skröpuðum því fram til 3 þegar að við loksins gáfumst upp og slettum málningarleysi á dæmið. Við urðum létt ruglaðir en verkið gekk mun betur. Nú í kvöld höfum við svo verið að skrapa minnstu málningarörður af flísunum, og erum enn ekki búnir. Stúlkurnar máluðu hins vegar öll herbergin, holið og stofuna og byrjuðu á ganginum.

    Uncategorized

    Örgjörvi deyr

    Vefþjónninn hefur eins og áður var sagt, hikstað frá mánudeginum. Eftir vinnu í dag gafst mér loksins smá tími til þess að líta yfir hann. Nú var hann kominn á það stig að hann endurræsti sig í endalausri lykkju.

    Þar sem ég var að velta því fyrir mér hvort að stöðvunin væri í einhverjum af þeim hugbúnaði sem að ætti að fara í gang á þessu stigi, dó skjárinn allt í einu og mjög undarlegt hljóð heyrðist frá vélinni, einna líkast svona leysigeisla hljóði úr sci-fi bíómynd.

    Ekkert meira lífsmark kom frá vélinni og því hafði ég slökkt á henni í lengri tíma. Þegar ég svo ræsti hana aftur kom nú líf á skjáinn, en ekki voru skilaboðin uppbyggileg, “CPU is not installed or has been changed”. Af þessu hefur sú ályktun verið dregin að ég hafi nú eignast grillaðan örgjörva. Ábyrgðin rann út fyrir þrem vikum að auki, spurning um að athuga hvort að seljandinn hafi hjarta í sér til að líta fram hjá því.

    Allir vefirnir voru þó settir aftur í loftið af varaþjóni, hann hafði hins vegar aðeins gögn frá því í febrúar og talsvert vesen að flytja gögnin af vélinni með grillaða örgjörvann þannig að það verður að hafa það. Eitt skref afturábak í tímann í nokkra daga er ekki það alvarlegasta sem getur gerst.

    Uncategorized

    Hiksti frá helvíti

    Þetta skal alltaf gerast! Um leið og ég klára önn í skólanum fer vefþjónninn minn á flipp, núna endurræsir hann sig sjálfkrafa hvað eftir annað. Grunur beinist að bilun í vélbúnaði. Viðgerð mun hefjast á morgun eftir vinnu.

    Áhugavert:

  • Nammigel brýtur öryggi fingrafara
  • Uncategorized

    Ekkert þá þrennt er

    Grey Leverkusen. Þrisvar alveg við það að landa titli síðastliðin mánuð, og þrisvar hafa þeir ekki borið gull úr býtum. Þýska deildin tapaðist á lokasprettinum, úrslitaleikurinn í þýska bikarnum tapaðist og nú töpuðu þeir meistarakeppni Evrópu þó að þeir væru að mestu leyti betra liðið. Tvö andartök þar sem einbeiting brást voru nóg, og ótrúleg markvarsla Casillas síðustu mínúturnar varnaði því að þeir ynnu 4-2, þess í stað var tapið 1-2.

    Horfði á úrslitaleikinn núna hér heima, fékk mér myndlykil hjá Norðurljósum á laugardaginn en ekkert tengt hann fyrr en nú. Ætlunin var að tengja ekkert fyrr en komið væri á Flókagötuna, en ég gerði nú undantekningu fyrst að úrslitaleikurinn var í gangi.

    Bíllinn fór í smá yfirferð í dag, skipt um framrúðu, smurt og skipt um ljós, og að endingu bónaði pabbi bílinn. Ragna og Haukur unnu sem áður í íbúðinni okkar Sigurrósar og ég, ég var bara að vinna mína vinnu!

    Núna er ég að undirbúa mig undir skólann á morgun, en þá hefst sumarönnin hjá mér. Ég kláraði einmitt vorönnina í gær þannig að í dag var eins dags sumarfrí í skólanum. Það er nóg að gera.

    Uncategorized

    Vörn lokið

    Vörðum verkefnið okkar í dag, sýndi prófdómurunum nokkur trikk á vefnum (og undirliggjandi kóða) sem mér heyrðist þeir aldrei hafa séð áður. Bind vonir við að fá eins og 8.

    Eftir þrotlausa baráttu Sigurrósar við 8007000 tókst loksins að fá einhvern til þess að tengja okkur aftur við netið. Algjört svarthol þessi blessaði þjónustusími.

    Uncategorized

    Breiðbandið niðri

    Ef ekki væri fyrir nettenginguna í vinnunni og skólanum þá væri ég nú að rífa hár mitt (alla 15-25 millimetrana af því).

    Breiðbandstengingin heima hefur verið niðri síðan í nótt og fátt af viti komið frá hítinni (8007000).

    Fékk góða þjónustu hjá Elko í dag þegar ég fór þangað með bilaða rakvél, ekki undan neinu þar að kvarta. Í gær var einn sölumaður þar af þremur frekar leiðinlegur við Sigurrós þegar hún fór með vélina, sem betur fer virðast hinir starfsmennirnir átta sig á hlutverki sínu.

    Skaust svo með bílinn á tjónaskoðunarstöð VÍS þar sem að framrúðan var metin en greyið fór að klofna í vetur með frostskemmdum. Sprungan núna komin rúmlega hálfa leið niður að húddi.

    Sem fyrr er ég í skólanum, núna að undirbúa kynninguna á verkefninu sem fer fram á morgun. Betraból verður að bíða enn um sinn, það hefur hins vegar notið mikillar athygli og umhyggju af hálfu Rögnu, Hauks, Sigurrósar og pabba, þannig að það væsir ekki um það.

    Uncategorized

    Tíkin formúla

    Var í skólanum í dag að vinna að kynningunni og sá síðustu 10 sekúndurnar í Formúlunni sem voru nú algjör skandall. 100 metrar í mark og Rubens stígur á bremsurnar og hleypir Michael fram úr sér. Áhorfendur púuðu, Ralf óskaði bróður sínum ekki til hamingju heldur horfði á hann fyrirlitningarsvip og þulirnir áttu ekki orð (sem er yfirleitt af hinu góða).

    Michael ýtti líka Rubens á efsta pallinn og leyfði honum að sitja í miðjunni á blaðamannafundinum, en það bara dugir ekki til. Michael er opinber sigurverari keppninnar, í fyrsta sinn að auki sem hann sigrar á þessari braut, og ekki á beint glæsilegan hátt. Þetta var enn verra en þegar Rubens hleypti Michael fram úr sér síðast. Áhorfið á formúluna hefur farið minnkandi nú í ár vegna ógurlegra yfirburða Ferrari, og ég held að þetta útspil liðsstjóra Ferrari muni kosta formúluna fleiri áhorfendur, sem þýðir minni tekjur sem þýðir enn meiri vandræði fyrir minni liðin. Fólk vill sjá keppnir, ekki pólitík.

    Annars voru margir að vinna í íbúðinni að Flókagötu í dag, nema hvað að ég rétt leit við til að heilsa upp á liðið, of upptekinn við skólastarfið til að láta svo lítið sem að flikka upp á eigin íbúð sjálfur! Ég fer í þetta eftir þriðjudaginn 🙂