Grey Leverkusen. Þrisvar alveg við það að landa titli síðastliðin mánuð, og þrisvar hafa þeir ekki borið gull úr býtum. Þýska deildin tapaðist á lokasprettinum, úrslitaleikurinn í þýska bikarnum tapaðist og nú töpuðu þeir meistarakeppni Evrópu þó að þeir væru að mestu leyti betra liðið. Tvö andartök þar sem einbeiting brást voru nóg, og ótrúleg markvarsla Casillas síðustu mínúturnar varnaði því að þeir ynnu 4-2, þess í stað var tapið 1-2.
Horfði á úrslitaleikinn núna hér heima, fékk mér myndlykil hjá Norðurljósum á laugardaginn en ekkert tengt hann fyrr en nú. Ætlunin var að tengja ekkert fyrr en komið væri á Flókagötuna, en ég gerði nú undantekningu fyrst að úrslitaleikurinn var í gangi.
Bíllinn fór í smá yfirferð í dag, skipt um framrúðu, smurt og skipt um ljós, og að endingu bónaði pabbi bílinn. Ragna og Haukur unnu sem áður í íbúðinni okkar Sigurrósar og ég, ég var bara að vinna mína vinnu!
Núna er ég að undirbúa mig undir skólann á morgun, en þá hefst sumarönnin hjá mér. Ég kláraði einmitt vorönnina í gær þannig að í dag var eins dags sumarfrí í skólanum. Það er nóg að gera.