Bilaður íbúðareigandi

Vaknaði hress í morgun en það dugði skammt, tókst einhvern veginn að togna í bakinu þannig að ég er búinn að vera til lítils nýtur í dag, hin hafa bara tekið meiri vinnu á sig. Fengum nýjan ísskáp í innflutningsgjöf frá pabba og Rögnu, pabbi og Sigurrós báru hann upp stigana á meðan að ég auminginn var til lítils gagns. Eldhúsið var málað, og byrjað að kítta baðherbergið. Ég skrúfaði tenglahúsin föst, dútlaði bara í smálegum hlutum hér og þar og var mest bara fyrir í aumingjaskapnum, sem ekki batnaði þegar ég fékk svo í magann.

Magakveisan skrifast að hluta til á það að ég fékk mér ekki alvöru hádegismat, svo þegar ég var orðinn vankaður af hungri um þrjúleytið fékk ég mér í neyð eitt stykki pulsu með tómat og steiktum. Í fyrsta sinn í líklega tvö ár, og það síðasta sem eftir er ævinnar, magakveisan jókst stórlega og svo vita allir að pulsur eru gerðar úr öllu afgangshráefni sem fellur til við kjötvinnslu. Aldrei aftur pulsu. Aldrei.

Comments are closed.