Örgjörvi deyr

Vefþjónninn hefur eins og áður var sagt, hikstað frá mánudeginum. Eftir vinnu í dag gafst mér loksins smá tími til þess að líta yfir hann. Nú var hann kominn á það stig að hann endurræsti sig í endalausri lykkju.

Þar sem ég var að velta því fyrir mér hvort að stöðvunin væri í einhverjum af þeim hugbúnaði sem að ætti að fara í gang á þessu stigi, dó skjárinn allt í einu og mjög undarlegt hljóð heyrðist frá vélinni, einna líkast svona leysigeisla hljóði úr sci-fi bíómynd.

Ekkert meira lífsmark kom frá vélinni og því hafði ég slökkt á henni í lengri tíma. Þegar ég svo ræsti hana aftur kom nú líf á skjáinn, en ekki voru skilaboðin uppbyggileg, “CPU is not installed or has been changed”. Af þessu hefur sú ályktun verið dregin að ég hafi nú eignast grillaðan örgjörva. Ábyrgðin rann út fyrir þrem vikum að auki, spurning um að athuga hvort að seljandinn hafi hjarta í sér til að líta fram hjá því.

Allir vefirnir voru þó settir aftur í loftið af varaþjóni, hann hafði hins vegar aðeins gögn frá því í febrúar og talsvert vesen að flytja gögnin af vélinni með grillaða örgjörvann þannig að það verður að hafa það. Eitt skref afturábak í tímann í nokkra daga er ekki það alvarlegasta sem getur gerst.

Comments are closed.