Monthly Archives: September 2001

Molasykur Tækni

Matarlistin

Hóf störf við matarlist um leið og ég kom heim, Sigurrós var að prufa nokkurs konar smápizzustjörnubakstur fyrir einn af þeim þremur saumaklúbbum sem hún er í, og því tók ég það að mér að undirbúa kvöldmatinn okkar. Ég viðurkenni að hann var ekki flókinn, en ég er góður í þessu 🙂

Maður tekur einn pizzubotn (reyndar keypt sem Bónus pizza en það er sama sem ekkert álegg), smyr hann duglega með tómatsósu, tekur eitt skinkubréf (í þetta sinn reykt skinka) og dreifir sneiðunum jafnt yfir botninn. Því næst er ananasdós opnuð, safa hellt úr, hringirnir skornir í dósinni (eitt handtak sker í gegnum alla hringina) og bútunum loks raðað á pizzuna. Þá er eftir aðeins eitt hráefni í viðbót, rifnum mozzarella osti er dreift duglega yfir pizzuna, mjög vel gefst að setja extra mikið í miðjuna svo að maður fái þennan pizzuauglýsinga-effekt þegar að pizzusneiðarnar eru skornar og teknar frá. Því næst er þessu stungið inní bakaraofn við á að giska 200°C eða svo, þangað til að osturinn er farinn að gullinbrúnast yst og botninn orðinn svolítið stökkur.

Þar sem okkur finnst báðum skinka og ananas vera besta álegg sem hægt er að fá á pizzu þá var þetta vel heppnað. Einfalt og gott, og mun ódýrara og hollara en margar aðkeyptar pizzur (pönnufitan á Pizza Hut er banvæn).

Orðinn þreyttur á þessum 4000 vírustilkynningum þannig að ég breytti villutilkynningunum, núna fara þær í gagnagrunn í stað þess að fara sem póstur á mig. Svo gref ég bara IP-tölurnar úr grunninum og sendi tilkynningar á rétta aðila.

Í kvöld fór ég svo að spöglera betur í því hvernig ég ætla að hafa vefumsjónarkerfið sem ég ætla að láta þeim sem að fá vefsetur á betra.is í té. Eins og allir vita er verkefni ekki komið almennilega af stað fyrr en það fær eitthvað nafn, mig langaði í eitthvað íslenskt án séríslenskra stafa þó, þannig að ég fór á Orðabók Háskólans, og setti inn orðið “vef” í leitarvél þeirra. Fékk nokkrar niðurstöður, þar á meðal orðið vefarakofi.

Þar sem að þetta umsjónarkerfi á að vera fyrir fólk sem ég þekki vil ég hafa það svolítið heimilislegt, því fannst mér alveg upplagt að fá innblástur frá þessu orði og því varð nafnið Vefkofi. Þetta mun verða heiti þessa blessaða PHP krílis sem ég ætla að koma á laggirnar. Orðið kofi vísar hérna til æskunnar, þegar að maður byggði kofa og lék sér í (pabbi var stórtækur kofasmiður, og við bræðurnir áttum tvo stóra kofa, sá seinni var 2 hæða með bílskúr að auki). Kofar eru því í mínum huga vinalegir staðir, og vonandi verður Vefkofinn minn vinalegur við þá sem munu nota hann.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti Tækni

Þegar þrír er of mikið

Linux-sneiðin mín (partition) kom að góðum notum í dag, þegar að ég prófaði að setja WebSphere upp á *nix stýrikerfi. Uppsetningin gekk glimrandi vel og IBM fær plús í kladdann fyrir það hversu flottur þessi tarbolti þeirra var og vandað uppsetningarforritið.

Áfram hrúgast inn vírusatilkynningar hjá mér, vel yfir 3500 komnar, ég sendi ekki nema á að giska 8 tölvupósta í dag á aðila sem að ættu að geta uppfært vélarnar sem eru að skjóta núna á mig. Raunar voru þessar 8 ábyrgar fyrir eins og 1600 sendingum þannig að þetta er allt að koma. Þetta hefst með þolinmæðinni.

Við skruppum fjögur úr vinnunni á KFC í hádegismat, þar sem að grísabollurnar höfðuðu ekki sterkt til okkar í mötuneytinu. Við pöntuðum okkur öll besta réttinn þeirra, númer 6, sem er BBQ kjúklingaborgari með frönskum og gosi. Fátt sem toppar þetta. Urðum jafn södd og af hamborgurunum sem kostuðu rúmlega tvöfalt meira á Ruby Tuesday síðasta föstudag, en ég hallmæli nú ekki Ruby Tuesday samt, alvöru hamborgarar á góðum stað.

Í kvöld vorum við að keppa einn vináttuleikinn í viðbót. Veðrið var til fyrirmyndar, ekkert rok og rigningarúðinn kom beint niður, okkur til ánægju, svo voru almennileg varamannaskýli við Leiknisvöllinn sem að nýttust vel vegna þessarar útlandarigningar, íslenskt slagviðri hefði bara hnussað og gusað yfir menn sama hvar þeir sátu. Gervigras er líka alltaf best blautt. Fyrri hálfleikur fór 0-0 þar sem að við í vörninni vorum að gera ágætis hluti. Í seinni hálfleik var svo bara kaos með sífelldum innáskiptingum og færslum manna á milli staða. Það voru 3 menn utan vallar sem voru að stjórna þessu og þeir stóðu hlið við hlið og öskruðu hver ofan í annan. Þegar að snöggi kantmaðurinn okkar var allt í einu kominn í miðvörðinn var þetta hætt að vera fyndið. Þessi hringavitleysa þýddi auðvitað öruggt tap, 6-1 var staðan að loknum venjulegum leiktíma en þeir spiluðu víst eitthvað áfram yfir það, ég fór bara heim enda klukkan orðin 23:00. Það sorglega er að við erum með nógu góðan mannskap til þess að gera miklu betur, og hefðum getað rassskellt andstæðingana. En með svona stjórnun þá er bara ein útkoma möguleg.

Áhugavert lesefni:

Tækni

Rauða hættan

Í dag er 18. þessa mánaðar, sem að ég hefði svo sem ekki velt meira fyrir mér nema hvað að það er einmitt 18. hvers mánaðar sem að tölvuveiran Code Red fer á stjá. Ég var alveg búin að steingleyma kauða reyndar. Ég er umsjónarmaður með einum vefþjóni uppí vinnu sem að gegnir mjög sérstöku hlutverki, og ég fæ póst ef að upp kemur villa á honum, þar með talin 404 villa (ef að síða/skrá finnst ekki). Upp úr hádegi byrjaði að streyma inn póstur með villumeldingum, innihald beiðnanna (server request) voru ýmis tilbrigði við villu sem að er vel þekkt í IIS (vefþjónn sem að Microsoft gerir), þó að fyrir löngu sé hægt að fá uppfærslur sem að varna þessu. Við nánari skoðun kom í ljós að þetta er ný veira, sem að heitir á fræðimálinu w32.Nimda.A en almenningur getur kallað einfaldlega Nimda (sjá hvað Bjarni segir um hann), og er víst algjör óþokki sem að fær ýmislegt lánað frá Code Red, SirCam og þeim bræðrum öllum. Málið er bara það að það er gífurlegur fjöldi sem að pælir aldrei í því að uppfæra hugbúnaðinn sem að er notaður. Einkum ættu þeir sem að nota hugbúnað gerðan af Microsoft að vera duglegir að uppfæra hann, þar sem að þetta risafyrirtæki getur ekki gefið út hugbúnað án þess að hann sé með gapandi öryggisvillum (öll forrit innihalda villur, en Microsoft forrit innihalda STÓRAR villur).

Núna telst mér til að yfir 1700 villumeldingar hafi komið, líklega frá þá um það bil 240 vélum sem að eru sýktar. Á morgun sest ég niður, gref upp eigendur netanna sem að vélarnar eru tengdar við og sendi þeim póst, í þeirri von að þeir hafi samband við rétta aðila sem að lagfæra þá vélarnar.

Samkvæmt þessari frétt varð Morgunblaðið fyrir barðinu á tölvuveiru einmitt í dag. Stórar líkur á því að einhvers staðar hafi þeir haft vél án nýjustu uppfærslna keyrandi, og því fór sem fór.

Áhugaverður tengill:

Leikir Tækni

Blogger hvað?

Kvöldið fór í smá CM spilun og smá PHP lagfæringar og viðbætur. Er að smíða smávegis vefleiðarakerfi sem ég ætla að leyfa því fólki sem að fær vefsvæði á betra.is að nýta sér. Ekki séns að ég fari að láta það fólk þjást við að nota eitthvað í líkingu við Blogger, það virðist sífellt vera eitthvað vesen á því, og þegar að maður getur hjálpað til, þá ber manni siðferðisleg skylda til þess.

Ef þú getur hjálpað öðrum, gerðu það.

Samfélagsvirkni

Lítið

Lítið gert í dag, það helsta var að skrifa fyrstu útgáfuna að bréfinu þar sem ég lýsi yfir óánægju minni með þessi blessuðu lög um Ríkisútvarp og njósnastarfsemi RÚV. Kannski það birtist í Mogganum á næstu vikum.

Fjölskyldan

Þingvellir og dýrlingar

Við skötuhjúin fórum í “haustlitaferð” til Þingvalla í dag, og gengum meðal annars Almannagjá. Við vorum íklædd Lowe Alpine bolum og flíspeysum, að auki var gripið til dúnúlpnanna þegar að á staðinn var komið, og húfur og hanskar dregin á viðeigandi staði.

Það var nefnilega skuggalega kalt, hitamælar sögðu 7°C en það var svo hvasst að kuldinn var vel fyrir neðan frostmark. Engu að síður fundum við okkur bekk í laut við Þingvallavatn og skemmtum okkur ágætlega í köldustu lautarferð (picnic) sem við höfum farið í (síðasta lautarferð var í Frakklandi, og þar leituðum við dauðaleit að skugga til að skýla okkur frá sólinni). Íklædd ofantöldu og meiru til átum við okkar tómatbrauð og kryddbrauð frá Jóa Fel og drukkum Oranginu með. Síðan flúðum við inní bíl, lögðum honum á stað með útsýni yfir vatnið og Þingvallabæ og fengum okkur íslenskt snakk og franskt kex. Loks héldum við heim á leið, köld og ánægð eftir hressandi og skemmtilega útivist.

Á heimleiðinni komum við við á Laugarásvídeó, og tókum þar að ráði Gunnars (annars eigenda) myndina Boondock Saints. Myndin var hin besta skemmtun, samlíkingin við Trainspotting og Pulp Fiction var ekki svo galin.

Kvöldmaturinn var kínamatur, ég fékk mér eggjanúðlur með kjúklingi og Sigurrós fékk sér svínakjöt í ostrusósu. Bæði átum við yfir okkur enda einstaklega gott. Ostakaka í eftirrétt á meðan að horft var á myndina og svo kláruðum við snakkið. Skemmtilegur dagur fyrir bragðlaukana.

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Ímyndið ykkur

Taco-sull í matinn í vinnunni í dag (grunur um að kjötið sé í raun sojakjöt og fínmalað að auki) þannig að við fórum 3 saman á Ruby Tuesday. Mikið ofsalega eru þeir með fína hamborgara, þeir líta alveg eins út á disknum hjá manni og þeir líta út á myndunum hjá þeim (ólíkt öðrum stöðum, einkum McDonalds). Var saddur frá hádegi að kvöldmatartíma, nokkuð sem að er mjög óvenjulegt.

Í stað þagnar í morgun kl. 10 þá ákváðu frönsku útvarpsstöðvarnar að spila lag Johns Lennon, Imagine. Það finnst mér reyndar meir við hæfi en bara þögn, ætla að láta textann fylgja með hérna:

Imagine there’s no heaven
It’s easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today…
Imagine there’s no countries
It isn’t hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace…

You may say I’m a dreamer
But I’m not the only one
I hope someday you’ll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world…

You may say I’m a dreamer
But I’m not the only one
I hope someday you’ll join us
And the world will live as one
(John Lennon 1971)

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Vakning?

Á meðan að Bush og fleiri láta sífellt meiri þvælu út úr sér þá er til fólk í Bandaríkjunum með hausinn í lagi sem fattar hvað er í gangi, sjá tenglana hérna að neðan.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti

Aftur í boltanum

Vorum að spila æfingaleik, þolið hjá mér sem var nú ekki upp á marga fiska hefur ekki aukist eftir Frakklandsferðina. Fann fyrir því núna þegar ég spilaði seinni hálfleik í hægri bakverði. Hitti fyrrum vinnufélaga minn sem að var einmitt hægri bakvörður hins liðsins, hann er núna rafvirki í Smáranum, og sagði mér að það yrði líklega að fresta opnuninni sem á að vera 10. október, þar sem að það er enn heilmikið að gera og þó eru 1200 manns þarna að vinna á hverjum degi. Þvílíkt bákn.

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Svakalegt

Aðalmálið í dag er auðvitað hryðjuverkin í Bandaríkjunum, þau mestu í sögunni, og enn er óljóst hversu margir létust en nokkuð víst er að það eru þúsundir. Sjálfum fannst mér eins og þetta væri atriði beint úr Independence Day eða bók eftir Tom Clancy, þetta var svo svakalegt að maður var bara þrumulostinn. Núna verður áhugavert að vita hvort að þessi dagur muni marka þáttaskil í sögunni, eða hvort að hann verið bara svona almennur svartur dagur í sögunni.

Ég hugsa að núna séu yfirmenn NSA, CIA og FBI í yfirheyrslum hjá þeim sem ráða, menn eru væntanlega spenntir að vita hvernig í ósköpunum þetta var hægt þegar að þessar 3 stofnanir nota fleiri fleiri milljarða á hverju ári til þess að njósna um borgarana til að koma í veg fyrir hryðjuverk og fleira. Svo finnst mér leiðinlegt að árásir á Bandaríkin eru túlkaðar sem “attack against freedom” og “attack against our way of life”. Mikið hrikalega er leiðinlegt að hlusta á þá jarma um USA og freedom þegar að málið er að það er fólk sem varð fyrir þessum árásum, ekki þessi hugtök. Ástæðan fyrir óvinsældum Bandaríkjanna er ekki sú að þar ríkir mikið frjálsræði og að þar sé öllum frjálst að lifa í ríkidæmi eða deyja úr fátækt, ástæðan er sú hvernig Bandaríkin haga sér í hinum stóra heimi, eins og stærsta hrekkjusvínið í skólanum.

Það sem margir eru hræddir við núna eru viðbrögð Bandaríkjamanna, og samkvæmt fyrstu yfirlýsingum Bush og félaga hans verða þau eins og flestir óttast, gífurlega hörð. Það er gífurleg hætta á því að Bandaríkin muni reiða hátt til höggs til þess að sýna fram á einhver viðbrögð, og líkur eru á því að þá verði margir saklausir fyrir því höggi, jafnvel fleiri en látist hafa í dag. Ég er viss um að ég er ekki einn um það að telja að heimurinn væri aðeins rólegri ef að Clinton væri við völd, en ekki blóðþyrsti Bush.

Fyrir okkur tæknifólkið þá var auðvitað áhyggjuefni að sjá hversu hægt netið varð sem og stærstu fjölmiðlarnir á því, þegar að allir voru að reyna að lesa fréttirnar. Bandvíddin er enn langt á eftir þörfunum, einkum þegar að streymandi hljóð og mynd er sótt.

Áhugavert lesefni:

Svo fékk ég bréf frá RÚV í 3ja skiptið, þar sem lýst var yfir áhyggjum af því að ég er ekki á meðal greiðenda afnotagjalda. Fyrsta bréfið hunsaði ég, öðru bréfinu svaraði ég harðlega og núna ætla ég að svara af fullum krafti, ætla kannski að pota svari mínu í Morgunblaðið.