Aðalmálið í dag er auðvitað hryðjuverkin í Bandaríkjunum, þau mestu í sögunni, og enn er óljóst hversu margir létust en nokkuð víst er að það eru þúsundir. Sjálfum fannst mér eins og þetta væri atriði beint úr Independence Day eða bók eftir Tom Clancy, þetta var svo svakalegt að maður var bara þrumulostinn. Núna verður áhugavert að vita hvort að þessi dagur muni marka þáttaskil í sögunni, eða hvort að hann verið bara svona almennur svartur dagur í sögunni.
Ég hugsa að núna séu yfirmenn NSA, CIA og FBI í yfirheyrslum hjá þeim sem ráða, menn eru væntanlega spenntir að vita hvernig í ósköpunum þetta var hægt þegar að þessar 3 stofnanir nota fleiri fleiri milljarða á hverju ári til þess að njósna um borgarana til að koma í veg fyrir hryðjuverk og fleira. Svo finnst mér leiðinlegt að árásir á Bandaríkin eru túlkaðar sem “attack against freedom” og “attack against our way of life”. Mikið hrikalega er leiðinlegt að hlusta á þá jarma um USA og freedom þegar að málið er að það er fólk sem varð fyrir þessum árásum, ekki þessi hugtök. Ástæðan fyrir óvinsældum Bandaríkjanna er ekki sú að þar ríkir mikið frjálsræði og að þar sé öllum frjálst að lifa í ríkidæmi eða deyja úr fátækt, ástæðan er sú hvernig Bandaríkin haga sér í hinum stóra heimi, eins og stærsta hrekkjusvínið í skólanum.
Það sem margir eru hræddir við núna eru viðbrögð Bandaríkjamanna, og samkvæmt fyrstu yfirlýsingum Bush og félaga hans verða þau eins og flestir óttast, gífurlega hörð. Það er gífurleg hætta á því að Bandaríkin muni reiða hátt til höggs til þess að sýna fram á einhver viðbrögð, og líkur eru á því að þá verði margir saklausir fyrir því höggi, jafnvel fleiri en látist hafa í dag. Ég er viss um að ég er ekki einn um það að telja að heimurinn væri aðeins rólegri ef að Clinton væri við völd, en ekki blóðþyrsti Bush.
Fyrir okkur tæknifólkið þá var auðvitað áhyggjuefni að sjá hversu hægt netið varð sem og stærstu fjölmiðlarnir á því, þegar að allir voru að reyna að lesa fréttirnar. Bandvíddin er enn langt á eftir þörfunum, einkum þegar að streymandi hljóð og mynd er sótt.
Áhugavert lesefni:
Svo fékk ég bréf frá RÚV í 3ja skiptið, þar sem lýst var yfir áhyggjum af því að ég er ekki á meðal greiðenda afnotagjalda. Fyrsta bréfið hunsaði ég, öðru bréfinu svaraði ég harðlega og núna ætla ég að svara af fullum krafti, ætla kannski að pota svari mínu í Morgunblaðið.