Monthly Archives: August 2001

Fótbolti Tækni

4. dagur sambandsleysis

Gaf enn og aftur upp nauðsynlegustu upplýsingar þegar ég hringdi í hítina sem að er 800 7000. Hef það alltaf á tilfinningunni að hvað sem að ég segi þar, þá hverfi það ofaní svarta hít og finnist aldrei aftur. Að minnsta kosti kannast enginn við neitt þarna. Spurning hvort að þetta verði komið áður en ég fer út um næstu helgi…

Í kvöld sá ég hins vegar loksins almennilegt efni á Eurosport (reyndar var HM í Edmonton nokkuð skemmtilegt), Brescia 1-1 Paris SG í InterToto Final, og seinni hálfleikur í leik Barcelona og Wisla Krakow sem fór 1-0, í undankeppni meistaradeildarinnar.

Tækni

3. dagur sambandsleysis

Þá er þriðji dagur sambandsleysis við internetið hér heima vel á veg kominn. Ég er búinn að gefa upp ýmsustu upplýsingar til þeirra sem svara í 800 7000 aftur og aftur, skrítið að þurfa alltaf að endurtaka sig, ég hélt endilega að þeir hefðu keypt svona Call Center hugbúnað, þar sem öll samskipti eiga að geymast miðlægt með sögu þeirra.

Fjölskyldan Tækni

Rólegheit á sunnudegi

Gærkvöldið var aldeilis vel heppnað og var til fyrirmyndar í alla staði. Raunar var eitt atriði sem að ergði okkur, en það var að tappinn í rauðvínsflöskunni (sem er vikugömul úr Ríkinu) var orðinn svo þurr að miðjan kom upp með tappatogaranum okkar. Eftir talsvert langa rimmu við að reyna að pota restinni upp úr flöskunni ákvað ég að massa þetta bara og ýtti tappanum bara ofan í flöskuna. Rauðvíninu var hellt í gegnum sigt í karöflu, svona til þess að leyfa víninu að anda loksins og að fjarlægja þá korkbita sem flutu um.

Piparsteikin var sérdeilis ljúffeng sem og kartöflurnar, rauðvínið var jafngott og alltaf og ostakakan var prýðileg, þó hún hafi nú ekkert jafnast á við ostakökurnar hjá mömmu, ömmu eða tengdó.

Við horfðum á “My Fellow Americans (1996)”, mynd sem var sýnd á RÚV. Bara bærilegasta skemmtun í anda Odd Couple. Svo verður maður nú að horfa á þetta RÚV af og til fyrst að það kostar heimilið einhvern 3500 kall eða svo á mánuði. Að henni lokinni skelltum við “Me, myself and Irene” svo í vídjóið, hún var ekki síðri skemmtun, svona myndir á bara að horfa á og hlæja.

Ég er annars mest lítið að gera, einkum sökum þess að sem ég skrifa þetta hefur heimili mitt verið sambandslaust við netið síðan um 16:00 í gær, þegar að breiðbandið hikstaði og módemið nær ekki að tengjast. Þeir hjá Símanum segjast vera að reyna að ná í þá sem að eiga að sjá um þetta, vonandi að það takist á morgun þá, tveim sólarhringum eftir að bilunin varð.

Fjölskyldan

Partý partý

Föstudagskvöldið var notað í að samfagna frænku Sigurrósar, sem varð 39b ára, og hélt upp á það með fjölda fólks á heimili sínu. Fékk mér 3 rauðvínsglös, svona aðeins til að hita upp fyrir kvöldið í kvöld, en þá ætlum við Sigurrós að fagna eins árs trúlofunarafmæli okkar (sem er raunar á morgun en hún er að vinna þá).

Matseðillinn samanstendur af piparsteik með bökuðum kartöflum í aðalrétt, og enska ostaköku í eftirrétt. Að sjálfsögðu verður rauðvín haft um hönd, það er ekki svo oft sem að maður gerir sér svona glaðan dag.

Molasykur Samfélagsvirkni

Kvenfólk og stríð

Vefgáttin mín er alveg yndisleg, rakst í dag inná þessa frétt sem segir frá því hvernig ísraelskur hermaður af fegurra kyninu beitti alkunnri taktík kvenna og strippaði til að rugla andstæðinga sína. Getur ekki klikkað (nema andstæðingarnir séu Talebanar). Ef þetta er rétt og satt (sem vafi leikur á) þá er þetta auðvitað málið, endum styrjaldir og strippum!

Í framhaldi af þessum tengli sá ég auglýsingu sem að mér fannst ekki síður merkileg, svo virðist sem að Ísraelsstjórn sé kannski ekki nógu góð við greyið hermennina sína, heldur er sérstakur sjóður rekinn með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra á meðan að á herdvöl stendur.

Stórmerkilegt, annars bíð ég spenntur eftir því að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael. Mér telst svo til að það séu aðallega appelsínur sem að við flytjum inn þaðan, og man ekki eftir neinu sem við flytjum þangað. Þetta hefði því ekki nein stórvægileg áhrif á hvorugan aðila, en táknræn merking ætti að skila sér betur. Fyrst að við vorum fyrstir til að viðurkenna Eystrasaltsríkin, af hverju ættum við ekki að vera fyrstir vestrænna þjóða til að sýna Sharon að við tökum þessa helför hans gegn Palestínumönnum alvarlega.

Molasykur

Rush Hour 2 & Viva France

Í gær kíktum við á Rush Hour 2 í Laugarásbíói, þar sem aðkoman er ennþá frekar ljót vegna byggingaframkvæmda. Hljóðkerfið held ég að hafi verið stillt í botn, ég var svona á báðum áttum með hvort að ég ætti að vaða fram og biðja þá um að lækka þetta aðeins, það er ekkert gífurlega gaman í bíó þegar að maður er farinn að einbeita sér að því að heilinn skoppi ekki til og frá vegna hljóðhögga.

Myndin var frekar slöpp fyrir hlé, Chris Tucker sem var stórfínn í fyrri myndinni var með kjaftinn í overdrive, og bilaðan að auki. Ekki helmingurinn af því sem hann ældi út úr sér var skondinn (nema hvað að 9 ára krökkunum fyrir aftan mig fannst það allt fyndið). Eftir hlé var hins vegar meira um action og minna um blaður, Tucker sýndi nokkra takta sem að hann hefur greinilega lært af Chan. Eftir hlé var myndin því bara ágætis skemmtun.

Sæmilegasta afþreying, maður verður að fara að taka eitthvað af þessum Jackie Chan myndum, hann er alltaf brilljant drengurinn.

Þá erum við búin að fá loksins staðfestingu á því að við förum til Frakklands núna í lok ágúst í langþráð 10 daga sumarfrí.

Og svona í lokin, þá rakst á skemmtilegan tengil í dag, þetta “myndband” er snilld.

Tækni

Ég elska RSS

Og RSS elskar mig. RSS er annars XML staðall fyrir skrár sem að fjölmiðlar nota til að birta yfirlit frétta hjá sér. Ég er búinn að vera að gæla við það í einhvern tíma að skoða það nákvæmlega og búa til mína eigin vefgátt, þar sem ég raða saman því sem ég vil hafa. Um helgina gerði ég Íslenska Sheff Wed vefinn færan um að skila RSS frá sér, og það virkaði fínt. Í gær smíðaði ég svo fyrstu útgáfu vefgáttarinnar minnar, og hún er að virka fínt. Bjarni fær prik í flotta pípuhattinn fyrir RSS þjónustu sína.

Hverju ert þú að bíða eftir? Smíðaðu þér þína eigin vefgátt! Kóðanum geturðu stolið frá minni og breytt eftir hentugleika.

Fjölskyldan

Aldrei of seint að byrja

Eftir að hafa verið netverji fyrir alvöru síðan 1995, og fyrir þann tíma áhugamaður um netið, þá er það fyrst núna að ég fylgi straumnum og kem mér upp svona dagbók eins og hefur víst riðið hér öllum húsum um allan heim undanfarið ár eða eitthvað svoleiðis.

En í dag er sumsé 26. afmælisdagurinn minn, og ég ætla nú að byrja að punkta niður eitthvað úr mínu lífi, aðallega til þess að geta flett því upp seinna, þá get ég bent konunni á færsluna mína og sagt “sko! ég sagði þér að við hefðum gert þetta á laugardeginum”. Hérna ætla ég líka að punkta niður eitthvað af þeim aurum sem maður setur í bíó og aðrar ónauðsynjar, of latur til að halda alvöru bókhald.

Kvöldið fer annars í fámennt afmæliskaffi þar sem nánustu fjölskyldu eingöngu er boðið (svo maður fái nú meira af kökunum hennar tengdó).