Monthly Archives: September 2005

Uncategorized

Watley og Sudoku

Watley Review (sem Baggalútur virðist hafa notað sem fyrirmynd) eiga verulega góða spretti í dag:

Fyrir þá sem hafa ekki áttað sig á því, þá eru Watley Review og Baggalútur nokkurs konar ekkifréttastofur. Birta ýmist sína eigin útgáfu af fréttum núlíðandi stundar, eða bara eitthvað algjörlega uppspunnið.

Við hjónin höfum verið að prufa leik sem að fór, og fer kannski enn, sigurför um heiminn og nefnist Sudoku. Áhugavert, en gæti reynst of mikill tímaþjófur.

Uncategorized

Hver myndi ráða seðlabankastjórana?

27% launahækkun seðlabankastjóra nú um daginn var varin með þeim rökum að þær væru nauðsynlegar til að halda hæfu starfsfólki.

Vissulega eru störf hjá ríkinu oft skammarlega illa borguð og þarf að klína ógreiddri yfirvinnu á þau til þess að eiga minnstu von á að hafa menntað fólk í vinnu.

Hins vegar eru þessir bankastjórar með rúmlega milljón á mánuði og að auki yfirleitt aflóga stjórnmálamenn!

Hvaða einkabanki er það sem sækir svona fast að því að ráða Davíð Oddsson eða aðra (fyrrverandi/núverandi/tilvonandi) seðlabankastjóra? Er þetta ekki rakalaus afsökun fyrir því að moka meira af skattpeningum okkar í vasa þeirra sem að eru líklega einu menn Seðlabankans sem hafa yfirdrifið nógan tíma til að naga blýanta!

Ég held að þessum milljónum sem þarna er kastað í pólitíska gæðinga væri betur varið í neðri þrepum launastiga ríkisins, og reynt að halda hæfu fólki í störfum þar sem þeirra er þörf.

Uncategorized

Mjallhvít (1852)

Annað verkefnið sem ég sendi inn til prófarkalesturs er nú komið á Distributed Proofreaders í Evrópu.

Þetta er íslensk þýðing á Mjallhvíti, myndskreytt og gefin út 1852. Aðeins 31 síða og mjög læsilegar myndir, tilvalið fyrir þá sem vilja prufa að prófarkalesa, eða þá sem vilja fá útrás fyrir sinn innri prófarkalesara.

Held þessari síðu uppfærðri með upplýsingum um þau verkefni sem við sendum inn. Þarna má finna tengil á Mjallhvíti.

Uncategorized

Of há laun?

Samkvæmt Samtökum atvinnulífsins þá er það greinilegt merki um of há laun landsmanna hversu mikill viðskiptahallinn er. Einhvern veginn rámar mig í að ríkið eigi stærstu sökina vegna óarðbærustu og skammlífustu virkjunar sögunar sem nú er í smíðum! En það er okkur launþegunum að kenna.

Við… ekki ég reyndar en sum okkar… kusum vitleysingana yfir okkur!

ATH! Arkitektar takið eftir, sem og stjórnendur… Architects of their own downfall in the office. Góð vinnuaðstaða er gulli betri.

Uncategorized

Google myndbönd

Google Video er enn eitt fyrirbærið sem kemur frá þeirri risasamsteypu. Þarna geyma þeir myndbönd frá notendum, til þess að horfa á þau þarf að ná í viðbót fyrir vafrann frá Google.

Nokkur skemmtileg myndbönd sem ég sá:

Uncategorized

Skýrslan

Á sunnudaginn fór vefþjónninn að láta frekar illa, það má rekja til þess að annar diskanna sagði krzzzz krzzzzz krzzzzz.

Stýrikerfisdiskurinn er sumsé orðinn nær ónýtur. Á miðvikudaginn fóru vefirnir aftur í loftið eftir að nýjir harðir diskar voru keyptir og stýrikerfi og forrit sett aftur upp. Jafnframt voru myndaalbúm allra uppfærð. Fleiri uppfærslna verður að vænta í vetur.

Áður en við fórum til Hollands, í brúðkaup Jolöndu og Jeroens, kom ég við í bókasöfnum Kópavogs og Reykjavíkur og tók óvart tvisvar sinnum fleiri bækur en ég ætlaði mér. Kláraði að lesa þær núna í vikunni, og að auki las ég nokkrar P.G. Wodehouse bækur á rafrænu formi með honum Bosman sem og bók eftir Tom Holt sem ég virðist hafa hætt að lesa fyrir langa löngu, þá rétt nýbyrjaður á henni.

Listinn er sem svo síðastliðinn mánuð, í réttri lestrarröð:

Ringworld’s Children eftir Larry Niven.
Fjórða bókin í seríunni um Ringworld. Kannski bara fínt að stoppa hérna í seríunni, bókin er vel leshæf en þó örlítið síðri en fyrri verk.

Limits eftir Larry Niven.
Smásagnasafn, fantasíur og vísindaskáldsögur.

The sun, he dies eftir Jamake Highwater.
Jamake þessi er af bandarískum indjánaættum. Í þessari bók segir hann frá falli Aztekana frá sjónarhóli talsmanns Montezuma. Bókin byggir á sögulegum heimildum og maður undrast enn og aftur hvernig nokkur hundruð Spánverjar náðu að knésetja stórveldi, ef ekki hefði verið fyrir spádóm um loðna menn úr austri þá hefði þeim líklega verið slátrað rétt eftir að þeir námu land.

The Butterfly Tattoo eftir Philip Pullman.
Ungur og ólífsreyndur drengur með maníu, hittir stelpu, lærir að trúa öllu sem aðrir segja er ekki félegt til langframa.

A gift from Earth eftir Larry Niven.
Nýlenda langt frá jörðu hefur orðið að fámennisveldi. Fólki er raðað í virðingarstiga og stéttaskiptingin er skýr. Þá berast fréttir frá jörðu sem geta umturnað þessu skipulagi…

World of Ptaavs eftir Larry Niven.
Jörðin og nýlendur hennar í sólkerfinu eiga í erjum. Geimvera með ofurnáttúrulega hæfileika er vakin upp af dvala. Mannkynið í hættu að verða þrælar hans.

How to be good eftir Nick Hornby.
Læknir heldur fram hjá eiginmanni sínum, á í tilvistarkreppu og vill skilja enda eiginmaðurinn fúllyndur með eindæmum. Eiginmaðurinn hittir óvenjulegan hnykklækni, umturnast og verður svo ofboðslega hjartahreinn að það pirrar hana enn meir.

Destiny’s road eftir Larry Niven.
Nýlenda langt frá jörðu. Ungur maður heldur í leiðangur til að sjá hvar annað lendingarfarið endaði. Fólk ekki vant því að ferðast, hann er því nokkurs konar Marco Polo og kemst að sláandi hlutum um sess sinn og þorpsins í tilverunni.

Saturn’s race eftir Larry Niven og Steve Barnes.
Stórfyrirtækin eru að byggja sér gervieyjur þar sem þau geta verið í friði með tilraunir sínar og laus undan lögum og reglum þjóðríkja. Ung stúlka kemst að skuggalegum aðgerðum sem draga stórlega úr fæðingartíðni í þriðja heiminum. Ekkert spes.

A Wodehouse Miscellany eftir P. G. Wodehouse.
Samansafn smásagna, ljóða og greina eftir meistarann.

Mike eftir P. G. Wodehouse.
Las þessa bók reyndar í tvennu lagi (þetta er sameinuð útgáfa), sem “Mike at Wrykyn” og Mike and Psmith. Psmith þarna kynntur til sögunnar í fyrsta sinn, man að ég las Wodehouse fyrst fyrir tæpum 20 árum síðan!

Psmith in the City eftir P. G. Wodehouse.
Psmith og Mike halda nú til London og fara að vinna í banka. Psmith lætur sér aldrei bregða.

The Portable Door eftir Tom Holt.
Ungur vonlaus maður og ung vonlaus kona fá óvænt vinnu hjá ótrúlega undarlegu fyrirtæki. Holt er oft áþekkur Pratchett en með eigin stíl og að auki er sögusviðið jörðin, þó svo að í bókum hans komi jafnframt fyrir hin norrænu goð, álfar, púkar og fleiri ævintýra- og trúarbragðapersónur. Held ég eigi allt safnið hans, vel yfir 20 bækur.

Var að byrja á enn einni Psmith sögunni, ætli ég greini ekki betur frá henni síðar, þetta er orðið nokkuð gott eins og er!

Uncategorized

Áfram Ray Nagin og New Orleans!

Þessi maður er borgarstjóri New Orleans og hann er brjálaður yfir ruglinu sem er í gangi.

Hjálp berst seint og illa og fjölmiðlar virðast hafa meiri áhyggjur af vatnsflöskum og mat, sem sveltandi fólk í lífshættu tekur úr yfirgefnum verslunum, en af lífi þúsunda sem hanga á bláþræði.

Zero-tolerance policy kalla þeir þetta, skjóta alla sem reyna að halda lífi með því að ná sér í mat sem ENGINN er að nota og eiganda er nokk sama um, hann er bara feginn að hafa komist lifandi í burtu!

Þetta er endanleg sönnun þess að í Bandaríkjunum skiptir hlutur, eign, niðursuðudós, mun meira máli en líf fólks sem er í lífshættu.

Já það eru nokkrir idjótar á sveimi, þrælvopnaðir (guns don’t kill people hmmm…) en meirihlutinn er bara að reyna að halda sér á lífi í hrikalegum aðstæðum.

Kíkið á þetta viðtal, þetta er refsivert athæfi leiðtoga þjóðar, alvarlegra en að hann sé að dúllast með einhverri stúlku. Mun alvarlegra.

Kannski það þurfi að slá hausunum á fréttamönnum saman nokkrum sinnum og það duglega til að þeir fari að fatta hvað skipti máli. Lífið.

Uncategorized

Wikimania

Eins og Guardian greinir frá þá er Worldwide Wikimania í gangi. Þetta frábæra framtak, sem er alfræðiorðabók almennings, gerð af almenningi, er alveg tær snilld.

Sjáið bara þessa ítarlegu færslu um gæsalappir (ritmáls, ekki fuglsins)!

Enska útgáfan er orðin risavaxin, sú íslenska á enn langt í land.

Ritfrelsi fyrir alla, þekking fyrir alla, upplýsingar fyrir alla!

Tyrkir eru reyndar ekki alveg á þessari línu, menn kærðir fyrir undarlegustu sakir.

Að lokum er hér að finna aðvörun frá 2001 um yfirvofandi drukknun New Orleans. Bush las greinina sennilega ekki, fyrst að hann skar niður fé til flóðvarna um 80%.

Uncategorized

DP 5 ára!

Í dag eru 5 ár síðan að Distributed Proofreaders komu fram á sjónarsviðið, í eldri færslu fór ég ítarlega yfir hvað það er.

Á þessum 5 árum hafa tæplega 8000 titlar verið prófarkalesnir og gerðir aðgengilegir núverandi og komandi kynslóðum. Sífellt fleiri leggja hönd á plóg og nú er Google að vasast í skyldum efnum.

Á netinu er því að finna sífellt meira efni sem annars myndi týnast, gamlar bækur morkna, er hent eða verða tímanum að bráð með öðrum hætti. Með því að koma efni þeirra á stafrænt form er mikill sigur unnin, hvort sem efnið telst til stórbókmennta, fræðslurita eða dægurdvalar.

Sjálfur mun ég fagna ársafmæli hjá DP í næsta mánuði, það var þó ekki fyrr en í vor og sumar sem ég tók af alvöru að einbeita mér að því.

Vek athygli á King Alfred bókinni sem tengt er á hér að neðan, lærði um upphaf breska heimsveldisins og fékk að vita það að engilsaxneskt fólk væri öllum öðrum þjóðflokkum æðri!