Monthly Archives: May 2004

Uncategorized

Dýru inniskórnir

Einkaleyfi eru orðinn algjör brandari í Ameríku en það versta er að þau gefa vitleysingum leyfi til að lögsækja fólk sem er að gera flotta hluti. Eitt ruglaðasta dæmið (veit þó ekki hvort einhverjar lögsóknir hafi farið í gang vegna þessa) er einkaleyfi númer 5.443.036 í Ameríku sem er fyrir æfingaaðferð fyrir ketti sem felst í því að láta ljósdepil hreyfast um og köttinn elta hann.

Horfði í morgun (nýt frís frá vinnu og skóla nokkra daga enn) á lokamyndina í Matrixseríunni, Revolutions. Þetta er óskaplega bragðdauft og óáhugavert dæmi, fyrsta myndin var nokkuð áhugaverð og með byltingarkenndum atriðum en sagan var ekkert að hrífa mig þá og er langt frá því að ná mér eftir að hafa séð allar þrjár núna.

Að mynd lokinni skipti ég yfir á PoppTíví til að sjá hvað væri í gangi þar, sá þar þá í fyrsta (og vonandi eina) sinn myndbandið með stelpunum í Nylon, voða eitthvað andlaust og þær virtust allar eins greyin. Sá mynd af þeim að skrifa undir samning í Mogganum um daginn og við hliðin á fullorðnum karlmanni litu þær út eins og 12 ára smástelpur. Það er víst markhópurinn skilst mér, vona að þeim gangi vel án þess að ég þurfi að heyra að sjá þær.

Á eftir Nylon fylgdi svo myndband með Britney Spears þar sem hún var í baði, heyrði talsvert rætt um myndbandið þar sem sumir vilja meina að hún sé að fegra sjálfsmorð. Mér fannst hins vegar merkilegra að hún telur nærbuxur og náttkjól nægjanlegan fatnað til ferðalaga?

Annasamur dagur og festi meðal annars kaup á líklega einu dýrasta inniskópari sem vitað er um. Innleggin kosta alveg tvöfalt meira en skórnir sjálfir, sem eru þó ekki ódýrir.

Uncategorized

Glimrandi, hjartnæmt, strípalingur og Survivor

Það virðist allt ganga glimrandi vel í einkalífinu þessa dagana, ég kíki reglulega á mig í spegli til að athuga hvort að aukakílóin hafi líka horfið eins og flestar hinar áhyggjurnar. Engin lukka eins og er en þessi tækni gæti samt náð því fram brátt!

Las í morgun The Wish List eftir Eoin Colfer (höfundur Artemis Fowl bókanna). Vel skrifuð og hjartnæm saga. Mæli með henni.

Á flakki mínu um netið rakst ég á strípaling á snókermóti sem er svona með síðustu stöðum sem maður héldi að einhver myndi hlaupa nakinn um á.

Ég sá líka hver vann Survivor All-Stars mér til talsverðrar gremju, við erum greinilega rúmri viku á eftir Könunum núna. Segi ekki meir um þetta mál, vil ekkert spilla fyrir öðrum

Uncategorized

Flugufangarar

Já það eru nú tveir gestir hér, ekki í fæði.

Annars vegar er það stærsta býfluga sem ég hef séð hér á landi (sýnist þetta vera drottning), hún virtist aðframkomin þegar hún var handsömuð. Hins vegar er það geitungurinn sem trítlaði yfir gólfið í svefnherberginu þegar ég kom auga á hann.

Bæði bíða nú þess að láta lífið og verða þar með nýjustu sýningargripirnir í örsmáu skordýrasafni Sigurrósar.

Uncategorized

Selfossför sjö tuga

Dagurinn byrjaði á því að haldið var á Selfoss, nokkra metra frá núverandi heimili okkar hittum við idjót dagsins sem var Jónas R. eða einhver tvífari hans á 10 milljóna upphækkuðum jeppa. Hann sýndi af sér fádæma vanþekkingu á umferðarreglum á vegamótum og var svo klár á því að hann væri í rétti að hann baðaði út öllum öngum og hló að plebbunum sem voru í eðlilegri hæð, sumsé okkur. Held reyndar að flestum jeppabílstjórum væri hollt að fara aftur yfir umferðarreglurnar þar sem þeir virðast telja aðrar gilda um sig en þessar sem við fylgjum.

Erindið á Selfossi var að fagna Jóni Inga sem er 70 ára í dag. Margt manna mætti og mikil tónlistardagskrá var.

Þegar heim var komið kláraði ég síðustu blaðsíðurnar í bókinni um Beckham. Mjög einfalt talmál notað, hvort það er þýðandinn eða upphafleg útgáfa notuð veit ég ekki. Beckham virðist þó hinn ágætasti gaur, fjölskyldan og fótboltinn einu víddirnar í hans heimi.

Lokapunktur kvöldsins var Intolerable Cruelty, fín mynd frá Coen-bræðrum, svartur húmor með smá rómans.

Uncategorized

Lesning dagsins

Þar sem maður er víst að fara að starfa við upplýsingadæmi á bókasafni (svo maður noti loðið orðafar) þá er þetta áhugavert en þarna eru bornar saman nokkrar aðferðir við upplýsingaöflun, þar með talið Google og bókasöfn (sem virðast hafa örlítið betur þarna).

Það er annars áhugaverð þörfin sem grípur mann stundum, eins og að fara í næstu búð og kaupa öll 10.000 Mars-súkkulaðistykkin sem eru til þar.

Áhugavert þetta með að hægt verði að rækta nýjar tennur!

Uncategorized

90 einingar fyrir rúma milljón

Í dag komu tvær síðustu einkunnirnar í hús og hef ég því lokið 90 einingum við Háskólann í Reykjavík. Þetta hefur tekið 11 annir, þar af hafa 3 þeirra verið eingöngu skóli en hinar 8 verið vinna og skóli saman.

B.Sc.-gráðan í tölvunarfræðum er því loksins mín, rétt náði henni fyrir 29 ára afmælið í sumar.

Heildarkostnaður vegna skólagjalda er tæp 900 þúsund og bókakostnaður líklega um 250 þúsund eða meira.

Annars er nú eitt ár liðið frá því að íslenski tölvuleikurinn EVE hóf göngu sína formlega (eftir margra ára þróun og prófanir). Í dag varð því hann Riddari minn eins árs gamall. Nú spila um 5.000 til 7.000 manns EVE í einu og metið er yfir 10.000 leikmenn í einu. Til hamingju með það CCP og Matti sem kom mér inn í leikinn.

Uncategorized

Kingmaker

Þokkalegur dagur bara. Fyrir utan umferðarslysið sem við Gunna lentum næstum því í og urðum svo vitni að gekk dagurinn áfallalaust fyrir sig.

Las um daginn þessa grein um líklega valdamesta blaðamann tölvu- og tækniheimsins. Ekki slæmt þegar svona maður hefur áhrif á iðnaðinn.

Uncategorized

What a perfect day

Þvílíkur dagur!

Byrjaði á því að fara í aðra umferð atvinnuviðtala hjá ákveðinni stofnun hérí bæ. Að því loknu heilsaði ég upp á Gunnu og félaga sem voru að undirbúa lokaskilin á lokaverkefni sínu.

Eftir smá stopp heima fór ég að fá mér að borða og kíkti svo á nýja bókasafnið í Kópavogi, enda allar líkur á því að í það bæjarfélag munum við flytja. Þar hitti ég Immu frænku sem vinnur víst þar, mér fannst heita pottssvæðið hjá þeim afar áhugavert (sci-fi og fleira) og ætli við fáum okkur ekki bókasafnskort þarna.

Því næst hélt ég niður í Smára til að skoða aðstæður, á leiðinni fékk ég símtal þar sem mér var boðin vinnan sem ég hafði verið í viðtali fyrir. Ég samþykkti það enda mjög spennandi fyrir mig fræðilega séð.

Ég tilkynnti mínum nánustu þessa gleðilegu framvindu og þegar ég var að ljúka því dúkkaði allt í einu upp gamall kunningi frá fyrri tíð, Guðni Már birtist allt í einu og sýndi mér Fífuna sem hann er markaðsstjóri fyrir. Það er langt síðan við sáumst og enn lengra síðan að ég spilaði fótbolta þar sem nú er Fífan. Kíkti á staðinn og þetta er verulega flott aðstaða.

Við Sigurrós kíktum því næst í kirkjugarðinn og grillveislu þar sem úrvalsveitingar voru á boðstólum.

Eftir stutt stopp heima skutlaði hún mér svo á Galíleó þar sem ég hitti Gunnu og félaga sem höfðu haft þar náðugan tíma til að borða og fá sér í krús, fagnandi lokum verkefnis síns.

Förinni var því næst heitið á Kaffibarinn þar sem við sátum í rúma þrjá tíma fram að lokum og skemmtum okkur æðislega. Þetta er búinn að vera brilljant dagur!

Takk fyrir mig!

Uncategorized

Hvíti hesturinn

Örn, Regína og Ísar lentu í smá bílaveseni í dag sem lauk með því að ég kom á hvíta bílnum og bjargaði þeim með smá viðkomu í Kópavoginum. Fyrst að við erum báðir nokkuð rólegir í tíðinni núna getum við kannski brallað eitthvað sniðugt næstu daga.

Fyrst að stórfjölskyldan er með fulltrúa á Nýja Sjálandi sem stendur ætti hann kannski að kíkja á nýsjálensku útgáfuna af Stonehenge

Uncategorized

Tölvudútl

Rólegur dagur, leit á Gunnu og hópinn hennar sem eru rétt um það bil að klára lokaverkefnið sitt, kíkti svo á Kára sem virðist haldinn bölvun þegar kemur að því að komast í leikinn DAOC og dútlaði mér svo í EVE þar sem mér tókst að tapa bardaga á glæsilegan hátt en var snöggur að redda mér öðru orrustuskipi.

Þess utan bara rólegt!