Þvílíkur dagur!
Byrjaði á því að fara í aðra umferð atvinnuviðtala hjá ákveðinni stofnun hérí bæ. Að því loknu heilsaði ég upp á Gunnu og félaga sem voru að undirbúa lokaskilin á lokaverkefni sínu.
Eftir smá stopp heima fór ég að fá mér að borða og kíkti svo á nýja bókasafnið í Kópavogi, enda allar líkur á því að í það bæjarfélag munum við flytja. Þar hitti ég Immu frænku sem vinnur víst þar, mér fannst heita pottssvæðið hjá þeim afar áhugavert (sci-fi og fleira) og ætli við fáum okkur ekki bókasafnskort þarna.
Því næst hélt ég niður í Smára til að skoða aðstæður, á leiðinni fékk ég símtal þar sem mér var boðin vinnan sem ég hafði verið í viðtali fyrir. Ég samþykkti það enda mjög spennandi fyrir mig fræðilega séð.
Ég tilkynnti mínum nánustu þessa gleðilegu framvindu og þegar ég var að ljúka því dúkkaði allt í einu upp gamall kunningi frá fyrri tíð, Guðni Már birtist allt í einu og sýndi mér Fífuna sem hann er markaðsstjóri fyrir. Það er langt síðan við sáumst og enn lengra síðan að ég spilaði fótbolta þar sem nú er Fífan. Kíkti á staðinn og þetta er verulega flott aðstaða.
Við Sigurrós kíktum því næst í kirkjugarðinn og grillveislu þar sem úrvalsveitingar voru á boðstólum.
Eftir stutt stopp heima skutlaði hún mér svo á Galíleó þar sem ég hitti Gunnu og félaga sem höfðu haft þar náðugan tíma til að borða og fá sér í krús, fagnandi lokum verkefnis síns.
Förinni var því næst heitið á Kaffibarinn þar sem við sátum í rúma þrjá tíma fram að lokum og skemmtum okkur æðislega. Þetta er búinn að vera brilljant dagur!
Takk fyrir mig!