Monthly Archives: July 2003

Uncategorized

Títuprjónn

Jæja ég gæti eytt mörgum orðum í íslenska nýíhaldsmenn (e: neoconservatives) en ég held að þessi hugmynd dæmi sig sjálf:
Björn hvetur til stofnunar varnarsveitar hér á landi

Fyndið samt að þeir nefna sig frjálshyggjumenn! Sorglegt kannski frekar?

Að skemmtilegri tíðindum, stafrænar myndavélar eru orðnar það góðar og stjörnukíkjar viðráðanlegir fyrir áhugamenn að áhugamenn eru að taka myndir sem jafnast á við milljarða króna tæki. Þessi mynd er ofurflott… hún sýnir Merkúr eins og títuprjón fyrir framan Sólu.

Nokkrir annmarkar á Google eru nefndir hér, dæmi um ofgnótt upplýsinga sýnist manni.

Að lokum má nefna það að vísindamenn eru að búa til músagildrur sem nota ekki beitu en eru búnar til úr plasti og súkkulaði sem er brætt inn í það.

Uncategorized

Koðnun

Já, eftir gleði gærdagsins sem má lesa nánar um hjá Sigurrós þá vorum við eitthvað róleg í dag.

Comic-Con ráðstefnunni lýkur í dag, þar má meðal annara sjá Neil Gaiman og Wil Wheaton, ágætis grein um staðalmyndir litaðra, samkynheigðra og kvenna í teiknimyndasögum má lesa hér.

Áhugaverð þessi frétt um að stjórnarherrarnir í Ameríku einbeita sér að því að kæfa niður fréttir eða gera ótrúverðugar í stað þess að redda vandamálunum sem þeir komu sér rækilega í. Heill herskari af CIA, NSA og fyrrum yfirmönnum í hernum sem nú eru komnir á eftirlaun er búinn að gagnrýna hvernig ráðamenn fóru í stríð án þess að hafa Plan B, vildu bara heyra og sjá þau gögn sem studdu þeirra skoðanir og stofnuðu meira að segja sér skrifstofu sem sá um að flytja bara þau boð sem menn vildu heyra.

Með allra stærstu klúðrum í sögu hernaðar og stjórnmála segja menn, nýíhaldsmennirnir að skíta verulega illa á sig og á saklausa borgara ýmissa landa.

Talandi um nýíhaldsmenn… þeir eru æfir yfir því að CBS stöðin segi að hommar sem taka þátt í Amazing Race 4 segist vera giftir, enda sé ekki hægt að vera giftur ef maður er hommi í Ameríku.

Nýíhaldsmenn á Íslandi kalla sig frjálshyggjumenn… smá Orwellíska.

Uncategorized

Grillveisla

Í dag átti spúsan mín afmæli og hélt upp á það í kvöld með lítilli grillveislu þar sem tvær æskuvinkonur hennar og fylgdarsveinar þeirra mættu.

Grill, vel ættað áfengi, kaka og fleira góðgæti vakti stormandi lukku allra og kvöldið var einstaklega vel heppnað. Umræður fóru um víðan völl, allir viðstaddir voru vel með á tölvunótunum, bíónótunum og fleiri nótum sem ekki má tala um þegar ólögráða eru viðstaddir. Frábært kvöld með frábæru fólki!


Jæja, lítið heyrist nú frá þeim sem hrópuðu að Samkeppnisstofnun væri á nornaveiðum þegar hún gerði húsleit hjá olíufélögunum. Þeir hrópuðu hátt og snjallt að leggja ætti þessa stofnun niður, nú heyrist ekki píp. Kannski af því að búið er að sanna þvílíkt samráð?

STEF skandalísera enn eina ferðina og sýna hversu forheimskt það batterí er. Listamönnum er ekki greitt eftir raunspilun laga heldur eftir vinsældarlista Bylgjunnar og Rásar 2 eða eitthvað álíka gáfulegt. Það nýjasta er að rukka harmonnikuleikara um STEF-gjöld fyrir að hann spili eigin tónlist. STEF segist vera alveg sama hvort tónlistin sé frumsamin eður ei, opinber flutningur þýðir að þú verðir rukkaður og andskotinn hafi það!

Blair er svo búinn að segja að sagan muni dæma þá stríðsherrana réttlátlega, það er eins og þeir vilja. Sigurvegarar skrifa víst söguna en það er reyndar orðið erfiðara nú á tímum fyrir þá. Þeir reyna það þó alveg hikstalaust.

Uncategorized

Gasið

Jæja, bara áframhaldandi glimrandi veður í dag.

Fór til AGA með gamla járnkútinn og fékk plastkút í staðinn. Þeir eru þeirrar náttúru gæddir að hægt er að sjá gasið í þeim og meta þar af leiðandi hvenær þarf að skipta. Þeir eru svo á vaktinni með heimsendingarþjónustu alla daga (líka helgar) á milli 10-22 þannig að ef að gasið klárast í miðju grillpartýi um helgi þá er það bara eitt símtal til að redda því. Mér finnst þetta bara svo frábær þjónusta að ég bara verð að segja frá.

Nýi markmaðurinn hjá Mancester United er með Tourette. Ágætis viðtal við hann og grein hérna.

Ekki var fyrr búið að birta frétt um nýjar og erfiðari boðleiðir til Bush (þar sem maður þarf til dæmis að tiltaka í erindi hvort maður sé sammála honum eða andsnúinn, enginn millivegur þar) fyrr en allir flykktust að athuga þetta og gerðu illt verra.

Meira frá Ameríkunni, þar er nú lítið flugfélag að setja upp þvílíkt myndavélakerfi sem fylgist með öllu sem gerist um borð í flugvélinni (nema á salernum). Upptökur verða svo hugsanlega geymdar í 10 ár!

Maðurinn sem fyrstur skráði Sex.com og barðist seinna hatrammri baráttu fyrir dómstólum til að fá það frá ræningja er nú að vandræðast við að láta það skila hagnaði. Hann hefur víst ekki reynst besti stjórnandinn sem völ er á.

Hinum megin við hafið tekst að minnsta kosti einum manni að hafa lifibrauð af því að blogga.

Í Frakklandi hafa svo nýnasistar og öfgasinnaðir gyðingar gert hið ótrúlega og sameinast í hatri sínu á múslimum.

Uncategorized

Hjartans mál

Varðandi Ann Coulter mynd gærdagsins þá talaði ég stuttlega um þessa konu í færslu um daginn en hún er til dæmis klár á því að allir sem lentu í klóm Joseph McCarthy og félaga hafi bara verið helvítis kommúnistar og ekkert flókið með það að gefa út skotleyfi á þá. Að líkja henni við vonda norn í Oz var kannski ósanngjarnt í garð nornarinnar.

Haldin var minningarathöfn um Marc-Vivien Foe í Manchester í gær. Maður klökknar við að lesa greinina og ummæli allra þeirra sem skilja eftir skilaboð.

Grunur leikur á að Foe hafi haft hjartagalla sem heitir HCM á ensku. Minningarsjóður um tvítugan dreng sem lést á svipaðan hátt gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Foreldrar hans mæta með sérfræðinga og skoða hundruðir í einu til að athuga hvort að leyndur galli sé til staðar.

Svei mér þá ef að sumir sem maður þekki sýni ekki sum þeirra einkenna sem geta bent til óeðlilegrar hjartastarfsemi… það verður að skoða þessi mál vandlega, það gæti bjargað lífi.

Uncategorized

Bullandi brakandi sól

Svei mér þá ef að ég er ekki að taka (rauðan) lit á handleggjunum eftir daginn í dag. Þvílík sól, þvílíkur hiti. Rétt rúmlega 20°C hiti og ég var ekki að þola við. Þvílíkt handónýtur sem ég verð í steikjandi sól og hita.

Doug Marlette sýnir íhaldssama postulann Ann Coulter í réttu ljósi!

Í Bandaríkjunum er nú lagafrumvarp í gangi sem bannar skattheimtu af netnotkun. Þetta er hið besta mál enda er nauðsynlegt að netaðgangur sé sem víðast og sem ódýrastur. Netið getur skapað stéttaskiptingu mjög auðveldlega.

Nú er búið að kljúfa Mozilla út úr AOL-skrímslinu og stofna sér félagsskap um það. Menn þar eru bjartsýnir og vilja bola IE burtu í krafti þess að vera með betri vafra. Sjálfur nota ég Mozilla bæði fyrir vefráp og sem póstforrit og vona það besta en býst ekki við miklu.

Smá fróðleikur fyrir tæknifólkið, hvernig búa skal til tölur af handahófi.

Innan áratugs ætti blint fólk að geta fengið einhverja sjón með hjálp rafeindaaugna.

Uncategorized

Englarnir

Við fórum í kvöld í bíóið með verstu sætum Íslandssögunnar. Myndin sem varð fyrir valinu í bíóinu með verstu sæti sem hingað hafa verið flutt var Charlie’s Angels: Full Throttle.

Myndin var brilljant konfekt fyrir heilastúkuna og litla heila. Hasar, fyndni (jæja smá fyrir stóra heila), brögð, brellur og fullt fullt af kynþokkafullum atriðum sem tóku sig mátulega hátíðlega. Þetta er sko ekki mynd sem maður fer á til að skoða söguþráðinn, þetta er mynd sem maður fer á til að kæta frumhvatirnar. Þessi er mjög líkleg til að enda í DVD-safninu okkar.

Ekki spillir Cameron Diaz fyrir, hún hefur sýnt það á sínum ferli að hún er ekki bara þrusukroppur og fyndin heldur þrusuleikkona þegar þess er krafist af henni. Hún getur bara allt!

Eitthvað gengur illa hjá Rumsfeld að greina rétt frá. Hver ætli hafi sagt Dabba og Dóra það sem fékk þá til að styðja innrásina afdráttarlaust? Ætli það hafi ekki verið öruggari heimildir en Bandaríkjamenn og Bretar? Ha? Ekki trúa þeir svona lygalaupum?

Jedúddamía! Æðsta þjálfaranámskeið Asíu fer fram þessa dagana og það er enginn annar en Howard Wilkinson sem leiðbeinir þar. Fyrir þá sem ekki vita þá er Wilkinson karlanginn sérfræðingur í því að láta akkúrat ekkert gerast á knattspyrnuvöllum. Undir hans stjórn skoraði Sunderland þrjú mörk á þremur mánuðum eða eitthvað álíka á síðasta tímabili, og kolféll. Ansi eru Asíumennirnir óheppnir að fá þennan karlanga til sín.

Google að byrja með enn einn fítusinn, Froogle sem er bara tenglasafn á verslunarvefi.

Uncategorized

Já! Haha!

Um leið og ég kom heim í dag flaug ég niður tröppurnar og reif sláttuvélina út og tætti af stað, leist ekkert á svörtu skýin sem nálguðust óðfluga. Sló garðinn og rakaði svo saman með aðstoð Sigurrósar og þá loksins komst maður í kvöldmat. Svo skein sólin skært eftir þetta svona aðeins til að stríða manni að hafa frestað kvöldmatnum. Aðrir náðu líka að slá í dag.

Það vantar ekki að ofsatrúarmennirnir hjá WorldNetDaily eru paranojaðir, nýjasta hættan frá Írak er ekki Saddam Hussein, ekki vopn sem ekki voru til heldur kommúnistarnir! They have returned

Nú er komin út gagnrýni um svakalegasta leik allra tíma, Real Life: The Full Review. Við leikjafólkið kunnum afar vel að meta þessa grein.

Er að skoða tól sem auðvelda manni að passa upp á að skrár séu eins á tveim mismunandi tölvum (fartölva og borðtölva). Þetta er á Windows og ég er búinn að skoða nokkur en það væri gaman að vita hvað aðrir kjósa, þetta má helst ekki vera flóknara en svo (eftir uppsetningu og stillingu) en að notandi ýti á takka og skrár fljúgi á milli án vandkvæða. Póst má senda á mig með því að líta á lénsnafnið hérna og setja @ merkið í staðinn fyrir fyrri punktinn.

Uncategorized

Ei sláttur

Ekki voru aðstæður til garðslátts mikið betri í dag en í gær. Spáð er skárra veðri á morgun. Ég vona að svo verði því annars verður maður að redda sér ljá til að eiga séns.

Um gjörðir dagsins í dag má lesa hér.

Uncategorized

Afmælispartý og fleira

Fór í kvöld í sameiginlegt afmælispartý Jóa og Eddu skólasystur okkar. Þar var mættur Hrafnkell sem ég bauð fyrir hönd Jóa. Við félagarnir rijfuðum eitt og annað upp og uppfærðum nýjustu tíðindi af okkur og söknuðum félaga sem ekki voru á staðnum. Við Sigurrós fórum svo snemma heim, nú um miðnætti. Lítil partýdýr í okkur og ekki er ég að fara að brjóta skemmtistaðabindindi mitt eftir þau 3 ár sem ég hef notið þess að vera ekki inná heyrnarskemmandi og daunillum reykjarkófsstöðum.

Jæja ekki lærir maður af reynslunni. Í gær var brakandi sól og mér sýndist sem að svo ætti líka að vera í dag og frestaði því að taka sláttuvélina út og ráðast á grasið sem er orðið ískyggilega hátt aftur. Þegar ég vaknaði var rakt úti og svo þegar rigningin kom sá ég fram á að ég verð bara að vona hið besta varðandi morgundaginn. Ef það heldur áfram að rigna verður vonlaust að slá.

Í dag sótti ég svo Sigurrós á Selfoss en þangað skaust hún í gær með mömmu sinni. Fékk fínan kjúkling og súkkulaðinammi í eftirrétt.

Utanlandstengill dagsins er á söguna af Emmett Till, sorgarsaga sem sýnir ástandið í Suðurríkjunum á síðustu öld (þeirri tuttugustu!).