Monthly Archives: January 2003

Uncategorized

Sundfatarenglur

Í dag var slökkvitæki sett inn í sjónvarpið okkar. Við erum við öllu búin alls staðar.

Setti upp RealOne Player í gær og þegar ég opnaði hann í dag þá birtust skilaboð um að það væri eitthvað í innhólfinu. Þar beið mín listi yfir 10 vinsælustu myndbönd ársins 2002 samkvæmt Real.com. Þar var efst á lista myndband sem var tekið við gerð “Swimsuit edition” af Sports Illustrated blaðinu. Þessi útgáfa kemur út einu sinni á ári og selst í gríðarlegu magni. Þarna má sjá stelpur sem hafa hvorki rass né mjaðmir sitja eða liggja í óþægilegum stellingum afar fýldar á svip á meðan að ljósmyndarar skipa þeim að hreyfa rassinn, fara í bólakaf, fikta í hári þeirra eða hvað allt þetta er. Ef þetta fær ekki sumar stúlkur til að hætta við fyrirsætudraumana veit ég ekki hvað, þetta virðist vera hrikalega leiðinlegt starf ef að marka má svipinn á spýtustúlkunum sem fötin eru hengd á til sýnis.

Viltu leggja þitt af mörkum til að bæta heiminn? Tékkaðu á idealist.org. Það er ekki til auvirðulegra fólk en það sem hugsar aðeins um sjálft sig þó það hafi efni á (peninga eða bara tíma) að leggja sitt af mörkum (er mín mjög svo persónulega skoðun). Mín lífsspeki er sú að reyna að skila heiminum af mér betri en þegar ég kom í hann, þó það sem ég skil eftir mig sé ekki nema nanóbrot af því sem þarf þá er það skref í rétta átt. Ef að allir eru með svipaðan hugsunarhátt þá safnast nanóbrotin saman og fara að skipta verulegu máli.

Íslenskir reykingamenn ættu kannski að apa þetta eftir?

Það eru kosningar í nánd víðar en hér á landi. Ísraelsmenn (jæja… Ísraelar af gyðingaættum, fæstir arabískir Ísraelsmenn fá eða munu vilja taka þátt) ganga brátt að kjörborðinu. Maður einn setti konu sinni stólinn fyrir dyrnar og sagðist skilja við hana ef hún kysi gegn hans vilja, þau leituðu til sinna trúarleiðtoga og þeir kváðu upp þann dóm að hún ætti bara að sitja heima til að bjarga hjónabandinu.

Svona rétt í lokin fyrir tískufólkið þá er hægt að sjá nokkra stjörnukjóla hjá meisturum slúðursins (Mogginn telst ekki með).

Uncategorized

Endurtekt náð, fréttir sagðar

Fékk einkunnina úr endurtektinni, náði en ekki eins glæsilega og ég hafði vonast eftir. Mér gengur alltaf frekar illa þegar ég skrifa kóða í prófum, ég bara finn mig ekki með blað og penna, allt annað mál með tölvuskjá og lyklaborð.

Dave Hughes er magnaður maður eins og má lesa um í þessari frétt. Karlinn er löngu kominn á eftirlaun en hefur undanfarna áratugi unnið að því að nettengja sem flesta staði og einbeitt sér að afskekktum svæðum. Hann vill láta grafa sig með fartölvu tengda við þráðlaust net og svo snúra upp í sólarrafhlöðu til að halda tölvunni gangandi. Öll hans verk eiga að liggja á fartölvunni sem og spjallforrit sem svarar fyrirspurnum í hans nafni. Magnaður frumherji, vel þess virði að renna yfir þessa stuttu en góðu grein um merkilegan mann.

Á morgun mun Kevin Mitnick logga sig inn á internetið í fyrsta sinn í lengri tíma. Fyrir þá sem vita ekki hver maðurinn er þá var hann fundinn sekur um margvísleg tölvuafbrot. Refsingin sem hann fékk var reyndar í þyngri kantinum, hann var sumsé notaður til að senda þau skilaboð að tölvuafbrot væru gríðarlega alvarleg. Hluti af refsingunni var að hann mátti ekki koma nálægt nettengdum vélbúnaði, ættingjar hafa hingað til þurft að tékka á tölvupóstinum fyrir hann og prentað hann út.

Það er enn nóg í gangi varðandi baráttuna fyrir rétti neytenda til að eiga það sem þeir kaupa. Hollywood og félagar eru auðvitað á öðru máli og unnu seinustu lotu. Baráttan er langt í frá búin þó.

Sjónvarpskokkurinn Delia Smith hefur kennt Bretum að elda síðastliðin 30 ár (og sumir segja að það hefði mátt byrja á því mun fyrr) en er nú orðin uppiskroppa með uppskriftir. Hún hefur því hætt eldamennskunni og snúið sér að knattspyrnunni!

Hérna er áhugaverð niðurstaða, konur nú til dags stunda kynlíf sjaldnar en ömmur þeirra! Kynlíf var víst vinsæl dægradvöl fyrir 50 árum en nú fyllir sjónvarpið það pláss að stórum hluta. Gömlu konurnar brosa væntanlega í kampinn yfir þessu, þær vissu þetta alveg.

Að auki þá breytist smekkur kvenna fyrir karlmönnum eftir því hvort þær eru á pillunni eður ei. Þær sem taka pilluna laðast frekar að macho-mönnum en þær sem ekki taka pilluna laðast frekar að fíngerðari karlmönnum. Þetta á víst líka að útskýra fjölda sambandsslita eftir fyrsta barn þegar konurnar hætta á pillunni og líst ekki lengur vel á macho-manninn sinn.

Úr heimi vísindanna berast þær fréttir að aðferð til að mæla lengd
telomera sé nú til. Telomerar eru á endum litninga og í hvert skipti sem fruma skiptir sér minnka telomerarnir. Þannig fæddist kindin Dollý miðaldra, hún byrjaði ekki með 100% telomera eins og ungviði gerir almennt. Þessar fréttir þýða það að auðveldara verður að mæla öldrun og ef til vill verður hægt að hægja á henni seinna meir.

Nú er byrjað að kenna námskeið sem fjallar um stjórnartíð Bill Clinton í Hvíta Húsinu (the good old days).

Mótmæli gegn stríði fara stigvaxandi, fólk um allan heim fækkar fötum til að sýna friðarþel sitt í raun. Noam Chomsky fækkar reyndar ekki fötum en skrifar fína grein í dag.

Uncategorized

Matarboð

Takmarkið að hafa meira saman að sælda við vini mína þetta árið er enn ekki komið almennilega í gang. Í kvöld fengum við þó Elínu í heimsókn og hún fékk tilsögn frá vefara heimilisins um hvernig ætti að henda upp sinni fyrstu heimasíðu á meðan að ég kenndi henni undirstöðuatriði þess að taka öryggisafrit af eigin geisladiskum.

Kvöldmaturinn samanstóð af cantaloupe-melónubitum í forrétt, piparsteik í aðalrétt ásamt bökunarkartöflum og rauðvínssósu, í eftirrétt var það svo Viennette ískaka sem var snædd. Góður rómur gerður að öllu fyrrnefndu.

Uncategorized

Spider-Man

Tókum í dag (eftir heimsóknina í Sorpu) á leigu DVD-útgáfuna af Spider-Man. Myndin var frábær skemmtun, persónurnar voru ljóslifandi og Kirsten Dunst og Tobey Maguire gerðu Mary Jane og Peter Parker verulega góð skil sem alvöru fólki. Mér tókst meira að segja að fá ekki æluna upp í hálsinn þegar maður sá þessi 2-3 velluatriði sem hafði verið bætt við eftir 911 eins og þeir í Kanaveldi kalla atburðina 11. september 2001.

Ég hef alltaf vitað að ég væri af spretthlauparakyni frekar en langhlauparakyni. Þetta kom í ljós í grunnskóla þegar ég var lengi vel allra fótfráastur á stuttum vegalengdum. Samanburðarrannsóknir á Kenýumönnum og Dönum hafa leitt grun að því að það er ekki hæðin yfir sjávarmáli, lappalengd, hlaup í skóla eða aðrir þættir sem hingað til hafa verið taldir upp sem eru ábyrgir fyrir því að kenýsku hlaupararnir einoka langhlaupin. Grunurinn beinist nú að spóaleggjunum! Svo virðist sem að pendúl-hreyfingin sem kemur á leggina sé veigamikill þáttur, spóaleggirnir eyða mun minni orku en stæltir kálfar. Þar með get ég bókað það að ég mun aldrei vinna maraþonhlaup, of stæltir kálfar!

Talandi um líkamsrækt þá fór ég í Sporthúsið í morgun. Mig grunaði að það væri nú slatti af fólki þarna upp úr 10 á laugardagsmorgni og það var hárrétt hjá mér. Biðröð í einstaka tæki og svona.

Plúsarnir: astma-pústið svínvirkar! Ég er ekki eins þollaus og ég hélt, þetta er bara áreynsluastminn. Allt annað líf að hafa heyrnartól og hlusta á eitthvað í kerfinu.
Mínusarnir: vond tímasetning – athuga betur áætlun, klúðraði með því að ýta á vitlausan takka, allt sem ég gerði í dag skráist ekki í tölvukerfið sem að mun svo skamma mig næst!

Beint úr hjarta slúðursins berast þær fréttir að Fatboy Slim sé að skilja við skutluna Zoe Ball. Leiðinlegt að heyra en karlinn er víst að vinna að nýrri plötu þannig að maður bíður spenntur eftir henni.

Morgunblaðið er ekki minna slúðurblað eins og bent er á í þessari færslu frá fólki sem þekkir vel til í Egyptalandi. Hvaða lið er þetta sem býr til eigin fréttir við myndir sem það fær frá útlöndum? Nóg er af fólki sem trúir því að fréttamennska Morgunblaðsins sé til sóma, það bara veit ekki betur því miður.

Uncategorized

Fyrsti dagur lokaverkefnis og margt, margt fleira

Vinna við stóra lokaverkefnið okkar hófst formlega í dag með fundi með verkefniskennara. Allir gera sér grein fyrir því að þetta er stór pakki sem við ætlum að ráðast á, við þurfum bara að skipuleggja þetta ofboðslega vel og þá blessast þetta.

Gott dæmi um stærð verkefnisins er að þeir eru nú tveir kennararnir sem hafa spurt “og hvaða hluta ætlið þið að gera” þegar þeir líta á heildarplanið. Svar okkar er stutt: “allt”.

Myndin stórfína Bend it like Beckham hefur hrundið af stað miklu fótboltaæði meðal stúlkna á Indlandi og orðið enn eitt lóðið í vogarskál jafnréttisbaráttunar þar. Myndin er nefnilega ekki bara skemmtun, hún breiðir líka út boðskap jafnréttis. Kvikmyndir sem opna augu þeirra sem á horfa fyrir nýjum hlutum eru að mínu skapi, þetta rusl sem hin 95% kvikmynda eru er eingöngu ætlað til að hafa ofan af fyrir manni í rétt tæpa tvo tíma. Margt nýtilegra hægt að gera en að horfa á þannig rusl.

Menn gera ýmislegt til að komast í metabækurnar, til dæmis stinga þeir 702 nálum í sig.

Menn gera líka ýmislegt til að eignast bíl, til dæmis gerast þeir leigumorðingjar. Þessum fórst það sem betur fer illa úr hendi.

Aðrir gera sitt besta til að sleppa úr þessu lífi sem gæti verið svo miklu betra en er það ekki vegna okkar eigin heimsku. Þessi smíðaði sína eigin fallexi og tókst ætlunarverkið.

Áhugaverð tíðindi frá Kúvæt, maður hefur óskað eftir því að hann verði löglega skráður sem kvenmaður eftir að hafa gengist undir aðgerð í Bangkok. Kúvæt er með frjálslyndari múslimaríkjum og þetta gæti verið stórt skref í þessum málum í araba- og múslimaheiminum.

Loksins hefur vísindamönnum tekist að sanna það sem marga hefur lengi grunað. Föðurætt mín er nefnilega að stærstum hluta til skipuð fólki sem hefur talsvert af aukakílóum, nær undantekningalaust fá karlmennirnir misstórar ístrur eftir tvítugt. Ítalskir vísindamenn hafa fundið gen sem kallast DD sem virðist hafa þessi áhrif. Ég held að margir kannist við fólk sem borðar eins og hestar og hreyfir sig lítið en er alltaf grennra en ljósastaur, það er væntanlega með “and-genið” við DD.

Meira úr vísindaheiminum, bananar eru nú í útrýmingarhættu! Bananaplöntur virðast hafa lítið mótstöðuafl gegn ýmis konar sjúkdómum og svo virðist sem að líftækni og erfðafræði séu eina von þeirra.

Meira af fæðu… súkkulaði er nú líklega að fara að hækka í verði sökum minnkandi framboðs á kakó-baunum. Stærsti þátturinn í þessu eru átök í Afríkuríkinu Fílabeinsströndinni en þar hafa uppreisnarmenn hertekið norðurhluta landsins þar sem kakó-ekrurnar eru. Fílabeinsströndin hefur hingað til framleitt helming ársframleiðslunnar.

Úr matnum í matseld. Sumar eldunarpönnur getur verið hættulegt að nota við eldamennsku, eins fáránlega og það hljómar. Sjónvarpsmarkaðurinn í Bandaríkjunum var sumsé að selja pönnur nema hvað að við háan hita (eins og títt er við eldamennsku) geta þær sprungið eða dottið í sundur.

Strangtrúaðir menn eru ennþá með leiðindi út í ævintýrið um Harry Potter, núna eru það rétttrúnaðarklerkar á Kýpur sem vilja láta banna strákgreyið.

Vetur konungur hefur vaknað hér á landi, það hefur snjóað undanfarið hér í höfuðborginni. Á Ítalíu hefur verið meiri snjór og vetraríþróttir mikið stundaðar. Þar í landi eru nú í vinnslu lög sem myndu skylda snjóbrettafólk til að nota aðrar brautir en venjulegt skíðafólk, þetta er í kjölfar margra slysa og síðasta stráið var dauðaslys á sunnudaginn. Venjulegt skíðafólk kvartar undan því að snjóbrettafólk (sem er iðulega yngra) fari ekki eftir háttvísireglum í brautunum.

Um daginn var greint frá því að lögreglan í Los Angeles væri hætt að fara í útköll þegar þjófavarnir færu í gang. Það nýjasta að vestan er að lögreglubílar munu nú einnig gegna hlutverki sem auglýsingaskilti, meira um það má lesa hér.

George W. Bush er ekki aðeins að valda skaða á mannslífum og eignum. Nýjasta fórnarlambið er ensk tunga en margvíslegar málvillur hans eru nú að festa sig í sessi hjá fólki sem veit ekki betur eða er að gera grín að vankunnáttu forsetans. Hljómar ótrúlega líkt Davíð reyndar… “yfirgripsmikið þekkingarleysi” er ekki ósvipað “misunderestimate” hvað hræðilega málfræði varðar og svo má Davíð ekkert gult sjá nema það sé í útlöndum og hann fái ókeypis ferð þangað (hann er staddur í Japan og hittir þar ráðamenn sem eru næstum því ráðherrar, ráðherrarnir eru of uppteknir til að heilsa upp á sveitavarginn).

Uncategorized

Útlitið blekkir

Titill dagsins helgast af því hvernig komið er fram við mann í umferðinni eftir að maður yngdi upp ökutækjakostinn. Toyotan sem er nú okkar þarfasti þjónn er með veglegri vindskeið (spoiler) að aftan og bíllinn hinn rennilegasti. Mér finnst núna bera á því að ökumenn annara bíla með vindskeiðar (oft í yngri kantinum) séu eitthvað að vilja fara í meting við mig þegar við erum stopp á ljósum og botna allt til að komast örugglega fram úr mér.

Þeim er það guðvelkomið því ekki ætla ég að keyra Sæbrautina (keyri hana minnst tvisvar á dag og oft tíðar) á 100 eða yfir. Ég fer ekki einu sinni upp í 90. Mín langa reynsla af Sæbrautinni segir mér að 65 km hraði frá grænum ljósum þýðir að maður lendir á grænum ljósum ALLA Sæbrautina. Þess vegna verð ég að hrista hausinn yfir öpunum sem að botna bílana bara til að bíða svo á næstu ljósum eftir að ég fari framúr. Þá botna þeir auðvitað aftur til að komast fram úr og lenda á rauðu og sagan endurtekur sig.

Held að maður ætti að fara að taka niður númer þessara bíla, fletta upp eigendum og heilsa upp á fólkið með kort af Sæbrautinni og útskýra fyrir þeim hvernig þetta virkar. Kannski ég sýni þeim líka þessa glærusýningu sem sýnir hvernig glæsileg ung kona eyðilagðist hrikalega í bílslysi. Nota bene: verulega viðbjóðslegt en svona er lífið, það er fúlasta alvara.

Hraði drepur eða örkumlar, aðeins vitleysingar keyra á ofsahraða annar staðar en á tilhlýðilegri keppnisbraut. Það þarf ekki að nefna það að keyra undir áhrifum efna, reykjandi, fálmandi undir sæti eða önnur brot gegn samborgurum (þeir eru í lífshættu vegna fíflaláta þessa aðila).

Í dag var fyrsti tíminn í ræktinni, fituprósentan orðin… nokkuð há. Tók nokkrar æfingar, mesti tíminn fór í að búa til áætlun og kenna mér á tölvukerfið í Sporthúsinu. Búinn að vera mjög sprækur í allan dag eftir þetta þó litla púl.

Gleymdi í gær að minnast á þetta myndband (í stærri kantinum, 3 MB). Fótboltamyndband sem allir kvenmenn ættu að dýrka, ekki bara fótboltastelpurnar, kvenmenn sem þola ekki fótbolta ættu sérstaklega að líta á þetta.

Uncategorized

Ár ofurmennisins

Þetta ár verður þéttpakkað! Í ár ætla ég að:

  • taka skólann af fúlustu alvöru (loksins)
  • vinna 60 – 80% með náminu
  • komast í sama líkamlega horf og ég var í fyrir fimm árum
  • koma WFO á fulla ferð
  • hitta vinina oftar en í fyrra
  • Til þess að þetta takist verð ég að vera ofursamviskusamur og ofurduglegur. Aðalmálið er að springa ekki á þessu heldur koma upp áætlun og standa við hana. Ekki eyða nema í mesta lagi einum degi per mánuð í vitleysu, hina dagana er það lærdómur og líkamsrækt sem að ráða öllu.

    Keypti í dag árskort í Sporthúsinu sem er í gömlu tennishöllinni þar sem ég forðum daga lék fótbolta (og tók eina skriðtæklingu sem að brenndi stóran hluta af mér). Í þriðja sinn sem ég kaupi árskort, mætti samtals sjö sinnum í World Class og Hreyfingu.

    Vigtin og fallið um jólin hafa kveikt í mér, keppnismaðurinn er kominn í gang og eins og vinir mínir vita þá er betra að vera ekki maðurinn með boltann í hinu liðinu þegar það gerist. Ég er Ofurmennið!

    Já. Eitt takmarkið er að vera flottur í gömlu jakkafötunum um jólin, þetta er langtímaplan, ef ég held þetta ár út þá held ég að ég verði flottur næstu áratugina þegar álagið minnkar og duglegheitin komin í vana.

    Þá að öðrum málum.

    Eftir því sem að dreifikerfi farsíma og önnur þráðlaus net breiða úr sér þarf sífellt fleiri og betri loftnet til að tryggja gott samband. Frétt í Wired greinir frá því að menn eru farnir að dulbúa loftnetin til að þau stingi ekki illa í stúf, í þessari frétt má lesa meira um þetta sem og sjá 7 merkilegar myndir. Platið í gömlu njósnamyndunum orðinn raunveruleiki.

    Stóru kallarnir í Bandaríkjunum hafa náð samkomulagi um rétt neytenda varðandi höfundarrétt, neytendur fengu að sjálfsögðu ekki að leggja orð í belg. Stóru kallarnir voru æstir í að ná samkomulagi til að þingið færi ekki að skoða málin betur. Vondar fréttir fyrir neytendur vestra og líklega alls staðar, meira um það á Wired.

    Uncategorized

    Sólarhringnum náð

    Vippuðum okkur framúr rétt rúmlega 7 í morgun. Sólarhringurinn var að verða tæpur hjá okkur en núna ætti þetta allt að vera að koma.

    Foreldrar geta nú leitað aðstoðar Barbie við uppeldið, hún svarar í símann og getur hvatt börn til þess að vera góð við systkyni sín, taka til eða fara snemma að sofa.

    Man ekki hvort ég minntist um daginn á þetta túristatrikk sem bærinn Sápuvatn (Soap Lake) er að íhuga. Planið er sumsé að athuga hvort að einhverjir fáist til að kaupa sig inn í það fyrirtæki að reisa 20 metra háan hraunlampa, áhugasamir geta litið á vefsíðuna.

    Uncategorized

    Duglegheit halda áfram

    Hlustað á fyrirlestra og bækur lesnar. Engin miskunn þessa önn.

    Uglurnar voru nú að missa sinn aðalmarkaskorarar, Hollendingurinn Gerald Sibon var að fara heim til Hollands, gengur þar til liðs við Heerenveen. Kaupverðið er talið vera hálf milljón punda og að auki sparast svipuð upphæð út tímabilið vegna launa sem ella hefði þurft að greiða honum. Þetta gerir baráttuna fyrir sæti í 1. deildinni enn erfiðari en ella.

    Ef að konur væru hestar væru kannski meiri líkur á að misyndismenn þyrftu að sitja inni í nokkur ár. Konur greinilega sífellt að verða verðminni en hestar miðað við gjaldskrár dómstólanna.

    Áhugaverðir þessir velferðarsjúkdómar!

    Uncategorized

    Snjókast

    Stefan Schwarz (sænskur landsliðsmaður í knattspyrnu) var að lenda í klandri í Englandi. Einhverjir óþekktarpjakkar hentu snjóboltum í bíl hans og hann stökk þá bara út og á eftir þeim. Einn pjakkurinn ökklabraut sig á flóttanum og nú lítur út fyrir að Schwarz gæti verið ákærður. Ég er á hans bandi í þessu máli, snjókast í eignir annara geta valdið tjóni, hvað þá ef kastað er í bíl á ferð, bílstjóra getur auðveldlega fipast og stórslys getur orðið úr þessu. Rassskella ökklabrotna kjánann fyrir aulaskapinn! Foreldrar ættu að brýna þetta fyrir börnum sínum, það er þó auðvitað langt í frá trygging fyrir betri hegðun barna. Hvað ætli lagasmiðurinn Pétur Blöndal segi… lög gegn snjókasti?

    Frá Bandaríkjunum er það helst að frétta að stóri bróðir seilist æ lengra, nú eru allir erlendir námsmenn undir reglulegu eftirliti skólayfirvalda og eftirlitsstofnanna.