Í dag var slökkvitæki sett inn í sjónvarpið okkar. Við erum við öllu búin alls staðar.
Setti upp RealOne Player í gær og þegar ég opnaði hann í dag þá birtust skilaboð um að það væri eitthvað í innhólfinu. Þar beið mín listi yfir 10 vinsælustu myndbönd ársins 2002 samkvæmt Real.com. Þar var efst á lista myndband sem var tekið við gerð “Swimsuit edition” af Sports Illustrated blaðinu. Þessi útgáfa kemur út einu sinni á ári og selst í gríðarlegu magni. Þarna má sjá stelpur sem hafa hvorki rass né mjaðmir sitja eða liggja í óþægilegum stellingum afar fýldar á svip á meðan að ljósmyndarar skipa þeim að hreyfa rassinn, fara í bólakaf, fikta í hári þeirra eða hvað allt þetta er. Ef þetta fær ekki sumar stúlkur til að hætta við fyrirsætudraumana veit ég ekki hvað, þetta virðist vera hrikalega leiðinlegt starf ef að marka má svipinn á spýtustúlkunum sem fötin eru hengd á til sýnis.
Viltu leggja þitt af mörkum til að bæta heiminn? Tékkaðu á idealist.org. Það er ekki til auvirðulegra fólk en það sem hugsar aðeins um sjálft sig þó það hafi efni á (peninga eða bara tíma) að leggja sitt af mörkum (er mín mjög svo persónulega skoðun). Mín lífsspeki er sú að reyna að skila heiminum af mér betri en þegar ég kom í hann, þó það sem ég skil eftir mig sé ekki nema nanóbrot af því sem þarf þá er það skref í rétta átt. Ef að allir eru með svipaðan hugsunarhátt þá safnast nanóbrotin saman og fara að skipta verulegu máli.
Íslenskir reykingamenn ættu kannski að apa þetta eftir?
Það eru kosningar í nánd víðar en hér á landi. Ísraelsmenn (jæja… Ísraelar af gyðingaættum, fæstir arabískir Ísraelsmenn fá eða munu vilja taka þátt) ganga brátt að kjörborðinu. Maður einn setti konu sinni stólinn fyrir dyrnar og sagðist skilja við hana ef hún kysi gegn hans vilja, þau leituðu til sinna trúarleiðtoga og þeir kváðu upp þann dóm að hún ætti bara að sitja heima til að bjarga hjónabandinu.
Svona rétt í lokin fyrir tískufólkið þá er hægt að sjá nokkra stjörnukjóla hjá meisturum slúðursins (Mogginn telst ekki með).