Útlitið blekkir

Titill dagsins helgast af því hvernig komið er fram við mann í umferðinni eftir að maður yngdi upp ökutækjakostinn. Toyotan sem er nú okkar þarfasti þjónn er með veglegri vindskeið (spoiler) að aftan og bíllinn hinn rennilegasti. Mér finnst núna bera á því að ökumenn annara bíla með vindskeiðar (oft í yngri kantinum) séu eitthvað að vilja fara í meting við mig þegar við erum stopp á ljósum og botna allt til að komast örugglega fram úr mér.

Þeim er það guðvelkomið því ekki ætla ég að keyra Sæbrautina (keyri hana minnst tvisvar á dag og oft tíðar) á 100 eða yfir. Ég fer ekki einu sinni upp í 90. Mín langa reynsla af Sæbrautinni segir mér að 65 km hraði frá grænum ljósum þýðir að maður lendir á grænum ljósum ALLA Sæbrautina. Þess vegna verð ég að hrista hausinn yfir öpunum sem að botna bílana bara til að bíða svo á næstu ljósum eftir að ég fari framúr. Þá botna þeir auðvitað aftur til að komast fram úr og lenda á rauðu og sagan endurtekur sig.

Held að maður ætti að fara að taka niður númer þessara bíla, fletta upp eigendum og heilsa upp á fólkið með kort af Sæbrautinni og útskýra fyrir þeim hvernig þetta virkar. Kannski ég sýni þeim líka þessa glærusýningu sem sýnir hvernig glæsileg ung kona eyðilagðist hrikalega í bílslysi. Nota bene: verulega viðbjóðslegt en svona er lífið, það er fúlasta alvara.

Hraði drepur eða örkumlar, aðeins vitleysingar keyra á ofsahraða annar staðar en á tilhlýðilegri keppnisbraut. Það þarf ekki að nefna það að keyra undir áhrifum efna, reykjandi, fálmandi undir sæti eða önnur brot gegn samborgurum (þeir eru í lífshættu vegna fíflaláta þessa aðila).

Í dag var fyrsti tíminn í ræktinni, fituprósentan orðin… nokkuð há. Tók nokkrar æfingar, mesti tíminn fór í að búa til áætlun og kenna mér á tölvukerfið í Sporthúsinu. Búinn að vera mjög sprækur í allan dag eftir þetta þó litla púl.

Gleymdi í gær að minnast á þetta myndband (í stærri kantinum, 3 MB). Fótboltamyndband sem allir kvenmenn ættu að dýrka, ekki bara fótboltastelpurnar, kvenmenn sem þola ekki fótbolta ættu sérstaklega að líta á þetta.

Comments are closed.