Ár ofurmennisins

Þetta ár verður þéttpakkað! Í ár ætla ég að:

  • taka skólann af fúlustu alvöru (loksins)
  • vinna 60 – 80% með náminu
  • komast í sama líkamlega horf og ég var í fyrir fimm árum
  • koma WFO á fulla ferð
  • hitta vinina oftar en í fyrra
  • Til þess að þetta takist verð ég að vera ofursamviskusamur og ofurduglegur. Aðalmálið er að springa ekki á þessu heldur koma upp áætlun og standa við hana. Ekki eyða nema í mesta lagi einum degi per mánuð í vitleysu, hina dagana er það lærdómur og líkamsrækt sem að ráða öllu.

    Keypti í dag árskort í Sporthúsinu sem er í gömlu tennishöllinni þar sem ég forðum daga lék fótbolta (og tók eina skriðtæklingu sem að brenndi stóran hluta af mér). Í þriðja sinn sem ég kaupi árskort, mætti samtals sjö sinnum í World Class og Hreyfingu.

    Vigtin og fallið um jólin hafa kveikt í mér, keppnismaðurinn er kominn í gang og eins og vinir mínir vita þá er betra að vera ekki maðurinn með boltann í hinu liðinu þegar það gerist. Ég er Ofurmennið!

    Já. Eitt takmarkið er að vera flottur í gömlu jakkafötunum um jólin, þetta er langtímaplan, ef ég held þetta ár út þá held ég að ég verði flottur næstu áratugina þegar álagið minnkar og duglegheitin komin í vana.

    Þá að öðrum málum.

    Eftir því sem að dreifikerfi farsíma og önnur þráðlaus net breiða úr sér þarf sífellt fleiri og betri loftnet til að tryggja gott samband. Frétt í Wired greinir frá því að menn eru farnir að dulbúa loftnetin til að þau stingi ekki illa í stúf, í þessari frétt má lesa meira um þetta sem og sjá 7 merkilegar myndir. Platið í gömlu njósnamyndunum orðinn raunveruleiki.

    Stóru kallarnir í Bandaríkjunum hafa náð samkomulagi um rétt neytenda varðandi höfundarrétt, neytendur fengu að sjálfsögðu ekki að leggja orð í belg. Stóru kallarnir voru æstir í að ná samkomulagi til að þingið færi ekki að skoða málin betur. Vondar fréttir fyrir neytendur vestra og líklega alls staðar, meira um það á Wired.

    Comments are closed.