Monthly Archives: April 2002

Molasykur

Liðugi kjálkinn

Tannlæknirinn í Þingholtsstræti sagði mér að þetta væri nú bara tognun sem er að há mér í kjálkanum. Mælti með tveim æfingum, opna og loka munninum með tungubroddinn í efri gómi (svo ég opni ekki of mikið), og söngla mmmmm (þá slaknar svo vel í kjálkanum). Þannig að ef ég er einhvers staðar sönglandi mmmmm þá er það ekki af trúarástæðum, og ef ég er að opna og loka munninum ótt og títt án þess að ég sé að tala, þá er það ekki kækur.

Aðrir sem að verða varir við það að það smelli í kjálkanum ættu að reyna þessar æfingar og reyna að slaka á í kjálkunum, passa upp á stellinguna þegar setið er, þegar hausinn lútir fram (“þú ert bara kominn inn í skjáinn!”) þá reynir kjálkinn að hjálpa hálsvöðvunum og stífnar upp.

Áhugavert:

Uncategorized

Sumardekkin og Flokkurinn

Eftir strembinn vinnudag skaust ég til pabba sem að smeygði sumardekkjunum á gömlu góðu krómfelgunum undir gömlu góðu Mözduna. Ef maður fer vel með það sem maður á, þá á maður það lengi vel, kaupir sér því sjaldnar nýtt og dýrt, og á því fyrir betri hlutum loksins þegar maður kaupir sér það nýja. Bara smá svona lexía í boði 15 ára gömlu Mözdunnar og 12 ára gömlu krómfelganna.

Einhver Guðmundur Svansson fékk mig til að hlæja að sér á Deiglunni í þessari grein, þar sem mér sýnist að hann vilji sparka manni úr stjórn félags fyrir að láta uppi skoðanir sínar. Austantjaldstalsmátinn um Flokkinn er svo annar hlutur sem að beygir munnvikin upp á við. Heittrúardæmið sem að Guðmundur er að hneykslast yfir hittir hann sjálfan beint í mark, maðurinn sem hann er að agnúast útí er eldheitur frjálshyggjumaður (naumhyggjumaður?) en Guðmundur er eldheitur sjálfstæðisflokksmaður og setur flokkinn auðvitað ofar öðru. Deiglan er mjög skondin þessar vikurnar.

Sem fyrrverandi félagsmaður (og stjórnarmaður og nefndarmaður og gvuðveithvað) í Flokknum (sýnist þetta vera orðinn viðurkenndur ritmáti núna nýlega) þá leyfi ég mér að brosa að þessu öllu saman. Ég veit að minnsta kosti hvaða framboð ég mun ekki kjósa á Eurovision-daginn, í mínu gamla sveitarfélagi fengi Flokkurinn kannski atkvæði mitt, en ekki í Reykjavík.

Uncategorized

Leðursamband

Við Sigurrós eigum 3 ára sambandsafmæli í dag, 3 ár síðan að ég var fastur í brosi allan vinnudaginn (var orðinn þvílíkt þreyttur um hádegi í andlitinu en gat bara ekki þurrkað brosið af mér) áður en ég sótti hana og fór með henni á Bug’s Life í Sambíóunum Álfabakka. Eftir það skruppum við heim til hennar þar sem mamma hennar var að baka kleinur, svo á Aktu Taktu til að fá hamborgara (þetta er þegar að þeir voru vel ætir hjá þeim) og fórum að því loknu í bíltúr um æskustöðvar mínar áður en við fórum svo heim til mín. Þar réðst Sigurrós á mig og tryggði það að ég væri hennar það sem eftir væri. Þessi álitlegi karlkostur sem ég er var því snögglega gripinn, að sjálfsögðu!.

3 ára brúðkaupsafmæli er víst leðurbrúðkaup. Það hljómar ótrúlega skemmtilega kinky! Við erum hins vegar ekki tæknilega gift, þannig að við skulum bara kalla þetta 3 ára leðursamband (sem hljómar ekki minna kinky!).

Héldum hóflega upp á þetta, pöntuðum okkur Pizza Hut flatböku og brauðstangir og hlógum að vitleysingunum í Survivor 4. Höldum upp á þetta bara í íbúðinni okkar í júní.

Amma er 69 ára í dag, það er alger tilviljun að við skötuhjúin byrjuðum saman á afmælisdeginum hennar.

Áhugavert:

  • Þetta finnst mér sniðugt, kosið meðal annars í stórmarkaðinum (power to the people)
  • Uncategorized

    Matarboð hjá ömmu

    Amma bauð í matarboð í kvöld, verður 69 ára á morgun. Sá þar minn fyrsta “Viltu vinna milljón!” þátt, fannst frekar þunnur pappír, en þetta væri líklega leiðinlegt (og gerði bágri fjárhagsstöðu Norðurljósa enga greiða) ef að eintómt Gettu Betur fólk væri í þessu. Frændur mínir um fertugt komu þarna eftir boltaspark, sjálfur er ég 26 ára kiðlingurinn búinn að leggja skóna á hilluna. Lífið er kaldlynd skepna.

    Uppfærði laptop Sigurrósar aftur í Windows 2000, núna þegar að kominn er service pack frá Microsoft sem að lagar villuna sem varð til þess að við urðum að henda W2K út upphaflega, þá er ekkert vit í öðru en að vera ekki með Windows 98 á henni.

    Uncategorized

    Lærdómslestur

    Búinn að vera óvenju duglegur við lærdómslestur í dag, hálfnaður með lestrarefnið í MFC-bókinni, klára rest á morgun og svo eru það glærurnar sem eru eftir (þúsundir.. í fúlustu alvöru).

    Var í dag að reyna að taka til í PHP-kóðanum, skipunin mysql_db_query er núna orðin úrelt og því ætlaði ég að skipta henni út fyrir mysql_query (sem er ekki úrelt.. ennþá..). Fór í leitina í þessu blessaða WinXP, en nú brá svo við að ekkert fannst, þó ég vissi af allmörgum skrám sem að hefðu þetta í sér. Eftir smá athugun þá virðist sem að leitin leiti ekki í vefskrám, það er ef að orðið sem leitar er að er innan <? ?>(PHP) eða <% %>(ASP) þá hreinlega sé það ekki tekið gilt. Eftir smá leit að ókeypis leitarforriti sem að væri ekki svona treggáfað fann ég frekar ljótt forrit en það þrælvirkar, heitir því frumlega nafni Search. Mæli með því.

    Uncategorized

    Falin myndavél?

    Pabbi hringdi í mig áðan og sagði að ég hefði verið einskonar statisti í falinni myndavél á PoppTíVí. Verið að gera grín að einhverjum mæðgum sem að var verið að afgreiða á undan mér. Mig rámar ekkert í neitt eins og pabbi lýsti aðstæðum, en kallinn ætti víst að þekkja mann ef hann sæi mig á mynd.

    Byrjaði að lesa í MFC-fræðunum áðan, og eins og venjulega þá er ég farinn að dotta í fyrsta kafla… Vika í prófið!

    Áhugavert:

  • Porn filter trials
  • Uncategorized

    Síðasti kennsludagurinn

    Vöknuðum í gærmorgun klukkan hálfsjö við skelfilegasta ískur sem við höfum heyrt. Ruslabíllinn var greinilega á ferðinni, og virtist hafa misst af smurningu síðustu 3 ára. Ískrið ómaði um hverfið í hvert sinn sem tunnu var lyft til tæmingar, þetta varði örugglega í 10 mínútur áður en þeir voru farnir nógu langt í burtu til að svefnfriður næðist.

    Í dag var síðasti kennsludagurinn, núna er vika í próf og strax eftir þau tekur lokaverkefnið við, þriggja vikna stíf törn.

    Uncategorized

    Varnarvinna

    Í morgun vörðum við skilaverkefnið okkar, 25 mínútna túr um forritið okkar, vefinn og svo aðeins rennt yfir kóðann til að sýna flottheit hans.

    Björgvin er víst hættur að blogga, hvaða leiksviði hann er hættur að leika á veit ég ekki? Ætli við sjáum ekki dagbækurnar okkar mismunandi augum.

    Áhugavert:

  • Eitt lífshættulega bilað gen? Ekki vandamál!
  • Uncategorized

    Háseti á sjó

    Þá er Daði bróðir orðinn háseti á sjó og farinn í sinn fyrsta túr.

    Bíllinn var farinn að skrika undarlega til á götunum, þar sem ég hef ekki smakkað áfengi í líklega 3 mánuði þá var ég stikkfrír í þessu máli. Skrapp til pabba og þá kom í ljós að annað framdekkið var orðið ónýtt, snarlega skipt um það og nú erum við Mazdan aftur í góða gírnum.

    Áhugavert:

  • Alvöru hvalveiðar brátt?
  • Ódýr mannslíf í Hollandi
  • Uncategorized

    Aprílgöbb og 2 milljónir

    Ef að fjölmiðlar legðu almennt jafn mikla vinnu í fréttamennsku og þeir virðast leggja í aprílgöbb þá værum við kannski með alvöru fjölmiðla hér á landi?

    Sjálfum finnst mér 1. apríl-dæmið einstaklega fáránlegt, en það er víst til fullt af fólki sem finnst fátt sniðugra. Þeim sem telja mig vera fúlan á móti vegna þessa, er bent á að skrá sig á hlátursnámskeið hjá mér, enda vel þekkt að fáir séu meiri brandarakallar á vinnustað en ég.

    Nei, ég féll ekki fyrir neinu aprílgabbi.

    Var núna að enda við að borga 2 milljónir króna. Þetta er önnur greiðslan af þremur vegna nýja heimilisins okkar sem aðeins 2 mánuðir eru í.