Sumardekkin og Flokkurinn

Eftir strembinn vinnudag skaust ég til pabba sem að smeygði sumardekkjunum á gömlu góðu krómfelgunum undir gömlu góðu Mözduna. Ef maður fer vel með það sem maður á, þá á maður það lengi vel, kaupir sér því sjaldnar nýtt og dýrt, og á því fyrir betri hlutum loksins þegar maður kaupir sér það nýja. Bara smá svona lexía í boði 15 ára gömlu Mözdunnar og 12 ára gömlu krómfelganna.

Einhver Guðmundur Svansson fékk mig til að hlæja að sér á Deiglunni í þessari grein, þar sem mér sýnist að hann vilji sparka manni úr stjórn félags fyrir að láta uppi skoðanir sínar. Austantjaldstalsmátinn um Flokkinn er svo annar hlutur sem að beygir munnvikin upp á við. Heittrúardæmið sem að Guðmundur er að hneykslast yfir hittir hann sjálfan beint í mark, maðurinn sem hann er að agnúast útí er eldheitur frjálshyggjumaður (naumhyggjumaður?) en Guðmundur er eldheitur sjálfstæðisflokksmaður og setur flokkinn auðvitað ofar öðru. Deiglan er mjög skondin þessar vikurnar.

Sem fyrrverandi félagsmaður (og stjórnarmaður og nefndarmaður og gvuðveithvað) í Flokknum (sýnist þetta vera orðinn viðurkenndur ritmáti núna nýlega) þá leyfi ég mér að brosa að þessu öllu saman. Ég veit að minnsta kosti hvaða framboð ég mun ekki kjósa á Eurovision-daginn, í mínu gamla sveitarfélagi fengi Flokkurinn kannski atkvæði mitt, en ekki í Reykjavík.

Comments are closed.