Monthly Archives: September 2001

Molasykur

Parlez vouz français?

Oui. Vonast að minnsta kosti til þess að vera orðinn slarkfær í henni árið 2002. Í Frakklandi skildi ég þó nokkuð af þeim samræðum sem fóru fram í kringum mig, en margt fór fyrir ofan garð og neðan, og mér var að auki fyrirmunað að tjá mig á málinu. Í dag skráði ég mig því á frönskunámskeið hjá Námsflokkum Reykjavíkur, að auki á ég svona “Achieve French fluency now” margmiðlunarnámsefni (4 geisladiskar með fyrirlestrum, sýnidæmum, prófum og framburðarkennslu). Plús það að vera með konu sem er reiprennandi, þannig að ég er vongóður um að geta babblað að minnsta kosti eitthvað að loknu námskeiðinu.

Molasykur

Vegaför

Vorum að spöglera að fara á Apaplánetuna (endurgerðina) í bíó, en eftir að hafa borið saman bækur um þá dóma sem hún hefur fengið, ákváðum við að eyða ekki 1600 kr. eða meira í enn eina sálarlausa hýpermyndina frá Hollywood. Ætluðum að taka þá State & Main eða Chocolat á vídeó, sú fyrri var ekki inni og sú síðari ekki komin. Enduðum á að taka Road Trip, þar sem við vorum í stuði fyrir gamanmynd. Hún kom skemmtilega á óvart og fær mín meðmæli sem grínmynd sem hægt er að hlæja að.

Samfélagsvirkni

Eilíft peningaplokk

Ekki ætlum við að læra að gera hlutina almennilega. Renndi yfir með öðru auganu yfir hvað var að finna á þessari blessuðu heimilissýningu í Laugardalnum, og sýndist þetta vera frekar klént, og ekki þúsund króna virði.

Aðrir heimilismeðlimir renndu hins vegar við þar með ungviðið í fararbroddi, og sögurnar frá þeim staðfestu þetta mat mitt. Tívolítækin sem fjallað var um voru víst ekki innifalin í aðgangseyrinum, heldur kostaði spes í hvert tæki. Í Fjölskyldugarðinum (sem var innifalinn í aðgangseyrinum) var svo minnst um að vera, sjoppan lokuð og því ekkert ætt að fá, auk þess sem að salerni voru öll lokuð og fólki bent á að hlaupa yfir á kaffihúsið sem er smá spöl frá garðinum. Til fyrirmyndar? Ónei.

Fótbolti

Stórhættulegt

Kynlíf er sko mun hættulegra en tölvuleikir, hvað sem uppeldissálfræðingar segja, sjáið bara þessar köldu staðreyndir að 616 manns hafa látist vegna notkun Viagra, á móti einum sem dó í Counter-Strike

Alien Ant Farm komu mér skemmtilega á óvart á MTV með þeirra útfærslu á Smooth Criminal, mun betri en Michael Jacksons.

Var að horfa á Eurosport, fínn leikur hjá Ali Daei, Íran unnu Írak 2-1 á útivelli. Merkilegast fannst mér hvað allir Írakarnir voru lágvaxnir, en Íranirnir flestir vel stórir.

Tónlist

Heimkoma

Við heimkomuna biðu Ragna og Haukur eftir okkur og keyrðu okkur heim. Við sváfum svo út, en Sigurrós mætti í tíma eftir hádegi. Hún hafði misst af 3 fyrstu skóladögunum (og tíma í morgun) en það gerði lítið til.

Þetta var skemmtileg ferð, en það er alltaf gaman að komast heim í kunnuglegt umhverfi þar sem maður skilur hvernig hlutirnir virka og er vanur þeim.

Myndir verður svo hægt að finna hjá Sigurrós í náinni framtíð.

Í fríhöfninni á leiðinni út keypti ég mér 3 geisladiska, þeir voru Generalisation frá Midfield General, Rooty frá Basement Jaxx og Feng Shui frá Q-Burns Abstract Message.

Diskarnir voru fínir, á Feng Shui var reyndar lagið Á.S.T. sem mér fannst skelfilega leiðinlegt lag, og Daníel Ágúst að gera vonda hluti í því.

Eftir ársleit hef ég ákveðið að gefast upp á að finna fyrsta House of Pain diskinn, sem að gufaði upp. Pantaði nú annað eintak af honum á netinu, þetta var fyrsti diskurinn sem að ég eignaðist eftir þungarokksskeiðið (átti Iron Maiden, Artch og Metallicu diska.. löngu horfnir nú) og varð kveikjan að myndarlegu safni mínu.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 10

Kjúklingur í hádegismatinn og súkkulaðikaka í eftirrétt. Veðrið þokkalegt, sæmilega hlýtt og sól. Skruppum í Grand Place af því að Sigurrós bara varð að fá þennan leðurjakka sem hún sá á degi 4 þegar við komum hingað síðast. Því næst var bara haldið á lestarstöðina hérna í Grenoble og þar kvöddum við Jean með virktum.

Eftir 70 mínútna bið kom svo TGV-hraðlestin okkar á stöðina og við flýttum okkur að finna sætin okkar. Sigurrós hafði reynt að fara á gjaldklósett á lestarstöðinni en þar vantaði klósettpappír og allt frekar ógeðfellt. Í lestinni var svo sama uppi á teningnum og í fyrra skiptið, það var slökkt á vatninu á salernunum og því varð það frekar ógeðfellt þegar á leið ferðina. Ótrúlega fáránlegt dæmi, þetta var nú ekki svona slappt 1998 þegar við félagarnir vorum hérna á HM. Að auki var kortalesarinn í matsölunni bilaður og við vorum búinn að eyða mestu af gjaldeyrinum þannig að við fengum aðeins eitt lítið Toblerone þar, sem við vorum ekki lengi að klára.

Þegar til Parísar var komið vorum við stödd á Gare de Lyon-lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur miða á Orly-flugvöll. Við sumsé tókum RER A (RER eru hrað-metro lestir, sem stöðva á færri stöðvum)frá Gare de Lyon í áttina að St. Germain en fórum út á Chatelet les Halles. Þar tókum við RER B í áttina að Antony, og fórum þar út. Þar komumst við svo í sérstaka hraðlest (Orly Val) sem fer eingöngu á milli þessarar lestarstöðvar og Orly-flugvallar.

Á Orly-flugvelli vorum við svo snögg á salernin og svo að innrita okkur, röðin í innritun var mjög stutt en þegar að við vorum að ganga burtu til að fá okkur að borða mættum við um 150 manna hópi Íslendinga, þar var á ferð hjónaklúbbur sem að fer árlega í svona fjöldaferð. Við vorum mjög fegin að hafa verið á undan þeim í innritunina, röðin sem myndaðist hlykkjaðist um stöðina nærri endilanga.

Okkur til undrunar sáum við að nú var búið að loka salernunum, heljarinnar járngrind nú komin fyrir, þarna höfðum við líka sloppið naumlega. Nú fórum við að leita okkur að æti og ekki gekk það mjög vel, eini veitingastaðurinn á svæðinu var með eitthvað sem okkur leist ekkert of vel á, barnaskammturinn leit ágætlega út, nokkrir kjúklingabitar og franskar, eitthvað sem við gátum vel hugsað okkur. Hins vegar var okkur neitað um hann, þar sem einungis börn mættu panta hann. Því kunnum við illa og héldum því för okkar áfram. Sjoppurnar voru nokkrar þarna, en þar var allt orðið galtómt, á endanum fengum við okkur tvær Oranginur og eina samloku, allt annað virtist vera búið. Nokkrum mínútum seinna lokuðu svo sjoppurnar, greinilegt að allt hætti þarna á slaginu 22:00, sem að okkur finnst undarlegt á svona alþjóðlegum flugvelli.

Síðasti viðkomustaður okkar á franskri grund var svo bóksalan í flugstöðinni, þar urðum við að kaupa fyrir lágmark 60 franka til að geta borgað með kreditkorti og keyptum við okkur einhver sætindi til að hafa í vélinni, National Geographic og teiknimyndabók á frönsku til að lesa.

Á meðan að við biðum svo eftir að vera kölluð í vélina sáum við svo þó nokkuð marga meðlima þessa ferðahóps lifa sig inn í gömlu íslensku utanferðastemmninguna, vodka- og viskípelar teknir upp og fólk staupaði sig fyrir flugið, eins og það hefur gert síðastliðin 40 ár (þetta var allt miðaldra fólk og eldra).

Í vélinni mátti svo heyra fylleríslætin í gömlu köllunum og kellingunum, á meðan að yngra fólkið var prúðmannlegt og kunni sig.

Gömlum hundum er víst erfitt að kenna að sitja.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 9

22°C og hálfskýjað.

Hádegismaturinn var quiche með skinku, ágætismatur en fengum smá brjóstsviða af honum.

Héldum út fyrir Grenoble og komum eftir smá akstur að Chartreuse-klaustrinu, reyndar safni þess. Chartreuse-klaustursreglan er ein sú stærsta í heiminum víst, og í safninu fengum við að sjá sögu hennar og upplýsingar um nunnur þess og munka.

Aðalklaustur reglunnar er rúmlega kílómeter fyrir ofan safnið, og almenningur má aðeins fara þangað fótgangandi. Við töltum því upp nokkuð bratta brekkuna að klaustrinu, þar er almenningi hins vegar bannaður aðgangur og eftir stutt stopp þar héldum við því aftur til baka.

Chartreuse-munkarnir hafa víst bruggað elixír síðan á 15. öld eða svo, og við héldum því til bæjarins Voiron í nágrenninu þar sem brugghús þeirra er staðsett. Klukkan var hins vegar orðin það mikið þegar að við komum þangað að við gátum ekki tekið túr um það.

Kvöldmaturinn var nú í boði okkar, við héldum á veitingastaðinn Rustique Auberge sem að við Sigurrós höfðum farið á áður, hún reyndar nokkuð oftar. Fyrir 10.000 krónur fengum við þríréttaðan veislumat og fínt rauðvín með. Eitthvað hefði þetta kostað mun meira hér heima.

Þegar heim var komið bauð Jean okkur upp á þennan elixír munkanna, hann átti víst flösku með honum, og reyndist þetta vera eitthvað það versta áfengi sem ég hef smakkað, nokkurs konar furunálavodki. Það eru víst um 100 mismunandi plöntur notaðar í þennan drykk, en ég hef sterkan grun um að furunálar séu mikill meirihluti hráefnis.

Því næst kvöddum við Zouzsu, hún þurfti að vakna snemma til vinnu næsta morgun og þar sem þetta var síðasta nóttin okkar myndum við ekki hitta hana aftur í bráð.

Ég kláraði svo Blue Mars, síðustu bókina í Mars-trílógíunni fyrir háttinn.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 8

Fínt veður, sól og 23°C hiti. Fórum í gönguferð um Jarrie og skoðuðum okkur aðeins um, heimsóttum svo nágranna sem að Sigurrós hafði átt í miklum samskiptum við þegar hún var au-pair í næsta húsi. Þau buðu okkur að nota sundlaugina þeirra, nema hvað að hún var íííísköld, 18°C sem er frekar kalt. Við gengum því niður mikla brekku í steikjandi sól og komum loksins að sundlauginni. Okkur til ótrúlegrar skelfingar var hún hins vegar lokuð, þarna var eitthvað starfsfólk að njóta sólarinnar í sólstólum og það tjáði okkur að síðasti dagurinn hefði verið daginn áður, nú væri sundlaugin lokuð fram til næsta sumars. Sundlaugatímabilið væri búið! Okkur Íslendingunum fannst þetta auðvitað eitthvað það ótrúlegasta sem við höfðum heyrt, sundlaugar lokaðar á veturna!

Við fengum að hringja hjá þeim til Jean svo hann gæti sótt okkur, og keyptum okkur tvo íspinna til að kæla okkur niður, ég var sjálfur alveg að deyja enda þoli ég mikla sól og mikinn hita mjög takmarkað. Síminn var fyrir framan sundlaugina sjálfa og þarna sáum við hana, vatn í henni og allt var svo heiðblátt og heillandi að það var freistandi að hoppa bara útí. Við gátum grátið að vera að deyja úr hita en fá ekki að fara í þessa æðislegu sundlaug.

Þegar heim var komið var farið í sturtu til þess aðeins að kæla sig niður. Kvöldmaturinn var svo kartöfluréttur með rjóma, ekki heldur eitt af uppáhöldunum okkar en annað var ekki í boði.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 7

Sól og 23°C hiti og nú var lagt í mikið ferðalag. Fyrst var þó borðaður hádegismatur, sem nú var brokkólíréttur, ekki alveg uppáhaldsgrænmetið mitt en ég náði nú að fá einhverja næringu.

Svo var haldið í átt að Járnkrossskarði sem er í næstu sýslu. Á langri leiðinni fórum við fram hjá miklum stífllum sem að voru í gríðarlöngum dal, merkilegast fannst mér þó að sjá hús í 45°halla á nibbum sem að ég hefði aldrei byggt sjálfur á. Þorp voru á víð og dreif í dalnum, og tré út um allt að sjálfsögðu, sást ekki í grjót neins staðar.

Undir lokin fóru fjöllin aðeins að breyta um svip, um leið og við vorum komin í Savoie-sýslu urðu fjöllin íslenskari, mosi tók við í stað trjánna og mér leið eins og heima. Brátt komum við að stað þar sem að sést í Mont Blanc í gegnum mikinn dal, gaman að sjá fjallið þó að það væri í nokkurra kílómetra fjarlægð. Þarna voru svo nokkrir fallhlífasvifmenn, sem hoppuðu fram af fjallsbjörgum og létu sig svífa í uppstreyminu.

Smá spotta frá komum við svo að áfangastað, Járnkrossskarði (??) hvar við sáum vel yfir mikinn dal og svo byrjun Alpanna handan við hann. Mjög flott útsýni, og þarna komin í 2 km hæð. Ég og Jean skruppum í smá göngutúr niður að nokkrum litlum vötnum sem voru fyrir neðan skarðið, og eitthvað varð maður andstuttur í þessari hæð af áreynslunni. Í Járnkrossskarðsskála (íslenskan er frábær!) fengum við okkur svo heitan kakóbolla áður en haldið var heim á leið.

Þegar heim var komið eftir þessa vel heppnuðu ferð ætluðum við Sigurrós í sundlaugina í Jarrie, en hættum við að ráði Jean.

Kláraði Green Mars.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 6

Leti laugardagur, Nanoo (dóttir Jean og Zsouzsu) og Alexander kærasti hennar kíktu í heimsókn. Grillað í garðskýlinu, peruís (ekki rjómaís, heldur svona glace) og svo tók ég síestu á meðan að allir frönskumælandi spjölluðu saman og spiluðu Memory.

Um kvöldið var svo vináttuleikur Síle og Frakklands (í Síle) sýndur á TV1. Zamorano var þarna að leika sinn síðasta landsleik og sýndi snilli sína á 4. mínútu með því að klobba Desailly og renna boltanum á Galdames sem að gat ekki klikkað, 1-0 fyrir heimamönnum.

Í hálfleik fékk ég svo perutertu með peruís og rauðvín að auki, ekki amalegt það.

Á 50. mínútu skora heimamenn svo skondið marka, Navia á síðustu snertinguna.

Frakkarnir ná svo að klóra aðeins í bakkann á 73. mínútu þegar að Sílemenn skipta um markmann og Trézeguet skorar.

Gaman að sjá Frakkana yfirspilaða af skemmtilegu liði heimamanna.