Frakkland: Dagur 10

Kjúklingur í hádegismatinn og súkkulaðikaka í eftirrétt. Veðrið þokkalegt, sæmilega hlýtt og sól. Skruppum í Grand Place af því að Sigurrós bara varð að fá þennan leðurjakka sem hún sá á degi 4 þegar við komum hingað síðast. Því næst var bara haldið á lestarstöðina hérna í Grenoble og þar kvöddum við Jean með virktum.

Eftir 70 mínútna bið kom svo TGV-hraðlestin okkar á stöðina og við flýttum okkur að finna sætin okkar. Sigurrós hafði reynt að fara á gjaldklósett á lestarstöðinni en þar vantaði klósettpappír og allt frekar ógeðfellt. Í lestinni var svo sama uppi á teningnum og í fyrra skiptið, það var slökkt á vatninu á salernunum og því varð það frekar ógeðfellt þegar á leið ferðina. Ótrúlega fáránlegt dæmi, þetta var nú ekki svona slappt 1998 þegar við félagarnir vorum hérna á HM. Að auki var kortalesarinn í matsölunni bilaður og við vorum búinn að eyða mestu af gjaldeyrinum þannig að við fengum aðeins eitt lítið Toblerone þar, sem við vorum ekki lengi að klára.

Þegar til Parísar var komið vorum við stödd á Gare de Lyon-lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur miða á Orly-flugvöll. Við sumsé tókum RER A (RER eru hrað-metro lestir, sem stöðva á færri stöðvum)frá Gare de Lyon í áttina að St. Germain en fórum út á Chatelet les Halles. Þar tókum við RER B í áttina að Antony, og fórum þar út. Þar komumst við svo í sérstaka hraðlest (Orly Val) sem fer eingöngu á milli þessarar lestarstöðvar og Orly-flugvallar.

Á Orly-flugvelli vorum við svo snögg á salernin og svo að innrita okkur, röðin í innritun var mjög stutt en þegar að við vorum að ganga burtu til að fá okkur að borða mættum við um 150 manna hópi Íslendinga, þar var á ferð hjónaklúbbur sem að fer árlega í svona fjöldaferð. Við vorum mjög fegin að hafa verið á undan þeim í innritunina, röðin sem myndaðist hlykkjaðist um stöðina nærri endilanga.

Okkur til undrunar sáum við að nú var búið að loka salernunum, heljarinnar járngrind nú komin fyrir, þarna höfðum við líka sloppið naumlega. Nú fórum við að leita okkur að æti og ekki gekk það mjög vel, eini veitingastaðurinn á svæðinu var með eitthvað sem okkur leist ekkert of vel á, barnaskammturinn leit ágætlega út, nokkrir kjúklingabitar og franskar, eitthvað sem við gátum vel hugsað okkur. Hins vegar var okkur neitað um hann, þar sem einungis börn mættu panta hann. Því kunnum við illa og héldum því för okkar áfram. Sjoppurnar voru nokkrar þarna, en þar var allt orðið galtómt, á endanum fengum við okkur tvær Oranginur og eina samloku, allt annað virtist vera búið. Nokkrum mínútum seinna lokuðu svo sjoppurnar, greinilegt að allt hætti þarna á slaginu 22:00, sem að okkur finnst undarlegt á svona alþjóðlegum flugvelli.

Síðasti viðkomustaður okkar á franskri grund var svo bóksalan í flugstöðinni, þar urðum við að kaupa fyrir lágmark 60 franka til að geta borgað með kreditkorti og keyptum við okkur einhver sætindi til að hafa í vélinni, National Geographic og teiknimyndabók á frönsku til að lesa.

Á meðan að við biðum svo eftir að vera kölluð í vélina sáum við svo þó nokkuð marga meðlima þessa ferðahóps lifa sig inn í gömlu íslensku utanferðastemmninguna, vodka- og viskípelar teknir upp og fólk staupaði sig fyrir flugið, eins og það hefur gert síðastliðin 40 ár (þetta var allt miðaldra fólk og eldra).

Í vélinni mátti svo heyra fylleríslætin í gömlu köllunum og kellingunum, á meðan að yngra fólkið var prúðmannlegt og kunni sig.

Gömlum hundum er víst erfitt að kenna að sitja.

Comments are closed.