Frakkland: Dagur 8

Fínt veður, sól og 23°C hiti. Fórum í gönguferð um Jarrie og skoðuðum okkur aðeins um, heimsóttum svo nágranna sem að Sigurrós hafði átt í miklum samskiptum við þegar hún var au-pair í næsta húsi. Þau buðu okkur að nota sundlaugina þeirra, nema hvað að hún var íííísköld, 18°C sem er frekar kalt. Við gengum því niður mikla brekku í steikjandi sól og komum loksins að sundlauginni. Okkur til ótrúlegrar skelfingar var hún hins vegar lokuð, þarna var eitthvað starfsfólk að njóta sólarinnar í sólstólum og það tjáði okkur að síðasti dagurinn hefði verið daginn áður, nú væri sundlaugin lokuð fram til næsta sumars. Sundlaugatímabilið væri búið! Okkur Íslendingunum fannst þetta auðvitað eitthvað það ótrúlegasta sem við höfðum heyrt, sundlaugar lokaðar á veturna!

Við fengum að hringja hjá þeim til Jean svo hann gæti sótt okkur, og keyptum okkur tvo íspinna til að kæla okkur niður, ég var sjálfur alveg að deyja enda þoli ég mikla sól og mikinn hita mjög takmarkað. Síminn var fyrir framan sundlaugina sjálfa og þarna sáum við hana, vatn í henni og allt var svo heiðblátt og heillandi að það var freistandi að hoppa bara útí. Við gátum grátið að vera að deyja úr hita en fá ekki að fara í þessa æðislegu sundlaug.

Þegar heim var komið var farið í sturtu til þess aðeins að kæla sig niður. Kvöldmaturinn var svo kartöfluréttur með rjóma, ekki heldur eitt af uppáhöldunum okkar en annað var ekki í boði.

Comments are closed.